28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Skúli Thoroddsen:

Háttv. framsm. minni hlutans (J. Ó.) lagði áherzlu á það, að eg hefði sagt, að vér fengjum ekki vilja vorum framgengt, nema því að eins, að vér gerðum samninga við konung, í sameiningu við ríkisþing Dana, og kvað hann þessi ummæli mín leiða til þess, að mér bæri að aðhyllast það. En orð mín voru að eins á þá leið, að hið »faktiska ástand« þ. e. ástandið, sem nú er, væri svo, að vér yrðum að leita samninga við Dani, þótt vér hefðum rétt til þess, að semja við konung einan. Stjórnarskrá vor og stöðulögin eru orðin til, sem valdboð. Þetta sjá nú Danir, og vilja því fá samþykki Íslendinga til skipunar þeirrar, sem felst í frumv. meiri hluta millilandanefndarinnar til þess, að þurfa ekki alt af að heyra það klingja, að samband vort við þá byggist á valdboði.

Í frumv. eru ákvæði um það, að Danir og Íslendingar skuli vera jafnréttháir hér á landi, sem og í Danmörku. Þetta ákvæði getur haft mikla þýðingu fyrir oss, og hana eigi heppilega. Þegar mjög er orðið áskipað í Danmörku, þá geta Danir flykst hingað þúsundum saman, og tekið sér bólfestu í frjósömustu héruðunum hér á landi. Það sjá allir, að af slíku getur þjóðerni voru stafað mikill háski. — Eftir stöðulögunum er það sérmál vort, að skipa atvinnulöggjöfinni, sem oss þóknast, og getum því veitt sjálfum oss forréttindi fram yfir Dani, ef vér viljum; en það getum vér eigi, verði frumv. samþykt. Að því leyti er í frumv. fólginn réttarmissir.

Verzlun og siglingar eru og sérmál vort, og því getur löggjafarvald vort skipað fyrir um sérstakan kaupfána. (Hannes Hafstein: Þetta er sérkredda). Þetta er engin sérkredda. Eg veit ekki betur, en að fánar séu nauðsynlegir hverju skipi, og fyrst að siglingar eru sérmál vort, þá leiðir af því, að kaupfáninn er það einnig. — Eg veit það vel, að Dönum er þetta viðkvæmt; þeir vilja helzt sjá dannebrog blakta hér á hverri stöng.— Fánamálið er orðið þjóðinni kært, einkum yngri kynslóðinni, þótt áhugi vor, sem eldri erum, sé ef til vill minni. Mér er þó orðinn fáninn svo kær, að mér þykir óviðkunnanlegt, að danskur fáni skuli blakta yfir oss hér á þinghúsinu, hve nær sem vér erum hér saman komnir til þess, að tala um landsins gagn og nauðsynjar.

Þá er og réttarmissir fólginn í því, að Danir hafi jafnrétti á við oss til fiskiveiða í landhelgi. Þar sem fiskiveiðar í landhelgi eru nú sérmál vort getum vér útilokað Dani og aðra þegna þeirra frá þeim, ef oss sýnist. — Af þessu er ljóst, hver óhagnaður er fólginn í frumv. oss til handa.

Þá vil eg enn fremur geta þess, að viðvíkjandi orðum hins háttv. framsm. minni hlutans (J. Ó.) þess efnis, að vér mistum engin landsréttindi, þótt frumv. yrði samþykt, að hér á landi er þó fjöldi manna, sem heldur því fram, að gamli sáttmáli sé hinn eini gildi samningur, sem vér höfum gert um samband vort við annað ríki. — Gæti svo farið, að oss þætti það eigi þýðingarlítið, að hafa ekki bundið oss á höndum og fótum, ef svo bæri undir, að Danir lentu í höndum einhverrar stórþjóðarinnar. Eftir skoðun ýmsra á gamla sáttmála, gátu Íslendingar sagt sig lausa, ef rofinn væri.

— En eftir frumv. mundu Íslendingar fylgja með sem innstæðu kúgildi, ef Danir yrðu gleyptir af öðru ríki, sem vonandi er, að ekki verði, og hefðu Íslendingar þá ekkert fyrir sig að bera.

— Þar sem hæstv. ráðh. (B. J.) sagði, að minstu skifti um það, hvort frumv. yrði útrætt á þinginu, eða samþykt rökstudd dagskrá, en því léti hann þó flokkinn ráða, þá er mín skoðun sú, að ekki eigi að slíta þessu þingi fyrr en samþykt er frumv., svo að Danir sjái kröfur vorar í sem glegstri mynd. Rökstudd dagskrá er of sljóft vopn.