26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

104. mál, mælingar á geislavirkni á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Herra forseti. Það vekur athygli í fjárhagstillögum fyrir árið 1988 að þar er gert ráð fyrir óbreyttri starfsemi Geislavarna ríkisins þó rík þörf sé á auknum fjárveitingum nú. Bæði er það að nauðsyn á reglubundnum mælingum í umhverfi er mikil og aðkallandi og hitt að Alþjóðakjarnorkustofnunin er nú að leggja Íslendingum til tækniaðstoð til að geta sinnt mælingum í umhverfi á viðunandi hátt. Það sem Íslendingar þurfa að leggja til er húsnæði, starfsmaður og rekstrarkostnaður. Ef þarna kemur ekki til breyting munu Geislavarnir ríkisins ekki geta sinnt þessu verkefni og þar af leiðandi líklega ekki geta þegið þessa aðstoð. Þörf Geislavarna ríkisins mun nú vera umfram það sem áætlað er á fjárlögum u.þ.b. 3 millj. kr. til þess að geta mætt þessu verkefni. Í lögum um Geislavarnir ríkisins nr. 117/1985 segir svo:

„Lögum þessum er ætlað að tryggja nauðsynlegar öryggisráðstafanir gegn jónandi geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum í því skyni að koma í veg fyrir skaðleg áhrif slíkrar geislunar.

Með jónandi geislun er átt við geislun frá geislavirkum efnum, röntgengeislum eða aðra geislun sem hefur hliðstæð líffræðileg áhrif.“

Í reglugerð 356/1986 segir í 8. tölul. 2. gr. að Geislavarnir skuli annast eftirlit með og rannsóknir á geislavirkni í umhverfi, matvælum o.fl.

Það þarf auðvitað ekki í dag að fjölyrða um nauðsyn þess að halda uppi virku eftirliti með geislavirkni, slík er váin allt í kringum okkur. Tsjernóbílslysið var, ef kaldranalega er tekið til orða, holl áminning. Allt í kringum okkur eru þessi efni í ríkum mæli og þó að nú berist að vísu góð tíðindi um afvopnun, þá er ekki þar með sagt að það sé ekki langt í land með að hættu af kjarnorku sé bægt frá. Hér allt í kringum okkur eru bæði kjarnorkuknúin farartæki, farartæki með kjarnorku ýmiss konar innanborðs, bæði í formi vopna og annars, og ekki síst kjarnorkuúrgangur sem verið er að flytja fram og til baka um heiminn í leit að stöðum til þess að losna við þennan úrgang. Það þarf ekki mikið út af að bera til þess að af geti hlotist alvarleg slys og fyrir okkur, sem eigum allt okkar undir öryggi og hreinu umhverfi, er ákaflega mikilvægt að fylgja þessum málum eftir þannig að við getum treyst því að hag þjóðar og lands sé ekki stefnt í voða.

Það er athyglisvert, herra forseti, að hér kemur upp hver fsp. á fætur annarri um mengun og varnir gegn mengun alls staðar í umhverfi okkar. Þetta er ein hlið þess máls. Allt þetta ætti að undirstrika þörfina fyrir Íslendinga að fara að taka myndarlega á þessum málum. Við erum afskaplega illa á vegi stödd víða.

Þess vegna leyfi ég mér að bera upp fsp. til hæstv. heilbrmrh. um hvort haldið sé uppi reglubundnum mælingum á geislavirkni í umhverfi og ef svo er, hvort komið hafi fram einhverjar breytingar. — En fyrirspurnin hljóðar svo:

„1. Eru gerðar reglubundnar mælingar á geislavirkni í umhverfi á Íslandi?

2. Ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður þeirra?"