05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Sigurður Hjörleifsson:

Það var lítið meir en smá-athugasemdir, sem eg ætlaði að segja. En eg get þó ekki látið vera að minnast stuttlega á, að hér hafa í kvöld hrotið allgífurleg stóryrði í garð vorn meiri hluta manna og ræður verið haldnar, þrungnar af aðdróttunum um illan tilgang, valdafíkn og þar fram eftir götunum. Hér er mikið sagt, af því að með þessu er ekki að eins verið að hreyta illu að fáum mönnum, heldur að meiri hluta allrar þjóðarinnar. Eg held að betra væri fyrir þessa menn að fara ögn hægara, þó þeir biðu ósigur í þessu máli. Það má líka benda á, að fleiri en vér, andstæðingar hinnar fráfarandi stjórnar, hafa unnið á móti frumv. þeirra, og þar með að því að fella fyrv. ráðherra; það voru líka þeirra eigin flokksmenn sem snerust öndverðir gegn frumvarpi þessu. Það hefir verið talað hér um »leikaraskap«. Þetta get eg fyrir mitt leyti ekki kallað kurteisi, mætti ef til vill kallast ruddaskapur.

En það sem eg aðallega ætlaði að minnast á, er sambandið milli frumvarpsins sæla og hins nýja frumvarps þeirra, minni hlutans. Sjálfir segja þeir að það sé ekki annað en gamla frumvarpið með orðabreytingum. En þessar orðabreytingar hljóta þá að vera mjög þýðingarmiklar í þeirra augum, því það er þó víst, að þjóðin vildi ekki frumv. eins og það var, en eg býst við að þeir ætlist til, að þjóðin gangi að því með breytingartill. þeirra. En ef þessar breytingar þeirra eru að eins orðabreytingar, þá hljóta þær að vera mjög verulegar. En nú víkur svo undarlega við, að jafnframt er því haldið fram, að þessar breytingar séu allar fáanlegar; þetta fullyrða minni hluta menn óspart. En ástæðan fyrir því, að þeir ekki geta sannað þetta, er sú, að þeir eru í minni hluta. Þetta virðist mér alt saman undarlegt. Fráf. stjórn leggur frumv. fyrir þingið og ekki neinar breytingartillögur við það, sem ekki var von. En hefði hún nú haft þýðingarmiklar breytingar í pokahorninu, þá var það undarlegt að koma ekki með þær, annaðhvort í frumv. eða athugasemdunum við það. Það sýnist þó réttmætt, að ætlast til þess, að hafi stjórnin ætlað að bjóða þjóðinni stórbreytingar, þá hefði hún átt að láta hana vita af þeim. En nú kemur það upp úr dúrnum, eins og í Húsavíkurmálinu hérna um daginn að »skjalið vantar«. Eg tel það ekki þinglegt, að koma svona fram í jafn þýðingarmiklu máli. Og þar sem minni hluta menn töluðu drýgindalega um það, að ef þingið gengi ekki að frumv. stjórnarinnar, þá væri framin sá þjóðglæpur, sem aldrei yrði útskafinn, þá eru þetta aðeins marklaus stóryrði þeirra manna, sem tala hvatvíslega, og ekki annað. Það getur að vísu satt verið, að frumvarp meiri hlutans fáist ekki staðfest eins og nú er, en eg er sannfærður um það, að ef við höldum fast við það, sem við álítum satt og rétt, og göngum ekki frá málstað vorum, þá láta Danir undan að síðustu, og við sigrum.