24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Þorláksson:

Eg ætla að segja örfá orð út af ummælum hv. framsm. (Sk. Th.). Mér þótti leiðinlegt, hve illa hann tók málaleitan minni. Vona þó að hann fallist síðar á, hve nauðsynlegt þetta er og styðji það við atkv.gr.

Hann gat þess, að Austfirðingar hefðu sýnt óhlýðni og ráðríki í þessu máli. Þessu vil eg algerlega mótmæla. Sýslunefndarmennirnir sem réðu því til lykta, að verklegri kenslu skyldi halda áfram á Eiðum, hafa einmitt traust almennings í Múlasýslum. Ef þeir hefðu gengið í máli þessu gegn vilja almennings, þá hefðu þeir varla verið endurkosnir við næstu sýslunefndarkosningar. En nú voru þeir endurkosnir, og sýnir það meðal annars, að almenningur hefir borið traust til þeirra. Og óhlýðni við lögin getur þetta heldur ekki kallast. Það getur ekki verið skylda manna að verða viljalausir og leggja árar í bát, þótt þingið geri einhverja ályktun, er ríða í bága við vilja manna, eins og þingið 1905 gerði.

Háttv. þgm. S.-Þing. (P. J.) lagði það til, að Eiðaskóli yrði gerður að bændaskóla. Þetta get eg þakkað honum fyrir, enda væri það mjög eðlilegt og æskilegt, en að svo stöddu er ekki nægur undirbúningur fenginn til þessa. Eg er hinsvegar fullviss um, að sýslunefndirnar yrðu fúsar á að gefa landssjóði eignir skólans og afhenda hann um leið þar með landssjóði.

Háttv. framsm. (Sk. Th.) gat þess, að eg hefði hrósað Múlsýslungum fyrir að hafa orðið fyrri til að reisa skólahúsið, en þetta átti ekki að vera neitt hrós, það var að eins satt og rétt skýrt frá. Skólahúsið á Eiðum er auk þess bezta og vandaðasta skólahúsið, þar sem búnaðarkensla er.

Hinsvegar hrósar hv. framsm. (Sk. Th.) sér, er hann segir að fjárlaganefndin hafi gert vel til Austfirðinga, hún hafi veitt 1000 kr. til húsmæðraskóla á Eiðum. Fyrir þetta vil eg þó hvorki hrósa né þakka honum; frá sýslunefndum Múlasýslna mun engin beiðni vera komin um þennan styrk, og eigi hann að verða að nokkru verulegu gagni, er hætt við, að sýslurnar þurfi að hafa nokkurn aukakostnað.

Eg tók það fram, að Múlasýslur borgi mest, tiltölulega, í landssjóð. Þetta vildi háttv. framsm. (Sk. Th.) vefengja og sagði, að Ísafjarðarsýsla og kaupstaður einn saman borgaði meira. Það vill nú svo vel til, að eg hefi hér bók fyrir mér, þar sem sjá má að Múlasýslur borguðu árið 1907 í landssjóð 60 þús. krónum meira en Ísafjarðarsýsla og kaupstaður gerði, og það er þrefalt meiri upphæð en hér er farið fram á að veita upp í byggingarkostnað á Eiðum.

Enn fremur sagði hv. framsm. (Sk. Th.), að vér hefðum farið ógætilega og stofnað oss í kostnað, væri því réttast að vér lægjum þar sem vér værum komnir. Út af þessu tek eg fram, að það er búið að borga kostnað þennan og hefir verið tekið lán til þess. Ummæli háttv. framsm. (Sk. Th.) eru því mjög óviðeigandi. En sýslufélögunum yrði auðvitað mjög erfitt að halda stofnuninni uppi framvegis. Að vísu mundi það takast með einu móti, nefnilega því að flest-allar aðrar framkvæmdir væru látnar sitja á hakanum. En það er bersýnilega frágangssök, og má því segja, að þessari stofnun verði ekki vel haldið uppi, nema landsjóður hlaupi undir bagga.