23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

87. mál, vantraust á ráðherra

Stefán Stefánsson:

Það hafa víst all-flestir búist við að núverandi stjórn fengi boðskap um það, þegar alþingi væri komið saman að nú skyldi hún þoka sæti. En fæsta mun hafa grunað það, að sá boðskapur yrði í því sniði, sem nú er raun á orðin.

Eg lít svo á, að háttv. meiri hluti hafi ekki neinn rétt eður gild rök til þess að orða till. um að hæstv. ráðh. beiðist lausnar á þann veg, sem hann gerir, þar sem því er haldið fram, að það sé álit mikils meiri hluta þjóðarinnar að í sambandslagafrumv. felist lögfesting Íslands í danska ríkinu, eða hvaðan kemur tillögumönnum sú vizka? eg álít þvert á móti að í frumv. séu svo miklar stjórnskipulegar réttarbætur, að mjög væri misráðið að gera á því nokkrar þær breytingar, er gerði tvísýnu á staðfesting þess eg álít að hv. meiri hluti hafi ekki rétt til þess gagnvart þjóðinni.

Eg sé ekki hvernig flokkurinn getur sagt, að hér sé ekki um réttarbætur að ræða, þar sem með frumv. er komið í veg fyrir að við þurfum að lúta stöðulögum Dana, eða byggja stjórnarskrána að nokkru leyti á þeim, sem nú er þó ómótmælanlegt, að vér gerum, með tilvitnun hennar til þeirra laga. Það hefir verið tekið fram í þessum sal, að við höfum vilst á samningsaðilum, höfum nefnilega samið við ríkisþingið danska í staðinn fyrir að eiga um þetta mál að eins við konunginn. Sé þetta rétt álitið þá hefir öll barátta Jóns Sigurðssonar verið háð á ramskökkum grundvelli, því það er þó kunnugt að hans mikla starf beindist aðallega að því að fá ríkisþingsmenn Dana til þess að skilja og viðurkenna okkar rétt. En þrátt fyrir alt þetta verð eg að játa, að óhjákvæmilegt sé að núverandi stjórn fari frá völdum, hvaða afleiðingar sem það kann að hafa, en jafnframt má minna á þá ábyrgð meiri hlutans, er hann bakar sér geri hann þær breytingar á frumvarpinu, er stofna okkur út í langa og tvísýna stjórnarbaráttu við Dani, þar sem vér nú höfum þau góðu boð að að ganga, er í frumv. felast. Ráðherrann hefir barist fyrir sjálfstæðismáli þjóðarinnar betur en nokkur annar, síðan Jón Sigurðsson leið og hann hefir barist fyrir þessu máli, vegna þess að hann er sannfærður um að það sé mesta velferðarmál íslenzku þjóðarinnar.

Þegar að því kemur að vér berum fram óskir okkar í sambandsmálinu, vænti eg þess að þeim flokki er nú sest að völdum og tekur á sig ábyrgðina gagnvart þessu máli, auðnist að finna réttan samningsaðila, sé það full alvara hans að hér hafi verið farin »skökk gata«. Eg vil enn fremur óska þess, að flokknum mætti auðnast að fá þær umbætur á frumv., er okkur mætti að enn meira gagni koma, en þær sem felast í sambandslagafrv. en vonlítið tel eg það, þar sem þingflokkurinn hefir enn ekki bent á nein sérstök ákvæði í þá átt. Eg lýk svo máli mínu með einlægri þökk til hins hæstv. ráðherra fyrir ágæta framkomu hans í embættinu, en þó sérstaklega í þessu máli, sem eg er sannfærður um að þjóðin þakkar honum því innilegar, sem lengri tímar líða.