25.11.1987
Neðri deild: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

126. mál, mat á sláturafurðum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég hef líklega ekki talað nógu skýrt í máli mínu áðan því að mér finnst að ýmsar spurningar hafi komið fram sem ég hefði viljað a.m.k. að hefði verið hægt að finna svör við.

Í fyrsta lagi var sláturhúsanefndin að störfum á sl. ári og þá vænti ég þess að hún mundi ljúka þeim fyrr en raun varð á þannig að það yrði hægt að leggja málið fyrir síðasta þing, en það stóð stutt eins og allir vita og því var þess ekki kostur. En úr því að það varð að gefa út brbl. til að fá þessar heimildir fyrir haustið í haust var fráleitt að þau brbl. giltu lengur en til þessa hausts. Það hefði verið óeðlilegt ef hefði verið gengið lengra því að Alþingi hafði vissulega tóm til að fjalla um málið fyrir síðari tíma. Brbl. verður að sjálfsögðu að leggja fram eins og þau voru gefin út. En það sem ég var að reyna að leggja áherslu á í máli mínu var að landbn., og ég mun að sjálfsögðu reyna að hafa gott samstarf við hana, móti þá stefnu fram í tímann sem gefi það tóm sem ræðumenn hafa hér bent á sem er nauðsynlegt að sé fyrir hendi í þessu máli til aðlögunar og nauðsynlegra breytinga.

Ég held að það verði ekki bundið í lög hver má slátra og hver má ekki slátra. Það sem Alþingi getur gert er að meta hvað það vill víkja lengi og í miklum mæli frá þeim kröfum sem allir sem til þekkja eru sammála um að þurfi að gera til þessarar starfsemi. Það var þess vegna m.a. sem ég sagði í máli mínu að ég teldi eðlilegt að fyrsta skrefið væri að alls ekki væri í lögunum heimild til undanþágu fyrir hús ef innan ákveðinnar fjarlægðar væri löggilt hús til staðar sem hægt væri að flytja til. Þá eru ekki rök fyrir slíkri undanþágu. En hversu hratt er gengið í frekari sameiningu er matsatriði og ég beindi því sérstaklega til hv. landbn. að vega það og meta og kalla til hagsmunaaðila. Ég mun reyna að hafa gott samstarf við landbn. um þá stefnumótun.

Ég vil líka leggja áherslu á að ég tel að skýrslan sé ekki eitthvað sem Alþingi beri að löggilda heldur séu þarna fyrst og fremst mjög gagnlegar upplýsingar og ábendingar fyrir það til að vinna eftir og móta sína stefnu. Hins vegar held ég að þeir nefndarmenn hafi unnið mjög vel og samviskusamlega sitt verk. Sjálfsagt þekkja þeir misjafnlega til á landinu, en ég veit að sumir þekkja vel til víða og þeirra aðstoðarmaður var sá sem teiknað hefur líklega öll nýrri sláturhúsin og þekkir því mjög vel til. En eitt af því sem liggur þarna á bak við er að reyna að draga úr sláturkostnaðinum, halda honum í lágmarki. Það er atriði sem hlýtur að skipta bændar ákaflega miklu máli því að miðað við hvernig markaðsaðstæður eru hlýtur það að mótast af verði hversu vel gengur að selja og eftir því sem sláturkostnaður er hærri má búast við að minna geti a.m.k. til lengdar komið í hlut bóndans. Þarna er því um sameiginlegt hagsmunamál neytenda og framleiðenda að ræða.

Ég vonast til þess að ég hafi svarað fyrirspurnum og ég hef reynt að gera ljóst hvernig ég tel að nauðsynlegt sé að afgreiða þetta mál hér á Alþingi.