19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Eg verð að láta í ljósi undrun mína yfir ræðu þeirri, sem eg hefi hlustað á nú um stund, og sem háttv. 2. þingm. Árn. (S. S.) flutti. Eg get ekki séð, að það standi í nokkru sambandi við Forberg, hvort leggja á niður sýslutillög til símanna eður eigi. Þetta er stefna, sem hann hefir engin áhrif á, því að hans hlutverk er að segja hvar og hvernig eigi að leggja símann, en ekki það, hverjir eigi að borga. Fjárlaganefnd á að ráða úr því máli og komast niður á, hver stefnan eigi að vera.

Eg þykist þess fullviss að háttv. 2. þingm. Árn. (S. S.) verði með mér, þegar eg ber breyt.till. mína fram við 3. umr, af því hann er samdóma mér í aðalstefnunni, að það er ranglátt að láta sum héruð þurfa að borga stórfé til símans en sum fá hann fyrir ekkert. Það er í rauninni ekkert annað en að leggja sérstakt gjald á þau héruð, sem eru svo óheppin að liggja ekki í leið aðallínunnar. Eg verð því að halda því fram, að hið eina rétta sé að landssjóður borgi allan kostnað við símalagningar, svo að kostnaður jafnist niður á alla, því það verður réttast í þessu máli.

Mér dettur ekki í hug að taka till. aftur, og eg vonast til að hvorki eg eða aðrir þurfi að halda fleiri ræður til þess að verja till. Hún er of réttmæt til þess, að búast þurfi við árásum á hana.