26.11.1987
Sameinað þing: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

132. mál, verndun ósonlagsins

Flm. (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir undirtektirnar og ég leyfi mér að láta þá ósk í ljós að hún og aðrir þm. Framsfl. beiti afli sínu innan ríkisstjórnarinnar til þess að þetta mál fái framgang.

Ég hafði vænst þess að geta átt hér orðastað við nokkra þá hæstv. ráðherra sem með þessi mál fara í ríkisstjórn landsins. Svo er ekki eins og menn sjá og það eru eðlilegar skýringar á þeirra fjarveru, er ég sannfærð um. En það er nauðsynlegt, meðan við ekki höfum umhverfismálaráðuneyti í þessu landi, að ráðherrar sem með einstaka málaflokka fara setji þau verk í forgang. Þar á ég við að félmrh. þarf auðvitað, að mínu viti, að taka strax aftur upp samstarf um umhverfismál á vegum Norðurlandaráðs. Þar á ég líka við það að heilbrmrh. þarf hið fyrsta að fela Hollustuvernd ríkisins eða öðrum aðilum að gera gangskör að því að kanna notkun þessara efna hér á landi. Þar á ég við að utanrrh. má gjarnan líta á bunkann, sem liggur í ráðuneytinu, af óþýddum alþjóðlegum samningum sem flestir hverjir fjalla um mengunarvarnir af ýmsu tagi. Þeir munu vart færri en 30 talsins. Þar á ég líka við að hæstv. iðnrh. má gjarnan hvetja til þess að stofnanir sem undir hans ráðuneyti heyra, svo sem eins og Orkustofnun og Iðntæknistofnun, fái bætta aðstöðu til þess að sinna málum af þessu tagi og öðrum málum sem varða losun úrgangs út í náttúruna og andrúmsloftið.

Ég vænti þess eins og meðflm. minn að till. fái skjótan framgang hér í þinginu.