25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég skal vera stuttorður. Mér fannst engin ástæða til fyrir hæstv. fjmrh. að fara svo geyst eins og hann gerði hér áðan. Hann talaði um að þm. hefðu farið út um víðan völl í umræðu. Ég veit ekki betur en að hæstv. fjmrh. hafi sjálfur teygt lopann hér í byrjun. Og er það óeðlilegt þegar verið er að tala um ráðstafanir eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þó að vísu brbl. séu, að talað sé um þann skatt sem mest hefur verið á vörum fólks undanfarið af því að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að setja hann á 1. nóv.? Er það óeðlilegt að tengja það mál þeim umræðum sem hér eru? Ég held ekki. Það er kannski óvinsælt fyrir einhverja að fá slíkt hér inn í umræður og þá eiga menn bara að viðurkenna það.

En það er ekki mikill hetjuskapur að vísa því á dyr. Ég spyr menn: Var það engin búbót fyrir launafólk þegar söluskattur af matvöru var felldur niður á sínum tíma? Var það bara gert út í loftið? Ég hygg ekki. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Hversu miklu hefur verið náð inn af söluskatti gildandi laga? Breytir það öllu hvort bætt er við söluskatti á matvöru til þess að ná öllu inn ef ekki hefur verið hægt að ná inn núna nema tiltölulega litlum hluta, allt hitt hverfur? Nei, hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég hefði að sjálfsögðu þurft að vera nokkru orðlengri en það gefst væntanlega tími til þess. Það er á engan hátt óeðlilegt, hæstv. ráðherra, að menn tengi þessi mál í umræðu á þann veg sem hér hefur verið gert. Það er ósköp eðlilegt og hlýtur að teljast sjálfsagt.