26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

120. mál, löggæslumál

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 125 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um úrbætur varðandi löggæslu í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði.

Það er ekki að ástæðulausu að þessum málum er hreyft hér einu sinni enn á hv. Alþingi, svo brýn er þörfin á úrbótum. Tvisvar hef ég flutt till. til þál. um lögregluvarðstöð í Mosfellshreppi, nú Mosfellsbæ, sem ekki hafa fengið afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Einnig hef ég flutt áður fsp. um sama efni, bæði vegna Mosfellsbæjar og Garðabæjar, en úrbætur láta á sér standa.

Með ört vaxandi byggð og auknu þéttbýli á þeim svæðum sem lögreglu Hafnarfjarðar er ætlað að þjóna hefur þörfin fyrir aukna löggæslu aukist mikið á undanförnum árum. Á sl. tíu árum hefur íbúum á þessum svæði fjölgað um 35% og fjölgun ökutækja í umdæminu er slík að nærri lætur að bíll sé á hverja tvo íbúa. Umferðarþunginn er því orðinn gífurlegur eins og geta má nærri og á það reyndar við um allt höfuðborgarsvæðið. Allt kallar þetta á aukna löggæslu, en fjölgun í lögreglu Hafnarfjarðar er hins vegar sáralítil.

Það gefur auga leið að við núverandi aðstæður er það útilokað, þó lögregla Hafnarfjarðar sé öll af vilja gerð, að hún geti svo viðunandi sé sinnt því víðfeðma svæði sem tilheyrir umdæminu og nær alla leið inn í Hvalfjarðarbotn. Þó að lögreglan sinni eftirliti í nágrannabyggðarlögunum eftir bestu getu verður það aldrei fullnægjandi fyrr en viðunandi aðstaða, þ.e. varðstöð fyrir lögreglumenn, verður fyrir hendi í byggðarlögum eins og Garðabæ og Mosfellsbæ. Bæjarstjórnir Garðabæjar og Mosfellsbæjar og hreppsnefndir upphreppanna, Kjalarness og Kjósar, hafa ítrekað ályktað um þessi mál og krafist úrbóta með sérstökum lögregluvarðstöðvum í heimabyggðum og t.d. hefur bæjarstjórn Garðabæjar boðið upp á endurgjaldslaust húsnæði fyrir varðstofu.

Á sl. sumri... (Forseti hringir.) Ég er rétt að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Ég hef reynt að halda mig við þingsköp, en mér hefur virst að á þessum fundi hafi tími ræðumanna farið úr böndum svo að ég vænti þess að hæstv. forseti sýni mér umburðarlyndi. (Forseti: Það skal tekið fram að það er engin ástæða að segja að eitthvað hafi farið úr böndum á þessum fundi. Það hefur ekkert farið úr böndum og hv. ræðumaður hefur ekki farið minna fram úr sínum tíma en aðrir.) Ég átti ekki við að stjórn fundar hefði farið úr böndum, hæstv. forseti, heldur tími ræðumanna eins og ég tók sérstaklega fram.

En þar var ég komin máli mínu að ég ætlaði að geta þess að á sl. sumri við hátíðahöld þegar Mosfellsbær öðlaðist kaupstaðarréttindi kom það fram í hátíðarræðu nýskipaðs sýslumanns Kjósarsýslu að lögð yrði áhersla á úrbætur varðandi löggæslu í hinum nýja bæ. Rétt er að geta þess að lögreglubifreiðin er oftar á ferðinni en áður, ekki síst eftir að alvarleg umferðarslys urðu á Vesturlandsvegi í nánd við Brúarland á sl. sumri, en viðunandi þjónusta verður ekki tryggð fyrr en lögregluvarðstöð verður komið upp í Mosfellsbæ sem þjóni jafnframt Kjalarnes- og Kjósarhreppum, ekki síst þegar höfð er í huga fjarlægð þessa svæðis frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Hafnarfirði. Því er þessi fsp. fram komin. Hún er á þskj. 125 í tveimur liðum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til þess að efla löggæslu í þeim byggðarlögum sem heyra undir lögregluna í Hafnarfirði og hvenær má vænta þess að komið verði upp lögregluvarðstöð í Mosfellsbæ sem þjóni jafnframt Kjalarness- og Kjósarhreppum?"