29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Pétur Jónsson:

Þetta frumv. hefir tekið allmiklum breytingum, síðan það fór héðan úr deildinni. Gjöldin eru nú rúmlega 100 þúsund krónum lægri en áður, þá er Nd. gekk frá því, og þó nemur það miklu meira, sem Ed. hefir numið burt eða lækkað gjöldin á einstökum liðum frumv., einkum til hinna nytsömustu fyrirtækja þessa lands, svo sem vega og símalagninga. Eftir frumv. stjórnarinnar var ætlast til, að varið yrði 233 þúsundum kr. til vega, þegar þar er dregið frá það sem gengur til yfirstjórnar og undirbúnings vega og vegamála. Nd. hækkaði þessa fjárveitingu upp í 265 þúsund kr. en nú hefir Ed. lækkað þetta niður í 173 þús. kr. Hækkun Nd. á stjórnarfrumv. var mest á vegum, sem landssjóði eru í raun og veru óviðkomandi: sýslu og sveitarvegum eða ca. 25 þús. Við þessu hefir Ed. ekki rótað að mun, heldur kemur lækkun hennar á vegafénu öll niður á flutningabrautum eða 87½ þús. kr. Þær ca. 40 þús. kr. til sýsluvega og sveitavega, sem stóðu á frumv., eins og það fór úr Nd. hafa eigi rótast að öðru en því, að 4500 kr. til brúar í Þistilfirði eru numdar burt, en mótorvagn, sem eiginlega er eigi vegabót settur þar inn á meðal veganna. Ed. ætlar því til landssjóðsvega aðeins 135 þús. kr. á þessu fjárhagstímabili.

Eg sýndi fram á það um daginn, að það væri ekki heppilegt fyrir landið að taka fé frá vegum, sem landið á að kosta eða yfir höfuð öðrum nauðsynlegum fyrirtækjum og bruðla því í önnur miður nauðsynleg, eða þá landssjóði eigi beint viðkomandi. Þegar vegalögin voru endurskoðuð, þá var slegið föstu vegaplani fyrir land alt og þar með ákveðið að landssjóður ætli að taka að sér byggingu þessara vega, sem kalla má landssjóðsvegi, svo fljótt, sem fjárhagur leyfði og eiginlega var þetta loforð gefið strax með vegalögunum frá 1894. En þá var engin áætlun til um það, hversu mikinn kostnað þessi vegalagning öll mundi hafa í för með sér. Nú stendur öðru vísi á, nú hefir verkfræðingur landsins gert yfirlit yfir, hversu mikið það muni kosta að leggja landssjóðsvegina, og nemur sú áætlun 2,400,000 kr. Hún að vísu lausleg, en vafalaust ekki of há, og hún yrði nokkuð hærri, ef gert væri ráð fyrir púkkuðum, en ekki að eins mölbornum vegum.

Á þessari áætlun bygði milliþinganefndin í skattamálunum, þá er hún var að gera áætlun um framtíðarþarfir landssjóðs, og gerði eigi ráð fyrir meiri hraða á því, að fullnægja loforðum vegalaganna en það, að þeir væri bygðir á 20 árum. Eftir þeirri áætlun þarf að leggja til landssjóðsvega alt að 150 þús. kr. á ári, eða 300 þús. kr. á hverju fjárhagstímabili að meðaltali. Falli nú úr eitt ár eða fleiri, svo að minna sé unnið, þá leiðir þar af, að hækka verður útgjöldin til þeirra vega hin árin, ef 20 árin eiga að hrökkva til þessara vegalagninga. Nú er þó gert ráð fyrir, að héruðin taki jafnóðum við allmiklu af vegunum og létti þannig viðhaldi þeirra af landssjóði. Ef það væri eigi, þá þyrfti miklu meiri fjárframlög úr landssjóði. Menn geta nú hugsað sér, hverjir muni vilja verða til þess, að bíða lengur en 20 ár eftir vegalagning af landssjóðs hálfu. Nú hefir stjórnin ekki áætlað nema 233 þús. kr. á fjárhagstímabilinu, og það að meðtöldum 15 þús. kr. til sýsluvega. Að hún ekki áætlaði þetta hærra kom af því, að svo mikið var áætlað til símalagninga. Nú hefir hv. efri deild lækkað fjárveitinguna um 87½ þús. kr. á ári, svo að til landssjóðsveganna kemur þá ekki á fjárhagstímabilið, nema rúmar 120 þús., því 40 þús. kr. dragast frá, er ganga til sýslu- og hreppavega. Með öðrum orðum, að þetta er varla helmingur af því fé, sem þyrfti til þess, að geta haldið í horfinu þessi 20 ár. Þetta er mjög óheppilegt, eins og eg drap á áður, að setja þennan bláþráð í vegagerðir landssjóðs. Það er ekki hægt, að bæta það upp aftur, nema á þann hátt, að safna þá miklu meiri vinnukrafti til vegagerðanna. Við það verður vegavinnan dýrari og svo dregur það vinnukraftinn óhóflega frá aðalbjargræðisvegunum þau sumrin og gerir truflun í þeim, alt til stórskaða fyrir landið og landsmenn. Nú er þar á móti dauf atvinna, svo að vegavinnan kemur sér vel, og verður landssjóði ódýrari. Það er áríðandi um vegagerðirnar af þessum ástæðum, að þær komi sem jafnast á árin, og ef nokkuð er meira á þau ár, þegar dauf er atvinna. En úr því svona er nú komið, þá fyndist mér samt meira samræmi í því, að fella líka fjárveitinguna til sveita- og sýsluveganna, því ekki eiga þeir þó að sitja fyrir landssjóðsvegum. — Enginn skynsamur og sanngjarn maður getur í alvöru ætlast til þess. Auðvitað hefði eg helzt kosið, að sett hefði verið hæfileg upphæð til vega inn á fjárlögin, en úr því, að það er nú ekki hægt, þá kem eg ásamt öðrum háttv. þingm. með tillögu um það, að landið spari líka sýslu- og sveitavegaféð til næsta þings. Tillögur okkar eru því þess efnis, að fella burtu allar fjárveitingar til sveita- og sýsluvega úr frumvarpinu. Þó láðist okkur fjárveiting til dragferju á Héraðsvötn, af því mig minti, að hún væri á þjóðvegi. Nú þegar eg veit, að hún er á sýsluvegi, þá tek eg aftur tillögu viðvíkjandi dragferju á Lagarfljóti samræmis vegna. Eg skal geta þess, að við gerum það ekki með glöðu geði, að fella allar þessar fjárveitingar. Sumar þeirra hafa svo mikið til síns máls, að manni fellur beinlínis sárt að fella þær, til dæmis til vegarins í Svarfaðardal. En um það tjáir ekki að fást, þegar skorið er niður það, sem enn þá er skyldara að gera, og fylgja skal skynsamlegu »plani«.

Þá koma símarnir. Þar sparar Ed. 106 þús. kr. frá frumv. Nd , en Nd. feldi niður Vestmannaeyjasímann og koparþráðinn frá Borðeyri til Ísafjarðar (34 + 68 = 102 þús.). Þetta er alt 208 þús. Þannig er þá búið í báðum deildum, að fella niður alt það, sem stjórnin, með ráði símastjórnar, eða hinna sérfróðu manna, lagði til, að gert væri að símalagningum, en settur í staðinn einn símaspotti, sem óneitanlega liggur fjær, þó nauðsynlegur sé. Það er Siglufjarðarsíminn. Úr því nú á að spara allar nýjar línur að kalla, þá leggjum við til, að Siglufjarðarsíminn bíði líka, af því að hann verður að sitja aftar í röðinni, en hinir, sem feldir eru. Þar á móti leggjum við til, að sparnaður sá, sem með því fæst og á vegunum eftir tillögu okkar sé hafður til þess, að strengja koparþráð á línuna frá Reykjavík að Borðeyri. Það er skilyrði fyrir því, að hliðarlínur þær, sem komnar eru og korna í ár komi sjálfar að notum og geri eigi notin á aðallínunni ófullkomin. Sérstaklega verður í þessu efni, að taka tillit til Vestfjarða, því án aukaþráða á þessari línu, þá verður oftast nær óhugsandi, að nota talsíma frá Ísafirði til Reykjavíkur.

Enn eru nokkrar breyt.till., sem við höfum leyft okkur að koma fram með á sama þgskj. Er þá fyrst um kvennaskólann hér í Reykjavík. Fyrst og fremst er lækkun á fjárveitingunni, sem Ed. ætlar honum alls úr 6800 kr. ofan í 6000 kr., þar næst tilhögunin á þessum fjárveitingum, sem við viljum samræma við Blönduósskólann, og loks er að fella niður það skilyrði, að Reykjavíkurbær leggi skólanum 500 kr. Það skilyrði er þarflaust og óheppilegt. Ef tillaga okkar gengur fram, þá verður skólinn að fá það fé, sem hann vantar annarsstaðar frá eins og Blönduósskólinn, ef ekki frá, Reykjavíkurbæ, þá með skólagjaldi frá efnaðri nemendum, eins og víða er, eða á annan hátt, og ætti enginn sérlegur örðugleiki að vera á því fyrir góða stofnun, að fá slíkt. Það er talinn sjálfsagður hlutur í Norðurlandi. Eg hefi sýnt fram á það áður, hve óheppilegt er, að landssjóður tæki því nær alveg að sér framfæri þessa skóla. Eftir minni till. fær hann þó 700 kr. meira á ári, en eftir neðri deildar frumvarpinu.

Þá er næst lagfæring á styrknum til unglingaskóla. Ed. færði hann upp með því fyrst og fremst, að taka ísfirzka skólann út úr með sérstakri fjárveiting, og þar næst, að færa skilyrði um fjárframlag á móti landssjóðsstyrknum niður úr helmingi í þriðjung. En fyrir gáleysi situr hámark styrkveitinganna við sama 750 kr. Af þessum sökum, þá koma þessar ívilnanir ekki að gagni skólum, sem hafa upp undir 1500 kr. árskostnað, því þeir fá þá ekki nema helming, en minni og lakari skólar geta fengið ? kostnaðar. Þetta viljum við lagfæra með því, að setja hámarkið upp í 1000 kr.

Fjárveitingar til Goodtemplarafélaga og bindindisfélaga virðist nú óþarft, þegar aðflutningsbann er sama sem lögleitt, að minsta kosti síðara árið. Sumir segja að vísu, að félög þessi eigi einkum að annast um, að gæta hlýðni almennings við lögin. En eg held eigi veiti af því, að til þess styðji allir góðir drengir, og það sé óviðeigandi, að launa fremur einn en annan til þess. Það gæti líka orðið afleiðingin, að þeir ólaunuðu köstuðu allir ábyrgðinni upp á hina, og færi þá ver, en ef allir væri styrklausir af almennu fé í þessum efnum.

Undarlegt er það af efri deild, að hækka stór mikið til kvennaskólans í Reykjavík, en lækka um helming þennan litla styrk til húsmæðraskóla Jónínu Sigurðardóttur. Hún hefir nú haft skóla í húsi gróðrarstöðvarinnar á Akureyri 2 síðastliðna vetur. Nemendur voru 21 fyrri veturinn, en 27 hinn síðari, námstími 6 mánuðir. — Þessi skóli hefir engan styrk fengið annan en 300 kr. úr sýslusjóði og ívilnun um húsaleigu hjá Ræktunarfélagi Norðurlands. Hann er þó að sínu leyti eins verðugur til styrks og hinir aðrir kvennaskólar, nema fremur sé, af því hann snýst þó að þeirri fræðslu, sem almúgakonur hér á landi vanhagar mest um.

Loks er síðasta breyt.till. okkar um það, að færa styrkinn til ungmennafélagsins úr 1500 kr. ofan í 1000 kr. á ári. Úr því verið er að klípa af hinum allra nytsömustu fjárveitingum sýnist svo, sem þessi fjárveiting sé full sómasamleg 1000 kr. á ári.