19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Magnússon:

Eg ætla ekki að tala langt um það, að lækka skrifstofufé bæjarfógeta í Reykjavík. Embættið var auglýst með 1400 kr. skrifstofufé. Mér er alveg sama, þó deildin færi það niður, en þá verður það að vera dómstólarnir, er skera úr því, hvort það muni vera löglegt. En lög ákveða nú þetta, og sem sagt embættið er auglýst með 1400 kr. í skrifstofufé, og um það sótt þannig.

Eg hefi mælst til, að læknirinn við geðveikrahælið fái sanngjarna þóknun fyrir að kenna lagalega læknisfræði við læknaskólann. Eg álít, að það sé hart, að skylda manninn til þess, að gera þetta starf án nokkurs endurgjalds, einkum þegar tekið er tillit þess, að hann á heima eigi all-skamt frá bænum.