20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Það voru svo margir, er kölluðu til mín í gærkveldi, að eg hefði þurft að svara ýmsu; en stuttorður skal eg vera. Því get eg lofað.

Háttv. þm. Sunnmýlinga reyndu að vefengja framburð minn um orðabókina, en heldur ófimlega þótti mér þeim fara það. Mér þykir undarlegt að háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) skyldi ekki sýna fjárlaganefndinni handrit að bók sinni, hafi það verið nokkuð til; þá hefði verið hugsandi að hann gæti komið út 25 örkum á ári, en án þess alls ekki. Þá mundi eg trúa, ef eg sæi, en þangað til efa eg þessa sögusögn þm.

Allir hljóta að vita, að það að semja orðabók, er mjög fyrirhafnarmikið og örðugt verk, og þarf eigi að minna á annað því til sönnunar en það, að Jón heitinn Þorkelsson skólastjóri varði til þess starfa feikilöngum tíma, og var hann þó manna starfsamastur, svo sem kunnugt er. Og mönnum hlýtur að skiljast, að það er mjög mikið vandaverk að semja góða þýzk-íslenzka orðabók. En eins og eg tók fram í gær er þessi maður, er um styrk sækir til þessa verks allra manna færastur til að leysa það vel af hendi.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði, að hér væri nú með okkar þjóð skáld uppi, sem alveg væri eins mikil ástæða til að styrkja og Guðm. skáld Guðmundsson, og nefndi þar til hr. Guðmund Friðjónsson, og kvað mér vera skyldugt að sækja líka um styrk fyrir þau skáld.

Þetta er hégómamál, sem ekki er svaravert, að eg eigi að koma með tillögur um styrk handa þeim mönnum, sem öðrum þykja til þess maklegir. Er slíkur krabbagangur hugsunarinnar all-undarlegur. Hitt tel eg líklegt, að eg mundi greiða atkv. með styrk til G. F., ef þeir þm. leggja það til, sem um hann hafa talað.

Eg held annars, að menn hafi ekki tekið eftir, hvernig eg studdi tillögu mína um síra Valdimar Briem. — Eg lýsti yfir því, að tillagan væri fram komin, vegna þess, að eg liti svo á, að síra Valdimar hefði hvorki né mundi síðar yrkja nein þau ljóð, er hann verðskuldaði landssjóðsstyrk fyrir. Eg var alls ekki að ráðast neitt á trúarbrögð þessa manns eða annara. Það má hver halda sinni tröllatrú fyrir mér. Ef ljóðið er gott, er mér sama um hvað það er, og það er ekki satt, að eg hafi sagt nokkur hnjóðsyrði í garð síra Valdimars Briems.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) vildi gera lítið úr skáldunum og fórust orð á þá leið, að mikið af bókum þeim, er nú væru gefnar út, væri mesta rusl. Þetta sjá allir, að er einungis sagt út í loftið. Það er heldur ekki ruslið, sem menn eiga að lesa, heldur kjarninn, og slíkar styrkveitingar, sem hér ræðir um, eru trygging þess, að út komi góðar bækur.

Ekki veit eg heldur, hvernig í því liggur, er háttv. sami þingm. sagði, að eg ætti frekar að vera þingm. Reykjavíkur en sveitakjördæmis. En á því get eg frætt hann, að t. d. Dalamenn munu mér samdóma um, að skáldin séu höfðingjar þjóðarinnar.

Eg hef ekki tíma til, að svara háttv. 2. þm. Árn. (S. S.). Hann leitaðist við að koma trúarstefnu minni eitthvað í samband við tillögu mína um Vald. Briem. En þar var maðurinn bersýnilega að vaða reyk. Háttv. 2. þm. Árn. hefir fjarskalega mikinn og lofsverðan áhuga á málum kristinnar kirkju. En þar sem hann beindi því að mér, að ekki ætti að ausa fé í skóla og skáld, þá hefi eg aldrei sagt neitt í þá átt.

En eg vil, að styrkur til lista- og vísindamanna sé ekki þjóðinni til skammar. Honum þótti líka skrítið, að eg nefndi skáldin höfðingja þjóðanna. En er hann mér nú í alvöru ósammála um það, að þeir menn, sem fórni sér og kröftum sínum fyrir fagrar og göfugar hugsjónir sé í raun réttri höfðingjar þjóðanna?

Hann segir líklega, að það séu einungis bændur. Það geta þeir líka verið. Þess ber og að gæta, að í þeirra flokki eru bæði skáld og listamenn. Mér gremst að heyra það sífelt, að alt sem snertir listir og vísindi sé bara hégóminn einber. Eg er svo bjartsýnn, að halda, að landbúnaðurinn muni þrífast vel í framtíðinni með slíkum ráðunautum, sem hann nú hefir! En menn mega ekki gleyma því, að það eru ekki búnaðarráðunautarnir einir, sem alt veltur á.

Það eru skáldin, sem veita starfsmanninum, að loknu verki, slíkan unað og hugaryl, sem hvorki á né má meta til peninga.