05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Kristinn Daníelsson:

Hingað til hefir ekki verið sagt mikið annað en það, sem allir hafa heyrt áður, og vona eg því, að mér verði fyrirgefið þó eg geri það ekki heldur. Eg sný mér fyrst að því, sem háttv. framsm. minni hlutans undirstrikaði svo mjög, að við meiri hluta menn bærum persónulega ábyrgð á úrslitum þessa máls, og við ættum að fara eftir okkar eigin sannfæringu en ekki skjóta okkur bak við þjóðina og velta ábyrgðinni yfir á hana. Það er alveg óréttmæt aðdróttun, að við förum ekki eftir eigin persónulegri sannfæringu í þessu máli. En alt fyrir það er þó mikils virði að hafa þjóðarviljann eins ákveðinn að baki sér, eins og við höfum í þessu máli. Þjóðarviljann sýna bæði þingmálafundirnir, kosningarnar 10. sept. og Þingvallafundurinn, og eg er ekkert hræddur við það, þó reynt sé að gera lítið úr Þingvallafundinum. Þingvallafundir okkar hafa haft svo mikla þýðingu fyrir þjóðina í stjórnarbaráttu vorri, að eg er ekkert hræddur við að hægt verði að draga þá ofan í skarnið. Og að því er kosningarnar 10. sept. snertir, þá skil eg ekki, að nokkum tíma hafi verið að marka kosningar, ef ekki er að marka þær. — Þá var meiri hlutanum borið á brýn, að hann hafi gert þetta mál að flokksmáli. Eg skil ekki betur en varla hafi verið hægt að gera ráð fyrir öðru en að menn skiftust í tvö horn um málið, úr því á annað borð urðu skiftar skoðanir um það, og ekki gátu allir orðið á eitt sáttir, sem æskilegast hefði verið. En eigi nokkur sök á því, að málið varð að flokksmáli, þá er það minni hlutinn miklu fremur en meiri hlutinn, því hann hefir stöðugt mótmælt öllum tilraunum til að snúa uppkastinu á annan veg en það var, er það kom úr höndum millilandanefndarinnar. — Eg byggi skoðun mína á þessu máli á ályktun Þingvallafundarins, sem eg hefi ávalt verið samdóma, og í henni er því haldið fast fram, að við eigum ekki að skuldbinda okkur til neins annars en konungssambands, og að öll önnur mál, sem við föllumst á að hafa sameiginleg við Dani, skuli vera uppsegjanleg. Þetta er aðalmergurinn í minni skoðun. — Háttv. 5. kgk. þm. sagði, að það þyrfti »fagmenn« til að skilja og skýra orðið fullveðja. Eg skal kannast við það; en við hinir, sem ekki erum lagamenn, þurfum að skilja, hvað í útskýringunni felst, og eg hygg, að þjóðin muni ekki láta sér nægja aðra skýring en þá, að fullveðja sé sá, er ræður öllum sínum málum sjálfur. — Jón Sigurðsson hefir verið minst á í umræðunum, og sagt, að honum mætti kenna það, að Ísland sé hluti af hinu danska ríki, þar sem hann hafi verið höfundur að því ákvæði í frumvörpunum frá 1867, 1869 og 1873, að »Ísland sé óaðskiljanlegur hluti Danaveldis«. Eg efa það ekki, að með Danaveldi hefir Jón meint það, sem millilandanefndin kallaði veldi Danakonungs. Það er áreiðanlegt, að Jón hefir ekki hugsað sér að við gerðum neitt órjúfanlegt samband við Danmörku. Árið 1869 sagði hann í þingræðu, að ekki gæti leikið neinn vafi á því, að Danir mundu smátt og smátt fá skilning á rétti okkar og láta að kröfum vorum, og síðar í ræðunni segir hann, að, »Danir eigi ekkert með að halda fyrir okkur frelsi okkar og jafnrétti«. Skyldi hann hafa átt við það jafnrétti, að Íslendingar hefðu sama rétt og Danir í Danmörku og Danir sama rétt og Íslendingar á Íslandi. Nei, það er enginn vafi á því, að hann hefir átt við það jafnrétti, að eins og Danir eignuðust sjálfir land sitt 1849, eins ættum við að eignast okkar land, og að við ættum að fá jöfn ráð okkar mála og Danir sinna mála. Enn fremur segir Jón í Andvara 1874 um frumvarpið frá ’73: »Það var ekkert ákveðið um sambandið milli landanna«; hann lítur með öðrum orðum svo á, að þrátt fyrir orðin: óaðskiljanlegur hluti Danaveldis, hafi þó ekkert enn verið ákveðið um fullnaðarsambandið. — Þá hefir því verið haldið fram, að stjórnarskráin sé bygð á stöðulögunum, og að stöðulögin höfum við játað í framkvæmdinni. Það er alls ekki viðurkent af öllum, að stjórnarskráin sé bygð á stöðulögunum, þó í henni sé vitnað í þau. Stjórnarskráin er fengin oss af fullveldi konungs, og af sama fullveldi vitnar hann í stöðulögin. Um það, að þau séu játuð af oss í framkvæmdinni, er það að segja, að við höfum auðvitað hirt þá mola af réttindum okkar, sem okkur hafa verið fengnir, en við höfum aldrei sagt, að við ættum ekki meiri réttindi, og ávalt mótmælt gildi laganna. Háttv. 5. kgk. þm. mintist á, að meiri hlutinn hefði svæft hæstaréttarfrumvarpið hér í deildinni. Það er ósköp eðlilegt; við getum ekki heimtað hæstarétt á þessu stigi, af því hann var ekki einn af molunum, sem okkur voru fengnir með stöðulögunum og stjórnarskránni. — Sami háttv. þm. sagði, að engir nema við könnuðumst við Gamla sáttmála. Fyrst og fremst er þetta ekki rétt; t. d. kannast bæði Lundborg og Gjelsvik við hann, og enn fleiri. En þó þessi staðhæfing væri rétt, þá verður því ekki neitað, að Gamli sáttmáli hefir verið, er og mun vafalaust verða ómetanlegt gagn fyrir okkur sjálfa, að því leyti sem meðvitundin um þann rétt, er hann tryggir oss, hefir styrkt oss og haldið oss uppi í baráttunni fyrir réttindum vorum. — Háttv. 5. kgk. þm. sagði, að eftir 6. gr. stjórnarfrumv. fengjum við fullkomið einræði inn á við. Eg get ekki stilt mig um að minna á 4. gr. þess, sem háttv. 4. kgk. þm. furðaði svo mjög á, að meiri hlutinn skyldi vilja fella burtu. Eg sé ekki betur, en að þar sé búinn til hanki fyrir Dani til að smeygja inn hendinni. Háttv. 5. kgk. þm. sagði ennfremur, að frumv. stjórnarinnar trygði Íslandi jafnræði við Danmörku út á við. Það byggir hann á því, að samkvæmt 1. gr. eru sammálin ákveðin »eftir samkomulagi«, og svo á orðunum »fyrir hönd Íslands« í 6. gr., sem hann segir að merki sama sem »í umboði«. Eg get ekki séð, að þetta sé rétt skýring á þessum orðum. Maður getur vel gert samkomulag við annan án þess báðir séu jafn réttháir eða ráði jafn miklu, t. d. gera menn oft samkomulag um hitt og þetta við börn. Sömuleiðis geta menn gert hitt og þetta fyrir hönd annars manns án umboðs. Að ekki er átt við umboð í uppkastinu, sést líka greinilega á athugasemdum þess, þar sem það er ótvírætt sagt, að ekki sé verið að semja við okkur sem fullveðja málsaðila, heldur af góðmannlegri virðingu fyrir þjóðarrétti vorum. Enda hefir það komið fyllilega í ljós síðan, að það var ekki meining Dana. — Um ákvæðið um fæðingjaréttinn hefir það verið sagt, að það sé jafn mikil skerðing á fullveldi Dana eins og okkar. Það má vera; en Dönum má vera sama þó að við fáum þennan rétt á hendur þeim, þar sem það aftur á móti gæti verið mjög óheppilegt fyrir okkur, að láta þjóð upp á 2 miljónir manna hafa sama rétt og við hér í landi. — Um gjörðardóminn skal eg geta þess, að eg er því samþykkur, að betra sé að hafa engan gjörðardóm, en að hafa hann með því fyrirkomulagi, sem gert var ráð fyrir í frumvarpi stjórnarinnar. Til gjörðardómsins kasta mundi því að eins koma, ef verulegur þjóðarágreiningur risi, og þá mundum við ávalt verða undir, ef dómstjóri hæstaréttar væri oddamaður. Eg meina ekki, að hann mundi verða vísvitandi hlutdrægur, en í slíku máli mundi þjóðernistilfinningin ráða svo miklu, að hann yrði ósjálfrátt hlutdrægur.

Grundvöllurinn var sagt að yrði að bjargi, ef bygt væri á frumv. stjórnarinnar, en að sandi, ef vér bygðum á stöðulögunum. En vér könnumst ekki við að standa á stöðulögunum, svo þessi samlíking nær engri átt. Í frumv. stjórnarinnar er Dönum fólginn sá sami valdþunga-straumur, sem var í stöðulögunum. Og um ríkisráðið vita allir nú, að jafnvel þeir, sem áður töldu það litlu skifta, vilja nú fegnir losast við það, því það skiftir alls ekki litlu, ef Danir vilja beita því valdi, sem þeim er þar með fengið. Þá var það sagt, að litlu skifti hvort þetta væri kallað lög eða sáttmáli. Það er auðvitað alveg rétt, að það má einu gilda, ef innihaldið er gott, en til þess að benda á að til eru þó menn, sem ekki þykir þetta engu skifta, má minna á t. d. Gjelsvik, sem meðal annars kemst þannig að orði: »Först og fremst maa man have paa det rene, hvad Slags Dokument man vil oprette; skal det være en Lov, givet af »det samlede danske Rige«, eller skal det være en Traktat mellem de selvstændige Riger Danmark og Island? Her gælder det: Klar Tanke og klar Tale! Men skal det Dokument, man vil oprette, være en Traktat, saa bör det ogsaa kaldes Traktat og ikke Lov«. Það er að minsta kosti ekki ómerkir menn sumir þeirra, sem álíta að þetta standi ekki á sama.

Þá var það þessi gamli ágreiningur um »Statsforbund« og »Statsforbindelse«. því er enn haldið fram, að »Statsforbindelse« þýði sama sem »Staters Forbindelse«. Eg held að það sé þó löngu búið að sýna það ljóslega, að »Forbindelse« má brúka um alls konar samband, og það milli dauðra hluta, og »Statsforbindelse« þarf því ekki að þýða annað en samband milli tveggja ríkishluta. En »Forbund« þýðir samband á milli skynsemi gæddra vera, bandalag, sem menn gjöra milli sín.

Þar sem háttv. 5. kgk. þm. talaði um kosningu konungs, fanst mér kenna misskilnings hjá honum. Hann talaði um að taka þátt í konungskosning, en svo er eigi, að vér hugsum til að taka þátt í neinni kosning, heldur höfum vér rétt til þess, ef Glucksborgarættin í Danmörku verður aldauða, að segja til, hvort vér viljum hafa sama konung sem Danir þá kjósa.

Talað hefir verið um að einu gilti, hvort Ísland væri eftirleiðis kallað land eða ríki; eg hefi nú ekki gert mér þetta að neinu áhugamáli, en hitt er mér áhugamál, að verði Ísland kallað ríki, þá feli það nafn á bak við sig þann rétt, sem réttlætir nafnið. En þó Ísland verði kallað land, það er mér sama um, ef rétturinn er fenginn.

Hvað það snertir, að meiri hlutinn ekki hefir látið fram ganga stjórnarskrárbreytingu á þessu þingi, þá er ómögulegt til þess að ætlast, þar sem það frumv. byggist á sambandslagafrumvarpinu, og verður því að sjást, hvernig um það fer.

Þá var talað um að við nytum góðs af því, að engin líkindi væru til að Danmörk yrði tekin af stórveldum. Eg álít, að þessara sömu gæða njótum við þó við séum í persónusambandi við Dani; það gagn höfum við af því að vera í sambandi við svo góða konungsætt og svo göfuga þjóð. Konungssamband eitt gjörir oss því sama gagn, og fyrir Dani heldur prófessor Gjelsvík því fram, að ekkert annað samband geti haft »Interesse« en konungssamband. Þetta fyrirkomulag er nú að vísu sagt að sé ófáanlegt. En þetta er ekki nýtt; það er jafngamalt stjórnarbaráttu vorri; það hefir alt af verið vani afturhaldsmanna, að brýna þá sem lengra hafa viljað fara á því, að það sem þeir vildu væri »ófáanlegt«. Eg held að enginn sé fær um að spá slíku, og það sýna viðskifti vor við Danmörku, að slíkar spár hafa ekki ræzt, og eins og Jón Sigurðsson spáði, þá hefir Dönum aukist skilningur á máli voru, og þeim til heiðurs skal eg geta þess, að við höfum þó fengið hitt og þetta hjá Dönum, sem sumir hér heima hafa talið ófáanlegt.

Það var talað um að þetta mál ætti ekki að vera tilfinningamál, heldur ætti það að ræðast með ró og köldu blóði. Eg er auðvitað samdóma um að æskilegt sé að halda hin síðari atriðin, en eg ætla, að það sé þó engum láandi að það verði að tilfinningamáli nokkru, og að það sé heldur ekki einskisvert fyrir þetta mál, að þjóðernistilfinning vor Íslendinga fái þar að tala.

Háttv. 6. kgk. þm. sagði að annað og meira en lög þyrfti til þess að vér gætum verið sjálfstæðir. En eins og einstakir menn aldrei geta lært að vera frjálsir og sjálfstæðir, ef þeim er haldið í tjóðurbandi, eins er um einstakar þjóðir, að þær verða fyrst og fremst að vera sjálfstæðar að lögum og rétti til þess að geta verið sjálfstæðar.

Mér féll það illa hjá hinum háttv. 4. kgk. þm., að hann skyldi brúka svo ljótt orð um frumv. meiri hlutans að kalla það »afskræmi«. Þetta er frumvarp, þar sem djarft og drengilega eru settar fram kröfur þjóðarinnar; fyr gætu nú verið gallar á, en að orðið afskræmi kæmist nærri sanni. Eg held að honum hljóti að hafa verið farið að renna í skap, er hann lét sér um munn fara, að þetta væri »leikaraskapur« hjá oss. Eg held að slík orð geti alls ekki átt sér stað, þar sem um helgasta og dýrasta mál þjóðarinnar er að ræða. Sama er um þær aðdróttanir minni hlutans, að meir hafi ráðið hjá oss meiri hluta mönnum, að koma fyrverandi ráðherra frá, en að vinna fyrir því máli, sem vér álítum sannast og réttast. Þessu vil eg vísa á bug frá mér og flokksmönnum mínum.