19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ráðherrann (H H.):

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) mintist á ákvæðin um landhelgissviðið, og vildi hann draga þá ályktun af því að feld var till. hans um að nefna landhelgissviðið við Ísland berum orðum íslenzkt, að meiri hluti nefndarinnar teldi landhelgi vora danska. En þessi ályktun er alveg heimildarlaus; háttv. þm. (Sk. Th.) hlýtur að muna, að allar breyt.-till. hans, þar á meðal einnig sú till., sem gersamlega ónýtti alt samkomulag, till. um uppsegjanleika hermálasambands og sambands í utanríkismálum, voru bornar upp í einu lagi, en engin atkvæðagreiðsla um neina þeirra út af fyrir sig. Og ekki mótmælti háttv. þm. (Sk. Th.) þá þannig lagaðri atkv.gr. Þess vegna varð eitt yfir allar breyt.-till. hans að ganga, jafnt hinar óverulegu orðabreytingar sem hitt. Hér er því enga ályktun hægt að draga um þau atriðin, sem drógust með í fallinu, af því alt var borið undir atkvæði í einu.

Annars er mér óskiljanlegt, að það geti á nokkurn hátt rýrt það sjálfstæði eða haggað þeirri afstöðu Íslands gagnvart Danmörku, sem önnur ákvæði frumv. tryggja því, þó landhelgissvæðið við Ísland sé ekki sérstaklega nefnt »hið íslenzka landhelgissvæði« í lögum þessum fremur en það haggar sjálfstæði Danmerkur, þó landhelgissvæðið við Danmörk sé ekki sérstaklega nefnt »danskt« í frumv. Þetta eru orð, orð og ekki annað.