24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) nefndi nafn mitt í sambandi við ræðu mína í gær, og virtist það lýsa misskilningi á ræðu minni Hann hefir annaðhvort ekki heyrt ræðu mína, eða ekki tekið eftir því, sem eg var að segja, því að eg tók það skýrt fram, að eg vildi ekki að verið væri að vega á vog sjávarútveginn og landbúnaðinn, og lagði áherzlu á það, að eg vildi styrkja þá báða eftir föngum. Hitt skal eg játa, að eg sagði að landbúnaðurinn ætti að fá meiri styrk en sjávarútvegurinn. Aftur á móti finnst mér það nokkuð öfgakent hjá háttv. þm. (J. Ó.) að segja það, að sjávarútvegurinn hafi greitt eins mikla fúlgu í landssjóðinn, og alt það sem lagt er til landbúnaðarins og þó nokkuð meira. Ef sú rökfærsla væri rétt, þá virðist vera samkvæmni í því, að þareð landbúnaðurinn ekki borgi sig, þá sé hann einskis styrks verður. Þetta eru öfgar, sem eg vil mótmæla kröftuglega. Eg vil láta báða atvinnuvegina njóta sanngjarns styrks, og það vill svo vel til að sú eina breyt.till., sem eg hefi komið með, miðar að því að styðja sjávarútveginn.

Háttv. 2. þm. S.-M. (J. Ó.) sagði enn fremur, að það væri úreltur hugsunarháttur að landbúnaðurinn væri öruggasti atvinnuvegur landsins. Eg sýndi fram á það gagnstæða í ræðu minni í gær og mótmæli því, að landbúnaðurinn sé ekki tryggasti atvinnuvegur landsins.