02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

157. mál, húsnæðislánastofnanir

Flm. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka sem við þm. Borgaraflokksins í Ed. flytjum.

Húsnæðismálin eru einhver mikilvægasti málaflokkur sem kemur til kasta Alþingis á þessu haustþingi. Það má segja að allur almenningur í þessu landi bíði með ofvæni eftir því hvað Alþingi muni koma til með að samþykkja varðandi húsnæðislánakerfið. Húsnæðislánakerfið sem við höfum búið við um áratuga skeið er ónýtt, það sjá allir, og því finnst okkur næsta furðulegt að það húsnæðislánafrv. sem hæstv. félmrh. lagði fyrir þingið í Nd. hefur raunverulega enga grundvallarbreytingu á kerfinu í för með sér. Þar er verið að stoppa upp í eitt gatið enn á stagbættum sokk en ekkert hugað að því að reyna að byggja upp nýtt kerfi frá grunni, reyna að huga að nýjum leiðum og athuga hvort ekki væri hægt að koma hér upp nothæfu húsnæðislánakerfi öllum til hagsbóta.

Borgaraflokkurinn er óbundinn af fyrri mistökum gömlu flokkanna í þessum efnum og hefur lagt mikla vinnu í það að kanna þetta mál til þrautar. Hann leggur nú fram frv. til laga um húsbanka, húsnæðislánastofnanir, þar sem koma fram tillögur um það hvernig mætti hugsanlega leysa þetta vandamál okkar. Það skal tekið fram að þetta er fyrra frv. af tveimur, því samhliða þessu mun nauðsynlegt að leggja fram annað frv., um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem er til hliðar við frv. sem hér er lagt fram. Þarf að gera breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun til að aðlaga þau þeim hugmyndum sem koma fram í frv.

Það sem hefur einkennt húsnæðislánakerfið, ef horft er til baka, er hinn sífelldi fjárskortur og óstöðugleikinn sem einkennir húsnæðislánamálin. Almenningur getur raunverulega aldrei skipulagt íbúðakaup né húsbyggingar í þeirri vissu að hann eigi í vændum öruggt húsnæðislán, þannig að fólk, sem hugar að byggingu eða íbúðakaupum, getur raunverulega ekki séð fyrir hvort það ræður við fjárhagshliðina á dæminu. Það er ævinlega biðröð eftir lánum frá Húsnæðisstofnun. Það er alltaf verið að gera breytingar á kerfinu. Raunverulega er kerfinu bjargað í horn á nokkurra mánaða eða ára fresti, enda kemur það ljóst fram í sjálfum lögunum að það er sífellt verið að breyta þeim. Lögunum er nánast breytt árlega.

Ef horft er hins vegar til nágrannalandanna búa þau við mjög stöðugt og öruggt húsnæðislánakerfi sem hefur nánast verið óbreytt um áratuga skeið. Hjá sumum nágrannaþjóðunum hefur jafnvel ekki verið um teljandi breytingar á húsnæðislánakerfinu að ræða í heila öld.

Síðan eru ýmsir annmarkar sem fylgja húsnæðislánakerfinu sem mætti rekja hér, m.a. hvernig lánskjörum er hagað, hvernig lánin eru afgreidd og yfirleitt allur afgreiðslumáti lánanna af hálfu Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Nú skal ekki sakast við þá ágætu menn sem hafa stýrt Húsnæðisstofnun ríkisins. Þeir hafa allir reynt að gera sitt besta. Embættismennirnir hjá Húsnæðisstofnun ríkisins hafa unnið samviskusamlega innan þess lagaramma sem þeim hefur verið skammtaður.

Ef við tökum fyrst hvernig þróun mála hefur verið hér allra síðustu árin og mánuðina komu gömlu flokkarnir sér saman um að það þyrfti að stórauka lánshlutfallið í þeim íbúðum sem veitt væru lán til hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. úr Byggingarsjóði ríkisins. Að sjálfsögðu hafa öll lán í seinni tíð verið verðtryggð með lánskjaravísitölu. Þetta hefur haft í för með sér að þegar keypt er íbúð í dag með láni úr Byggingarsjóði ríkisins sem fylgir lánskjaravísitölu og lánsupphæðin er í upphafi um það bil 80% af matsverði íbúðarinnar er það alveg ljóst að eftir nokkur ár á kaupandi þessarar íbúðar ekkert í íbúðinni. Það er Byggingarsjóður ríkisins sem raunverulega á íbúðina því söluverðmæti íbúðarinnar heldur engan veginn í við verðbæturnar, þ.e. uppfærslu höfuðstóls lánsins. Hann er e.t.v. orðinn yfir 100% af söluverðmæti íbúðarinnar eftir nokkur ár. Það má því segja að sjálfseignarstefnan sem slík sé hrunin. Þeir sem hafa tekið þessi lán eiga ekkert í íbúðum sínum. Þeir eru einungis leiguliðar hjá Byggingarsjóði ríkisins og fá að búa í íbúðinni svo lengi sem þeir standa í skilum. Lánssamningur þeirra, eins og síðustu lög segja til um, er til 40 ára og það er sá leigusamningur sem þeir hafa gert við Byggingarsjóð ríkisins.

Þrátt fyrir þessa augljósu vankanta á húsnæðislánakerfinu hefur lítið borið á raunhæfum hugmyndum til þess að breyta því þannig að við getum fengið nothæft húsnæðislánakerfi. Síðustu aðgerðir miða að því að reyna að bjarga lánakerfi sem er komið í þrot.

Það munu nú vera um 6000 umsóknir óafgreiddar hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Því gerir húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. í reynd aðeins tilraun til þess að leysa þetta einstaka vandamál, þ.e. biðraðirnar, með því að takmarka aðgang þeirra sem áður áttu rétt á húsnæðislánum til slíkra lána og reyna að koma biðröðunum upp í eitthvert skipulegt horf. Samkvæmt húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. mun vera ætlað að þegar þrír mánuðir eru liðnir frá því að umsókn hefur verið lögð inn fái viðkomandi upplýst hvort umsóknin sem slík hafi verið í lagi. Síðan líður einhver óskilgreindur tími sem enginn veit hve verður langur og síðan er sagt að ári áður en fyrsti áfangi lánsins komi til greiðslu fái umsækjandi upplýst hvort umsóknin hafi verið í lagi, hvort hann sé lánshæfur. Þannig er stefnt í það að varanleg biðröð verði eftir lánum, að íbúðakaupendur og húsbyggjendur þurfi í reynd að bíða í nærri tvö ár eftir því að fá lán frá því að umsókn var lögð inn ef ekki mun lengur.

Það sem enn fremur hefur einkennt húsnæðiskerfi Íslendinga er að það er algerlega á vegum ríkisvaldsins. Þessu er háttað með ýmsum hætti hjá nágrannaþjóðunum, allt frá því að ríkislán eru mjög áberandi og í það að ríkið tekur engan þátt í fjármögnun húsnæðislána og hefur komið þeim yfir á sjálfstæðar stofnanir sem sjá um öll húsnæðislán.

Við erum þeirrar skoðunar að það sem mundi henta best hér á landi væri að taka upp tvöfalt húsnæðislánakerfi, þ.e. að Húsnæðisstofnun ríkisins og Byggingarsjóður ríkisins sjái einungis um að lána þeim sem minna mega sín. Eins og við leggjum til í því frv. sem við munum leggja fram fljótlega til breytinga á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, verði einungis heimilt að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði, til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og til orkusparandi breytinga á húsnæði sem hér segir:

1. Íbúðir fyrir láglaunafólk sem áður voru kallaðar verkamannabústaðir. Ég held að miklu eðlilegra sé að tala um íbúðir fyrir láglaunafólk því láglaunafólk er orðið miklu fjölmennara í þessu þjóðfélagi en verkamenn einir sér.

2. Íbúðir fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Við teljum að það sé sanngjarnt og eðlilegt að ríkið veiti þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á starfsævinni og standa frammi fyrir því þrekvirki að þurfa að koma sér upp þaki yfir höfuðið hagstæðari lán til þess en hinum sem eru komnir vel á veg, standa traustum fótum í kerfinu, eiga e.t.v. íbúðir skuldlitlar og þurfa því ekki á hagstæðum lánum að halda. Síðan er eðlilegt að Húsnæðisstofnun ríkisins sjái um verndaðar íbúðir fyrir öryrkja, verndaðar íbúðir fyrir aldraða og leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka.

Því þarf, eins og ég gat um áðan, að breyta lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og ég lít svo á að þar þurfi að fara fram allsherjar hreingerning því sá lagabálkur er orðinn uppsafnaður vandi undanfarinna ára, byggir á alls kyns klisjum og röngum staðhæfingum sem ekki fá staðist. Ekki einu sinni innbyrðis í lögunum. Það eitt að taka þau lög til rækilegrar hreingerningar er þarfaverk.

Eitt af því sem er eðlilegt að gera þegar ljóst er það að þar sem Byggingarsjóði ríkisins er einungis ætlað að taka að sér það hlutverk sem hér hefur verið greint frá, þá er eðlilegt og sjálfsagt að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Húsnæðisstofnun ríkisins annist þannig aðeins lánveitingar úr einum sjóði til félagslegra íbúða og veiti þeim lán sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Við að fara yfir starfshætti og þau lög sem Húsnæðisstofnun ríkisins starfar eftir eru augljósar veilur bæði í lögunum og þeim starfsramma sem stofnuninni er ætlaður skv. þeim. Ég tel að starfsemi stofnunarinnar yrði miklu virkari og meira stefnumótandi ef hún yrði gerð að eins konar bankastofnun. Þess vegna munum við í frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins leggja til þá breytingu að Byggingarsjóður ríkisins verði algerlega í vörslu Húsnæðisstofnunar ríkisins sjálfrar, en ekki í vörslu Seðlabanka Íslands. Starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins fari fram í tveimur deildum, þ.e. bankadeild sem annist vörslu á Byggingarsjóði ríkisins, sjái sjálf um öll útlán, bæði innheimtu þeirra og útreikning og afgreiðslu. Síðan tæknideild sem er nauðsynleg til þess að á vegum Húsnæðisstofnunar sé sterkur aðili sem geti séð um mat á íbúðum og alls kyns þjónustu bæði við þá aðila sem taka lán hjá stofnuninni og yfirleitt við húsnæðiskerfið í landinu.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem við flm. höfum fengið er talið að þeir aðilar, sem þannig ættu rétt á lánum hjá Húsnæðisstofnun úr Byggingarsjóði ríkisins, muni vera tæplega 40% af þeim sem eru að sækjast eftir lánum til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði hverju sinni. Miklu stærri hópur eða rúmlega 60% á sína íbúð fyrir, hefur væntanlega áður fengið hagstæð lán til þess að kaupa þá íbúð og stendur traustum fótum í kerfinu. Aðilum í þeim hópi er því ekkert í kot vísað þótt þeir þurfi að taka eitthvað óhagstæðari lán á markaðsvöxtum hjá sjálfstæðum stofnunum sem ekki geta greitt niður vexti eins og Húsnæðisstofnun ríkisins hefur gert undanfarið.

Til þess hins vegar að tryggja aðgang þessa stóra hóps að hagstæðum langtímaveðlánum vegna fjárfestingar í fasteignum telja flm. að það sé nauðsynlegt að koma upp sérstökum húsnæðislánastofnunum eða húsbönkum, sem hafi það hlutverk eingöngu að sjá um slík veðlán. Það hefur oft heyrst og margir hafa komið með þá skoðun að það eigi að vísa öllum húsnæðislánum til bankakerfisins. Það er gott og vel en ég er þeirrar skoðunar að bankakerfið, eins og það hefur verið á Íslandi, sé alls ekki sá aðili sem sé heppilegur til að taka að sér langtímaveðlán vegna íbúðarbygginga. Bankakerfið hefur allt öðru hlutverki að gegna. Því er ætlað að sjá um að atvinnulíf landsmanna sé í lagi, veita rekstrarlán til fyrirtækja og skammtímaneyslulán til einstaklinga, vegna Mallorca-ferða, til þess að kaupa bíla, svo dæmi séu tekin. Ég sæi þá sem þyrftu að sitja á biðstofum bankastjóra innan um aðra sem eru að reyna að fá skammtímaneyslulán og koma svo næstur á eftir og biðja um 40 ára veðlán til íbúðarbygginga. Ég held að þetta fari ekki saman. Þess vegna er áreiðanlega miklu heppilegra að reka hér sjálfstæðar húsnæðislánastofnanir eða húsbanka sem hafi þetta hlutverk eingöngu.

Við gerum hins vegar ráð fyrir því að bankarnir, hagsmunasamtök launþega og sérstaklega lífeyrissjóðirnir, sem eru nú fullir af peningum (Gripið fram í: Ekki allir. ) — ég vona að hv. 14. þm. Reykv. muni segja okkur eitthvað um peningamagn þeirra hér á eftir — að þessir aðilar geti tekið höndum saman og komið upp slíkum sjálfstæðum húsnæðislánastofnunum eða húsnæðisbönkum. Hins vegar er mjög mikilsvert að vel til takist. Því er þetta frv. til laga um slíkar stofnanir sett fram, til þess að þeim sé skapaður lagarammi svo undirbúningur slíkra lánastofnana geti hafist.

Þetta lagafrv. byggir að nokkru leyti á erlendum fyrirmyndum og þó að hér hafi áðan í ræðustóli verið talað um að við höfum verið óheppnir þegar við vorum að sækja hugmyndir um virðisaukaskatt til Danmerkur, þá held ég að okkur sé ekki í kot vísað ef við sækjum hugmyndir um húsnæðislán þangað. Það er mál þeirra sem gerst þekkja til á Norðurlöndunum að hvergi sé sterkara né öflugra húsnæðislánakerfi í gangi en einmitt í Danmörku. Þannig að þótt margt annað fari miður í Danaveldi þá getum við sótt góðar hugmyndir um rekstur húsnæðislánakerfis til frænda okkar í Danmörku.

Hins vegar fengu Danir þær hugmyndir sem þeir byggja húsnæðislánakerfi sitt á að láni frá Þjóðverjum. Þess er getið í grg. með frv. að húsnæðislánastofnanir í því formi sem þeim er lýst í þessu frv. byggja í raun á ævagömlum hugmyndum Friðriks mikla Prússakonungs, en hann setti þessar hugmyndir fram í stjórnartíð sinni til þess að auðvelda þýsku borgarastéttinni að eignast eigið húsnæði. Þýskar húsnæðislánastofnanir eftir fyrirmynd hans komu til sögunnar um miðbik átjándu aldar í Þýskalandi. Danir gerðu fyrst tilraun til þess að nýta sér þessar hugmyndir í lok átjándu aldar. Það var þó ekki fyrr en um miðja nítjándu öld að fyrstu húsnæðislánastofnanirnar komu til sögunnar í Danmörku. Má segja að starfsemi þessara húsnæðislánastofnana hafi haldist tiltölulega óbreytt alla götur síðan, í meira en heila öld. Húsnæðislánastofnanirnar byggja fyrst og fremst á því grundvallarsjónarmiði að lántakendur sjálfir mynda með sér félagsskap þar sem þeir ábyrgjast einn fyrir alla og allir fyrir einn öll útlán stofnunarinnar. Auðvitað hljóta þessar stofnanir sem aðrar stofnanir að þróast með breyttum tímum og í seinni tíð er talið eðlilegra að slíkar húsnæðislánastofnanir séu reknar í formi hlutafélags án þessarar samábyrgðar. Í frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka er gert ráð fyrir báðum þessum möguleikum. Hins vegar förum við ekki í grafgötur með það að væntanlega yrði auðveldara að koma hér á húsbönkum í hlutafélagaformi ef lagt yrði af stað út á þessa braut.

Aðferðin við það að standa undir húsnæðislánum, eins og hér er gert ráð fyrir, er hin sama, þ.e. að húsbankinn eða húsnæðislánastofnunin gefur út og selur sérstök húsbréf til þess að útvega það fjármagn sem þarf. Þetta út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt né einkennilegt. Þetta er nákvæmlega það sama og við sjáum í fjármálalífi Íslendinga um þessar mundir þar sem bæði fyrirtæki og ýmsar sjálfstæðar stofnanir stunda það að gefa út og selja alls kyns verðbréf sem síðan ganga kaupum og sölum. Fyrirtæki sem þurfa á lánum að halda hafa farið inn á þá braut í æ ríkara mæli að gefa út skuldabréf til sölu á frjálsum mörkuðum. Hins vegar eru tillögur flm. að því leytinu til frábrugðnar að þetta er eftir ákveðnu kerfi sem er þrautreynt, bæði í Þýskalandi og Danmörku, og hefur reynst ákaflega vel. Það sem er undirstaðan í þessu kerfi er það að litið er á þessi húsbréf, sem eru undirstaða útlánanna, nánast eins og gull. Þau eru talin fullkomlega traust og áreiðanleg og almenningur og velflestar peningastofnanir kjósa mjög gjarnan að geyma lausafé sitt í slíkum húsbréfum.

Það er grundvallaratriði í þessum hugmyndum að það sé algjör jöfnuður á milli útgáfu húsbréfa og þeirra lána sem eru veitt. Þess vegna þarf að setja á markað stöðugt ný og ný húsbréf til þess að standa undir nýjum útlánum. Það er yfirleitt gert með því að gefnar eru út nýjar og nýjar raðir húsbréfa samfara því að útlán eru veitt. Þetta gerir það að verkum að biðraðir eftir húsnæðislánum eru nánast óþekkt fyrirbrigði í þessum löndum. Samkvæmt upplýsingum stærsta húsnæðislánafyrirtækis Danmerkur, Kreditforeningen Danmark, þá þekkja þeir dæmi þess að lánsumsókn, sem hefur borist fyrir hádegi á mánudegi, er afgreidd í vikunni og lánið greitt út á föstudegi. Þannig að það tekur tæpa viku að fá lánið afgreitt meðan á Íslandi þarf að bíða kannski í þrjú ár eftir að fá húsnæðislán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Margs konar nýjungar hafa verið teknar upp í sambandi við sölu og skráningu húsbréfa. Það sem hefur gerst á allra síðustu árum er að hætt er að gefa þessi bréf út í skjalformi, heldur eru þau aðeins til sem rafeindaboð, það er talað um svokölluð rafeindabréf. Þau eru aðeins til í tölvukerfum verðbréfamiðstöðvar og stórbanka, tryggingafélaga og verðbréfasala og síðan kaupa þessir aðilar og selja heilu blokkirnar af húsbréfum án þess að þau séu nokkurn tíma skráð á pappír.

Í þeim tillögum sem við höfum viðrað hér höfum við farið allítarlega inn á þau lánskjör sem talið er eðlilegt að bjóða væntanlegum lántakendum húsnæðislána hjá slíkum stofnunum. Reyndar á það ekkert síður við um þau lánskjör sem eru boðin almenningi í tengslum við húsnæðislán Húsnæðisstofnunar ríkisins. Við viljum að gerð sé tilraun til þess að brjótast út úr myrkviðum lánskjaravísitölunnar. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að lánskjaravísitalan, eins og hún hefur virkað, hefur haft alveg óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna og fyrir hag alls almennings. Hvernig hún er reiknuð út virkar á afar ósanngjarnan hátt. Hvernig hún er sett saman virkar oft mjög hjákátlega. Sem dæmi má nefna að þann dag sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar leggur á 10% matarskatt, hækka skuldir íbúðareigenda við húsnæðislánakerfið um 1 milljarð kr. Og þá spyr ég: Hvað á 10% matarskattur sameiginlegt með húsnæðislánum íbúðareigenda? Er eitthvert samhengi þarna á milli? Ég spyr.

Á þeim átta árum sem eru liðin síðan lánskjaravísitalan var tekin í notkun hefur hún átjánfaldast. Byggingarvísitalan hefur rúmlega sextánfaldast. En á sama tíma hefur verðgildi bandaríkjadals ellefufaldast og dönsku krónunnar nífaldast. Þess vegna hef ég tekið hér sem dæmi að hefði einhver fengið leyfi til þess að taka danskt húsnæðislán í júní 1979, skuldaði hann margfalt minna í dag en sá sem hefði tekið jafnhátt íslenskt húsnæðislán skv. lánskjaravísitölu með sömu afborgunarskilmálum.

Ég hef gert tilraun til að sýna verðlagsþróun með töflu sem er birt í grg. með frv. Það eru engar nýjar upplýsingar sem þarna liggja frammi, enda hefur mönnum verið tíðrætt um það misrétti sem launafólk hefur verið beitt á þessu landi einmitt vegna lánskjaravísutölunnar.

Það er mat þeirra sem gerst þekkja til þessara mála í nálægum löndum, að eigi að verðtryggja fjárskuldbindingar þá verði að gera það í takt við kaupgjaldsvísitölu. Annars gerist nákvæmlega það sama og gerst hefur hér á landi, að fólk á erfiðara og erfiðara með að borga af lánunum. Það ræður ekkert við lánin þar sem kaupið hækkar yfirleitt langtum minna en lánskjörin. Því höfum við bent á ýmsa aðra valkosti sem koma til greina þegar verið er að stilla upp og bjóða fram húsnæðislán.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið þá er það athyglisvert að nágrannaþjóðirnar hafa yfirleitt farið mjög lítið inn á þá braut að verðtryggja lán. Nú skal það viðurkennt að það ástand mála sem hefur ríkt á Íslandi undanfarna áratugi gerði það að verkum að það var engin önnur leið fær þegar verðbólgan var komin hér langt yfir 100%, en að grípa til einhverra slíkra harkalegra aðgerða. En það er ekki þar með sagt að við eigum síðan að búa við afleiðingar þess um aldur og ævi.

Það eru ýmsar aðrar leiðir eins og hér er bent á til þess að bjóða langtímaveðlán með sanngjarnri verðtryggingu sem kemur bæði lánveitendum og lántakendum til góða.

Ég nefni fyrst húsnæðislán í formi vaxtaaðlögunarlána. Þau ryðja sér nú til rúms á mörkuðum erlendis og í fylgiskjali með frv. hef ég sýnt tilboð danskra húsnæðislánastofnana á þýskum lánamarkaði í Frankfurt í formi vaxtaaðlögunarlána. Það út af fyrir sig er mjög athyglisvert að danska húsnæðislánakerfið skuli vera svo yfirfullt af peningum að leitað er til annarra landa til þess að veita húsnæðislán. Dönsku húsnæðislánalöggjöfinni var breytt á árinu 1986 og sett inn ný ákvæði þess efnis að dönskum húsnæðislánastofnunum er nú heimilt að lána til allra þeirra landa sem eiga aðild að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD. Hafa danskar húsnæðislánastofnanir nú þegar hafið starfsemi sína í Portúgal, Þýskalandi og Wales. Vaxtaaðlögunarlánin eru hugsuð með þeim hætti að lántakandi og lánastofnunin gera samning sín á milli um fasta vexti til skamms tíma. Við skulum hugsa okkur að lántakandi ætli sér að taka 40 ára veðlán hjá húsnæðislánastofnun. Hann gerir þá samning við stofnunina um það að vextir séu bundnir til ákveðins tíma, kannski fimm ára eða jafnvel skemur, þriggja ára. Síðan hefst afborgunarrunan miðað við 40 ára lánstíma. Að fimm árunum liðnum, hafi verið samið um fasta vexti í fimm ár, kemur lántakandinn á nýjan leik til lánastofnunarinnar og það er aftur samið um fasta vexti til næstu fimm ára og lánið er stillt af þannig að gefið er út nýtt skuldabréf með nýju sölugengi og þannig tekið tillit til verðlagsþróunar hverju sinni. Lántakandinn þarf því ekki að horfa upp á það að höfuðstóll lánsins vaði upp úr öllu valdi og hann skuldi orðið tvöfalt söluverð íbúðarinnar áður en yfir lýkur, eins og hér virðist stefna í á Íslandi.

Þá höfum við bent á annað lánsform sem ég tel að gæti komið sér afar vel hér. Það eru lán með greiðslumarki og afkomutryggingu. Slík afkomutrygging hefur lengi tíðkast t.d. í Bandaríkjunum. Þar er hægt að kaupa afkomutryggingu m.a. hjá líftryggingarfyrirtækjum. Lántakandi, sem t.d. tekur 25 ára veðlán, kaupir um leið afkomutryggingu hjá líftryggingarfélagi. Hún gengur út á það að í upphafi er sett greiðslumark á lánið, þ.e. það er gert samkomulag milli lántakanda og húsnæðislánastofnunar um það hvert sé gjaldþol lántakandans í upphafi. Greiðslubyrði af láninu má síðan ekki fara upp fyrir þetta greiðslumark á lánstímanum. Nú getur verðlagsþróun verið þannig, ef lánið er stillt af í takt við verðlagsþróunina, að það sé óhjákvæmilegt að greiðslubyrðin verði að fara yfir þetta greiðslumark. Þá kemur til afkomutryggingin, þ.e. tryggingarfélagið tekur að sér að greiða mismun á greiðslumarki og gjaldþoli lántakanda ef hann hefur orðið fyrir atvinnumissi, slysi, heilsutjóni, misst maka eða eitthvað annað hefur rýrt hag hans. Þannig er hægt að koma í veg fyrir greiðsluerfiðleika hjá fjölda fólks sem annars lendir í vandræðum vegna þess að það stendur skyndilega uppi með minni tekjur en það ætlaði í upphafi lánstímans.

Það er skoðun flm. að við væri hreyft einhverjum af þessum hugmyndum og reynt að hugsa þessi mál dálítið á nýjan leik í stað þess að vera með eilífar „reddingar“ á handónýtu húsnæðislánakerfi, eins og hér hefur tíðkast undanfarin mörg ár, þá væri vel af stað farið. Þá væri kannski hægt að brjótast út úr þeim frumskógi sem við erum komnir inní með húsnæðislánamálin.

Að lokum er svo rétt að fara yfir einstakar greinar frv. eftir því sem þær þurfa skýringa við.

Um 1. gr. er það að segja að lagt er til að félmrh. hafi eftirlit og umsjón með starfsemi slíkra húsbanka sem fást einungis við lánveitingar til húsbygginga, aðallega íbúðarhúsa. Slíkir húsbankar koma til með að sinna þeim sem ekki eiga rétt til lána úr Byggingarsjóði ríkisins, sem eingöngu er ætlaður til lána fyrir félagslegar íbúðarbyggingar og stofnanir, svo það sé ítrekað einu sinni enn.

Um 2. gr. er það að segja að við teljum nauðsynlegt að félmrh. setji sérstaka reglugerð um starfsemi slíkra húsnæðislánastofnana. Það þarf að tryggja mjög rækilega hagsmuni lántakenda og veita þeim þá vernd sem er nauðsynleg til þess að þetta húsnæðislánakerfi virki alveg snurðulaust. Á sama hátt verður að sjálfsögðu að tryggja að húsnæðislánastofnanirnar fái traustan rekstrargrundvöll og bolmagn til þess að sinna hlutverki sínu.

Um 3. gr. er það að segja að þar er miðað við að húsbankar og húsnæðislánastofnanir fái einkarétt á því að nota þessi heiti ef þær starfa undir eftirliti félmrh. og með samþykki hans. Enn fremur er þar kveðið á um einkarétt húsbanka og húsnæðislánastofnana til útgáfu á sérstökum húsnæðisbréfum.

Um 4. gr. Þar er vikið að stjórn stofnunarinnar. Við teljum eðlilegt að stjórn húsnæðislánastofnana eða húsbanka starfi í líkingu við bankaráð og stjórnir hlutafélaga. Þá teljum við eðlilegt að fulltrúar lántakenda eigi sæti í stjórnum húsnæðislánastofnana og að félmrh., með hliðsjón af því stranga eftirlitshlutverki sem honum er ætlað, geti einnig skipað fulltrúa í stjórnina.

Í 5. gr. er enn kveðið nánar á um eftirlitshlutverk félmrh. Við teljum að það sé óhjákvæmilegt að þessar stofnanir verði undir mjög ströngu eftirliti til þess að almenningur geti borið fullt traust til þeirra.

Um 6. gr. er það að segja að þar viljum við opna möguleika fyrir því að geta tekið upp samstarf við erlendar húsnæðislánastofnanir. Ef það er svo að erlendar húsnæðislánastofnanir í nálægum löndum eru svo yfirfullar af peningum að þær eru í vandræðum með að finna lántakendur, því þá ekki að leyfa þeim að koma hingað í samstarfi við íslenskar húsnæðislánastofnanir og veita lán hér? Ég tel a.m.k. ekki óeðlilegt að viðra slíkar hugmyndir strax í upphafi og þess vegna er þessi grein sett þarna inn.

Um 7. gr. er það að segja að hún er hliðstætt við það sem má finna í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er eðlilegt að gerðar séu ákveðnar gæðakröfur til bygginga og að ákvæði séu um að byggingar skuli vera í samræmi við gildandi lög, þ.e. í samræmi við skipulagsreglur og byggingarreglugerðir.

Um 8. gr. er það að segja að við teljum að húsnæðisstofnunin eigi sjálf að bera ábyrgð á því hvaða matsverð hún leggur til grundvallar lánunum. Að sjálfsögðu tekur hún mið af upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins, brunabótamati og áætluðu söluverðmæti eignar, en það verður að vera algjörlega á ábyrgð húsnæðislánastofnunar að ákveða það matsverð sem hún ætlar að lána út á. Erlendis, þar sem eru starfandi margar slíkar húsnæðislánastofnanir, er oft um að ræða mjög fjöruga samkeppni milli þeirra. Það gerist með þeim hætti að væntanlegur lántakandi, þ.e. aðili sem er að byggja eða kaupa sér íbúð, leitar til fleiri en einnar húsnæðislánastofnunar, biður um lánstilboð. Í raun keppast þær um að lána honum. Það er þeirra hlutverk og hann tekur að sjálfsögðu því lánstilboði þar sem matsverðið er hæst metið af viðkomandi stofnun.

Ég vek athygli á því, eins og er sagt frá í umsögn um 8. gr., að húsnæðislánastofnunin getur ekki veitt framkvæmdalán eins og hefur tíðkast af hálfu Húsnæðisstofnunar ríkisins vegna þess að það brýtur í bága við það jöfnunarákvæði að það ríki ávallt jöfnuður milli útgáfu húsbréfa og veittra útlána. Þess vegna er farin önnur leið þar sem hægt er að veita veðlán til framkvæmda út á áætlað matsverð byggingar. Síðan verður að sjálfsögðu að endurlána til eignarinnar þegar byggingu hennar er lokið þannig að hér er um nokkurs konar framkvæmdalán að ræða. Þau verða hins vegar að fylgja því að jafnvægi sé milli útgáfu húsnæðisbréfa og útlána.

Ég held ég geti hlaupið yfir 9. gr., það má segja að hún skýri sig sjálf.

Í 10. gr. er lýst uppruna þess fjármagns sem er notað til útlána. Það er, eins og ég hef getið um áður, fengið með sölu húsbréfa á frjálsum markaði. Húsbréfin eru skilgreind eins og hver önnur verðbréf eða spariskírteini sem hafa ákveðið sölugengi á hverjum tíma og kemur það til með að endurspeglast í þeim lánskjörum sem stofnunin getur boðið. Að sjálfsögðu, það er ljóst, verða lánskjör slíkrar stofnunar í dag að vera með markaðsvöxtum. Það er lítið við því að gera. Hins vegar hlýtur að vera jákvætt markmið í sjálfu sér að það séu til stofnanir sem geta boðið upp á langtímaveðlán, jafnvel þó að þau séu með háum vöxtum. Þeir lántakendur sem væntanlega koma til með að skipta við þessar stofnanir, eins og var getið um í upphafi, eru að stækka við sig eða breyta eða flytja sig á milli staða. Þeir þurfa því ekki á eins miklum veðlánum að halda og þeir sem eru að byrja í fyrsta sinn. Ég hef því trú á að þessi lán geti orðið mun minni að upphæð en þau húsnæðislán sem Húsnæðisstofnun ríkisins kemur til með að þurfa að veita. Ef við kæmumst hins vegar með skynsamlegum aðgerðum út úr myrkviði lánskjaravísitölunar, þá gæti vel farið svo að hægt væri að bjóða hér skynsamleg langtímaveðlán án þess að þau virki sem hengingaról á þann sem hefur tekið þau.

Í þeim löndum sem hafa notað húsbréf til þess að fjármagna húsnæðislán var áður fyrr algengt að stofnunin afhenti í raun og veru aldrei neina peninga. Lántakandinn fékk aðeins í hendurnar bunka af húsbréfum sem voru að nafnverði jafnhá því skuldabréfi sem lántakandinn hafði skrifað upp á og afhent stofnuninni, þ.e. það er upphæð lánsins. Síðan var það lántakandans að fara með þennan bunka af húsbréfum í banka og selja þau eða biðja einhvern banka um að selja þau fyrir sig. Bankinn selur þessi húsbréf á daggengi og það verða þeir peningar sem lántakandinn fær í hendurnar. Þetta fyrirkomulag er úrelt í dag, sérstaklega eftir að rafeindabréfin voru tekin upp. Í dag eru yfirleitt öll lán veitt sem peningalán þannig að lántakandinn veit í sjálfu sér lítið um þessi húsbréf. Þau fara aldrei um hans hendur.

Um 11. gr. er það að segja að þar hef ég talið rétt að skilgreina betur sjálft lánsformið hvað varðar uppsetningu lánanna, annaðhvort í formi jafngreiðslulána, það sem hefur verið kallað annuitetslán eða í formi raðlána, það sem á erlendu máli er kallað seríulán. Það er ótrúlegt hvað við höfum farið mikið inn á það að veita lánskjaravísitölulán með annuitets-formi, vegna þess að það form veldur einmitt því að höfuðstóllinn veður upp úr öllu valdi fyrstu árin og kannski lengi fram eftir lánstímanum. Það væri strax skárra að nota raðlán þar sem afborgun ásamt verðbótum er föst upphæð. Það þvingar höfuðstól lánsins niður þó að það valdi að sjálfsögðu miklu erfiðari greiðslubyrði lántakandans í upphafi. Best væri að sjálfsögðu að losna alveg út úr þessum verðtryggingarfrumskógi og fara taka upp lán eins og ég hef getið um áður, t.d. vaxtaaðlögunarlánin, sem koma sér miklu betur fyrir lántakandann. Einnig er hér bent á þann möguleika að blanda þessum lántegundum saman, þ.e. raðlánum og jafngreiðslulánum, og með þeim hætti koma á skynsamlegri afborgunarrunu.

Ég held að þær greinar sem eftir eru skýri sig að mestu sjálfar. Ég vek athygli á 17. gr., þar sem er talað um að ekki fari saman afskipti af stjórn húsnæðislánastofnana og venjulegra bankastofnana. Því eru sett inn ákvæði í frv. um það að bankastjórar venjulegra banka skuli ekki taka sæti í stjórnum húsnæðislánastofnana.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri og leyfi mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.