28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Þorkelsson):

Eg get verið stuttorður um þetta mál nú; það var rætt ítarlega við 2. umr. og ekki hefir neitt það verið sagt, sem þá var ekki svarað, eða svara þyrfti.

Það er að eins br.till., eða réttara sagt viðaukatill. frá meiri hluta nefndarinnar, er eg nú vil fara nokkrum orðum um.

Helmingur nefndarinnar (eg þar á meðal) leit svo á, að klausan í sambandslagafrv. stjórnarinnar um forréttindi íslenzkra námsmanna við háskólann í Kaupmannahöfn ætti að falla með öllu í burt; í fyrsta lagi af því, að hér getur ekki verið um sambandsmál að ræða, heldur er það eftir eðli sínu »legat«, sem stofnað var af konungi á 16. öld, og kemur ekki sambandslögum við.

Þarnæst liggur sú ástæða til þess, að vér höfum nú nýlega samþ. frumv. um stofnun háskóla á Íslandi, og væri því óráðlegt að binda þessi forréttindi með sambandslögum á þann klafa, að vér gætum ekki samið svo um, að eitthvað af þeim með tímanum legðist til háskóla vors.

Enn fremur var það hvöt til að fá þessu ákvæði breytt, að á þingi 1905 var samþ. þingsál.till. um það, að yfirstjórn háskólans í Kaupmannahöfn samþyktist það, að leggja eitthvað af umgetnum styrk til hinna æðri mentastofnana hér: prestaskóla, læknaskóla og hins væntanlega lagaskóla.

Þess vegna var það nauðsynlegt, að ganga svo frá þessu atriði, að það gæti verið laust og utan við sambandslög, þegar á þyrfti að halda.

Meiri hluti nefndarinnar hefir fallist á þetta og ræður hinni háttv. deild sterklega til að samþykkja þessa viðaukatill.

Eg þarf svo ekki að segja fleira nú í þessu máli, en mun gera það síðar, ef mér þykir þess þurfa.