01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Loks vil eg minnast á Runólf Runólfsson, er menn kalla »séra«. Eg þekti hann lítið eitt af afspurn og bréfaskiftum vestan hafs. Eftir því sem sagt er, er hann fæddur lúterskur, svo er mér sagt hann hafi gerst mormóni, þvínæst prestbyteriani, þá methodisti og loks lúterskur aftur, og var notaður í prestleysi til að tala trú fyrir mönnum. Eg man eftir ritgerðum og bréfum, er hann sendi mér til prentunar. Undir þessi skrif var ritað:

Runólfur Runólfsson, missjónari: hefir það líklega fremur átt að merkja missionary (trúboði), heldur en missjónari = missýningamaður eða sjónhverfingamaður!! Hefði lúterska kirkjufélagið vestra getað notað hann áfram, þá hefði hann ekki þurft að skorta atvinnu þar í prestleysinu. Og að það gaf hann upp á bátinn, eru engin meðmæli með honum. Það eitt er víst, að ef þessi maður ætti nú að gerast prestur, þá gengi það ekki hneyksli næst, heldur væri það stórhneyksli.

En ef menn hins vegar vildu leggja fram styrk í tilraunaskyni, í sálarfræðislegum efnum, til þess að fá að vita, hve mörgum trúarbrögðum einn maður gæti torgað á fáum árum, þá væri styrkbeiðnin skiljanleg.

Ef þessi maöur skyldi nokkurn tíma hafa verið vígður vestanhafs — þá hefir það að eins verið sem ,vandræðaprestur‘, í prestleysi. Að vísu hafa margir lærðir og nýtir menn verið prestvígðir vestanhafs, sumir eftir 1— l½ árs lærdóm, og eru þeir alment nefndir »snöggsoðnir prestar«. En nú mun Runólfur Runólfsson ekki einu sinni vera snöggsoðinn, heldur hefir hann víst verið vígður upp á guðsnáð og gaddinn.

Eins og mörgum mun kunnugt, er mikið prestleysi vestra, og hefði þá Runólfur Runólfsson vel getað lifað þar, ef hann á annað borð hefði þótt til nokkurs nýtur; hann hefði þá aldrei þurft að koma til Íslands.

Eg get ekki trúað því, að jafn vandaður maður og Hallgr. biskup er, hafi tælt manninn hingað með von um embætti hér; það kemur varla til nokkurra mála.

Eg er því þessari breyt.till. algerlega mótfallinn, af því að það væri stærsta hneykslið á fjárlögunum, ef hún næði fram að ganga.