23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

87. mál, vantraust á ráðherra

Eggert Pálsson: Það er nú að vísu óþarft fyrir mig, að tala margt í þessu máli, þar sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) o. fl. hafa með svo ljósum orðum sýnt, hversu veikum og órökstuddum ástæðum tillaga þessi byggist á. Eg hygg að eftir umræðunum að dæma geti engum dulist, að fremur hafi verið sókn en vörn af hálfu minni hlutans, þótt þar séu að eins 9:15. Og orsakirnar til þess tel eg ekki að eins fólgnar í því, að hann eigi betri og færari mönnum á að skipa, heldur einnig og öllu fremur, að hann hefir sannleikann og réttlætið meir á sína hlið. En þótt margt og mikið hafi réttilega verið tekið fram af minni hlutans hálfu, þá vildi eg þó bæta nokkrum orðum við, ekki til gamans heldur í fullri alvöru. Því það er í sannleika enginn leikur, heldur mjög svo alvarleg athöfn, sem hér er verið að framkvæma af meiri hlutans hálfu, þar sem hann, samkvæmt þingræðisreglunni, sem hjá oss gildir nú í fyrsta sinni, er að búa sig undir að skifta um stjórn. Og það mega meiri hluta menn vita, að þótt þeir ráði nú lögum og lofum á alþingi, þá verða síðar orð þeirra og gerðir nú dregin fyrir dóm almenningsálitsins og sögunnar, og dæmt algerlega hlutdrægnislaust.

Hvað oss minni hluta menn áhrærir, þá teljum vér sjálfsagt, að ráðherra víki, þegar hann hefir meiri hluta alþingis móti sér. Ráðherrann, sem nú er, hefir sjálfur innleitt þingræðisregluna. Og minni hlutinn, sem fylgt hefir honum í aðalstefnunni, vill ekki fremur en hann vera í því fundinn að brjóta hana. En vér heimtum greinilegar ástæður og fellum oss ekki við að röksemdirnar séu uppdiktaðar og talaðar út í loftið.

Í skjali því, er hér liggur fyrir, eru 3 atriði tilgreind fyrir því að ráðherra skuli víkja úr sæti. En þeir minni hluta menn, er hér hafa talað — og þá sérstaklega háttv. þm. Vestm. (J. M.) hafa sýnt og sannað, að öll þessi atriði eru á röngum rökum bygð.

Fyrst er talað um, að stjórnin verði að víkja, af því að ráðh. hafi lagt kapp á að lögfesta Ísland í Danmörku, binda það, innlima o. s. frv., þvert á móti vilja þings og þjóðar. Hvað vilja meiri hluta þingsins áhrærir þá getur þetta máske verið rétt, þótt undarlegt sé samt, að hann skuli ekki sjá kosti frumv. Og þess vegna er mér nær að halda, að þessi orð till. hafi samið að eins fáir menn í meiri hlutanum og hinum svo nefndu lítilsigldari svo að eins ætlað að fylgjast með, og negla sig um leið. — En hafi það verið tilgangurinn þá er það misskilningur, því þó að þm. greiði nú atkv. með þessari till., þá hafa þeir þó alls ekki neglt sig við hvert orð í henni. En hvað þjóðina áhrærir, þá er langt frá, að fullyrt verði að hún álíti að Ísland sé bundið eða innlimað með frumv. Það hefir þvert á móti verið nær því af öllum játað, að frumv. innihaldi miklar réttarbætur. En hitt er annað mál að þjóðin hefir með kosningunum lýst því yfir að hún telji þær ekki nógu miklar og að hún treysti meiri hlutanum til frekari umbóta, enda var henni svo gefið undir fótinn fyrir kosningarnar, að hún mætti vænta þess.

Háttv. þm. Barð. (B. J.) tók það fram í ræðu sinni áðan, að þjóðin mætti vænta þessa af meiri hlutanum. Og það gleður mig að heyra, að meiri hlutinn ætli ekki að láta bíða 8—10 ár, áður en umbæturnar fást, eins og sami þm. gaf í skyn við umr. um stjórnarskrána fyrir fáum dögum.

Sú ástæða ályktunarinnar, að ráðh. hafi gengið þvert á móti vilja þjóðarinnar í vali kgk. þm., er blátt áfram hlægileg. Menn geta ekkert um vilja kjósenda sagt í þessu efni.

Þjóðin hefir í heildinni enga yfirlýsingu gefið áhrærandi þessa menn, sem fyrir konungsvali urðu. En það verður að teljast sjálfsagt, ef hún er ekki algerlega viti firt, að hún skoði það í mesta máta eðlilegt, að stjórnin velji þá mennina, er henni standa næst í skoðunum, fyrst hún á annað borð hefir rétt til að velja. Og í þessu tilfelli var það eðlilegt, að stjórnin veldi þá menn, er sæti höfðu átt í sambandslaganefndinni, þeir voru einmitt menn, sem erindi áttu á þingið að þessu sinni. En hvað þá snertir persónulega, þá ferst meiri hlutanum að minsta kosti ekki að finna að þeim manninum, er áður var flokksstjóri þeirra sjálfra.

Þá er 3. ástæðan, sem færð er í þessu skjali að ráðh. hafi gert sig sekan í ýmsu vítaverðu athæfi. En flm. till. eru nú reyndar farnir að fyrirverða sig fyrir orðalag þetta og segja að það þýði að eins aðfinsluvert athæfi. En sé það meiningin, hvers vegna var þá ekki notað það orð í stað þessa hneykslanlega orðs: »vítaverður«, því ef orðið »vítavert« eins og almenningur skilur það væri hér réttmætt, þá hefði verið sjálfsagt að draga ráðh. fyrir landsdóminn. En í hverju er þá þetta vítaverða athæfi fólgið? Hæstv. ráðherra hefir búið svoleiðis í haginn fyrir sína eftirmenn að nú þarf undirskriftar forsætisráðh. danska ekki lengur við útnefningu Íslands ráðherra. Var það vítavert athæfi? Um ritsímamálið þarf nú ekki að tala. Samningurinn sá er nú af flestum mönnum mjög þakkaður. Og geta menn talið það vítavert, sem almenningur viðurkennir þakkarvert?

Hvað embættaveitingar áhrærir þá mun óhætt að segja það, að þegar ræða er um veitingu góðra embætta eða sýslana, þá þykjast æfinlega einn eða fleiri verða fyrir halla. En eg hygg að það sé almannarómur, að í slíkum stjórnarathöfnum hafi ráðh. gætt þeirrar varfærni og sanngirni, sem frekast er hægt að gera ráð fyrir. Hv. þm. Barð. (B. J.) þóttist koma með sláandi dæmi um hlutdrægni ráðh. Í embættaveitingum, er hann benti á veitingu ráðsmenskunnar við holdsveikraspítalann; en svo ónýtir hann dæmi sitt með öllu, er hann í lok ræðunnar lýsti því, að ráðh. skipi alls ekki í þá stöðu.

Enn fremur hefir það verið sagt ráðh. til foráttu, að frumv. þau, er lögð eru fyrir þingið nú af stjórninni, séu svo harla ómerkileg. Eg hygg að formælendur till. viti vart hvað þeir segja. Eru þá t. d. sambandsmálið og háskólamálið og stjórnarskráin alt í einu orðin ómerkileg mál? Og ef svo er, hver eru hin merkilegu? En eins og þegar hefir verið tekið fram, hefir það enga þýðingu að ræða þessa till. lengur. Það mál mun undirbúið og atkv.gr. um það. En eg vildi þó með fám orðum láta þeirrar skoðunar minnar getið, að ástæðurnar í till. um það að núverandi ráðh. víki úr sæti eru hvorki réttmætar né sanngjarnar.

Meiri hlutinn á þingi má vita það, að þessi stjórn fer nú frá með sóma og þökk mikils meiri hluta þjóðarinnar. Og þeir menn, er hafa komið því til leiðar taka nú á sig alla ábyrgð þess er af því leiðir. Þeir mega því vita fyrir víst, að þeir verða fyr eða seinna dregnir fyrir dóm almenningsálitsins og sögunnar fyrir þessar og aðrar athafnir sínar.