19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Skúli Thoroddsen:

Út af ræðu hæstv. ráðh. skal eg geta þess, að það er alt öðru máli að gegna um Dani, þótt þeir óski þess eigi getið sérstaklega í frv., að Danmörk hafi sitt eigið landhelgissvæði. Það efast enginn um að svo sé. Hitt var á hinn bóginn nauðsynlegt, að geta þess, að Ísland hefði sitt eigið landhelgissvæði, þar sem Danir telja þar til jafnréttis við oss.

Að því er tilhögun á atkvæðagreiðslunni um breyt.till. mínar snertir, þá mótmælti eg henni ekki af þeirri ástæðu, að það hefði ekki þýtt nokkurn skapaðan hlut, þar sem allir hinir nefndarmennirnir voru þeim andvígir, Íslendingar í nefndinni ekki síður en Danir, og kom mér það eigi á óvænt, þó að eg að vísu ekki byggist við því, að þeir greiddu atkv. gegn breyt.till. mínum, og þá sízt, að einn þeirra, (Jóh. Jóh.) talaði í móti þeim. Hefði og að líkindum meira áunnist, ef vér Íslendingarnir hefðum allir haldið hópinn og staðið fast fyrir.