30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Ellert Eiríksson:

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem margir hafa haft mikinn áhuga á á þessu landsvæði, sem er Reykjanesskaginn, suðurlandsundirlendi, og í þennan hóp ættu ekki síst að bætast Reykvíkingar. Það liggur ljóst fyrir, eins og hefur komið fram á hv. Alþingi, að þm. Reykjavíkur og við sem eigum leið um höfuðborgarsvæðið finnum sífellt fyrir hinum gífurlega vaxandi umferðarþunga sem er einn af fylgifiskum vaxandi bílaeignar í landinu.

Eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykn. í grg. þar getur hann þess að hin nýja staðsetning muni stytta leiðina milli Suðurnesja og Suðurlandsundirlendisins. Með því að stytta og gera þessa leið greiðfærari er augljóst mál að þá mun linna töluvert og lina umferðarþunga og umferð Reyknesinga í gegnum Reykjavík eða Sunnlendinga aftur á móti þegar þeir fara suður á Suðurnes gegnum Reykjavík með sama hætti.

Þetta mál hlýtur því að vera töluvert atriði fyrir Reykvíkinga þegar þeir kvarta sáran yfir umferðarþunga sem hvílir á höfuðborgarsvæðinu og þeim gífurlegu umferðarmannvirkjum sem þeir þurfa að leggja og fjárfesta í til að ná þar ýmsum úrbótum sem þeir stefna að.

Eitt atriði kom ekki fram hjá hv. flm., en það er öryggið af vegi með suðurströnd landsins frá Reykjanesskaganum og austur fyrir land. Með suðurströndinni má segja að menn komist helst eftir þessum slóða ef þeir ætla að fara aðra leið en gegnum höfuðborgina og yfir Hellisheiði. Reykjanesskaginn er eldstöð og svæði þar sem náttúruhamfarir geta komið upp á hvaða tíma sem er og þá eiga íbúar ekki margar aðrar leiðir greiðfærar en Reykjanesbrautina til að fara um ef þeir ætla að yfirgefa svæðið.

Eins hefur verið bent á náttúruhamfarir sem verða þess valdandi að menn þurfa að komast frá Reykjavík. Það er með sama hætti að verða verulegt áhyggjuefni.

Þá skal líta sérstaklega til nýrrar mannvirkjagerðar í samgöngum. Tala ber um að það eigi að setja brýr á gatnamót og brýr á vegi, sérstaklega hvað varðar þá sem þurfa að komast frá Hafnarfirði gegnum Garðabæ og Kópavog og síðan áfram inn úr. Mikið af þessari mannvirkjagerð fer eftir einni ákveðinni línu, en gatnamót, þ.e. brýr, eru ekki í sama plani. Við jarðskjálfta eða aðrar náttúruhamfarir verður þessi gerð gatnamóta mjög erfið umferðar og jafnvel ófær og liggur í augum uppi að þegar ein lína er burðarásinn í samgöngunum er ekki spursmál að menn þurfi að líta til næsta kosts sem er að hafa fleiri vegi, svo sem þarna með suðurströndinni.

Ég vil einnig vekja athygli á að það hefur komið berlega í ljós með fiskeldisstöðvar, sem nú raða sér á Reykjanesskagann, sérstaklega hvað varðar suðurströndina, alla leið frá Höfnum og til Grindavíkur og þaðan austur fyrir Festarfjall til Ísólfsskála og halda jafnvel áfram, að þeir sem að þessum fiskeldisstöðvum standa eru sífellt með óskir um bættar samgöngur.

Þá kemur það fram að í þessari till. er gert ráð fyrir að vegurinn nái til Grindavíkur, en eins og flm. benti réttilega á eru áskoranir frá atvinnurekendum um að það verði tekinn fyrir vegarkaflinn frá Grindavík að Reykjanesvita. Ég tek undir að það verði sett inn í kostnaðar- og framkvæmdaáætlun að sá vegarkafli sem liggur þar verði tekinn sérstaklega til meðhöndlunar.

Fiskmarkaður er eitt af því sem kemur inn í í atvinnulegu tilliti. Það var sagt frá því að nú væri ekki samstarf lengur milli Suðurlands og Suðurnesja heldur kominn einn fiskmarkaður, sem er með aðild Sunnlendinga að fiskmarkaði Suðurnesja, er heitir núna fiskmarkaður Suðurlands. Ef áætlanir þeirra ágætu aðila, sem að þessu standa, ganga fram liggur ljóst fyrir að fiskflutningar fram og til baka frá Suðurnesjum og austur fyrir fjall eða frá Þorlákshöfn og þar í kring og suður eftir munu stóraukast.

Það er enn þá frekari rökstuðningur fyrir því að Reykvíkingum og þeim sem hér búa er mikil nauðsyn að losna undan þeim vaxandi þungaflutningi sem er fyrirsjáanlegur.

Herra forseti. Ég tel hreyft gagnmerku máli og ég mun gera allt sem ég get til að styðja það og treysti að aðrir hv. þm. geri slíkt hið sama.