29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Mér hefði ekki komið til hugar að taka til máls, ef ekki hefði verið ráðist á mig fyrir mína meinlausu till. um styrk til Boga Melsteð. Tveir þm. hafa sagt, að sú till. sé fram komin í háðungarskyni við manninn. Eg neita þessu. Það mætti þá eins segja, að 200 kr. fjárveiting til bóndans á Tvískerjum sé veitt í háðungarskyni. Það er líka undarlegt af jafnmiklum sparnaðarmönnum að kalla tilraunir manna til að spara, óþörf útgjöld, háð og háðungartilraunir.