06.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

6. mál, aðflutningsgjald

Lárus H. Bjarnason:

Eg var ekki viðstaddur meðan háttv. framsm. talaði, og því getur verið að eg kunni að taka eitthvað upp af því, sem hann hefir sagt, en þó verð eg að segja nokkur orð.

Eg álít 3. gr. frumv. eins og hún hefir verið samþ. við 3. umr. í Nd. ekki að eins óeðlilega, heldur jafnvel óhæfilega, ef ekki beinlínis ólöglega. Eg sé ekki betur, en að ákvæðið um, að greiða skuli aðflutningsgjald af tollskyldum vörum samkvæmt þessum lögum alla leið frá 24. febr. 1909 sé beint brot á tolllögunum frá 8. nóv. 1901. Eftir tolllögunum frá 1901 legst tollgjald á vörur um leið og skip það hafnar sig, sem vörurnar flytur inn í landið. Allar vörur, sem nú eru komnar inn í landið og toll ber að greiða af, eru því tollskyldar eftir tolllögunum frá 1901. Það er hreinn og beinn hugarburður að segja að vara, sem komin er í íslenzka höfn, sé tollskyld eftir »lögum«, sem enn eru ekki orðin að lögum. Eg vil ennfremur benda á, hvort það muni ekki koma helzt til nærri anda 50. gr. stj.skrár. eða jafnvel orðun hennar, að láta lögin ná svona fyrir sig fram. Þeir menn, sem nú hafa eignast tollskyldar vörur, eiga þær t. d. í skipi, sem hefir nýlega hafnað sig, þeir eiga þessar vörur með þeim takmörkunum einum, sem núgildandi lög gjöra á eignarrétti þeirra, eða með öðrum orðum, eiga þær með núgildandi tollskyldukvöð.

Það er auk þess mjög varúðarvert fyrir löggjafarvaldið, að beygja inn á þessa braut, að láta lög ná fyrir sig fram. Afleiðingarnar gætu orðið hvorki meiri né minni en þær, að þá mætti aftaka svo að segja hvern rétt sem finst í landi voru. Það mætti þá koma aftan að mönnum og svifta þá hverjum rétti sem væri, hversu vel og dýrt sem þeir hefðu aflað hans. Eg vona því að þessi »nýi siður« verði ekki tekinn upp, enda mun ekkert fordæmi til slíks finnast hér á landi. Tolllögin frá 1907 ganga lengst. Þau gengu í gildi sama dag og konungur staðfesti þau. Hæstv. ráðh. skaut því að vísu fram, að fordæmi fyndist í Danmörku, nfl. tolllögin nýju. En eg held að þetta sé ekki rétt, því að lögin ganga í gildi 1. jan. 1909, en voru samþykt í maí 1908. Hitt er annað mál, að konungi var falið að láta lögin, að því er snerti toll á nokkrum vörum, öðlast gildi með kgl. tilskipun fyrir 1. jan. 1909, ef á þyrfti að halda til þess að stemma stigu fyrir tollspekulationum, og það er eitthvað annað en hér er farið fram á. Þótt hæstv. ráðh. hafi þannig heldur mælt með frumv. Nd., þá er það vitanlega ekki af því, að hann sé með því í principinu, heldur af því að hann er hræddur um, að ekki verði með öðru móti girt fyrir, að menn fari kring um lögin.

En þó að lögin verði samþykt eins og þau komu frá Nd., ná þau samt sem áður ekki þeim tilgangi, sem til er ætlast. Það eru til kaupmenn, sem þegar hafa farið í kring um þenna tilgang laganna og þessi lög ekki mundu ná til. Mér er sagt af 1 eða 2 Reykjavíkur kaupmönnum, sem hafi keypt annar 150 tunnur en hinn 160 tunnur af brennivíni. Þeir sáu við lekanum og settu undir hann í tíma, fengu brennivínið með »Sterling« 9. febr., vitanlega af því, að allir voru ekki eins þéttir og þeir áttu að vera, annaðhvort í stjórnarráðinu eða í prentsmiðjunni. Og þannig næðu þessi lög ekki tilgangi sínum gagnvart þessum mönnum.

Hins vegar er engin hætta á, að kaupmenn geti farið kring um lögin úr þessu. Því er óhætt að halda hinum gamla og gilda sið, að láta lögin þá fyrst ganga í gildi, er konungur hefir staðfest þau. Kaupmenn geta ekki náð sér í nein vínföng áður en konungur staðfestir þau, ef frumv. er flýtt hér í deildinni og Nd. Héðan fer skip til útlanda næsta mánudag. Ef frumv. yrði tekið hér til 3. umr. í dag með afbrigðum frá þingsköpunum mætti ljúka því í Nd. á mánudagsmorguninn og gæti þá stjórnin væntanlega afgreitt það til konungs með þessu skipi. Með þessu móti gæti frumv. orðið að lögum um miðjan þenna mánuð, en þá gætu kaupmenn hvorki náð hingað víni með »Sterling«, sem er farin frá Höfn, né með »Ceres«, áður en lögin yrðu undirskrifuð af konungi. Ef þessum framgangsmáta væri fylgt, félli alt í ljúfa löð, og jafnframt þá komist hjá því, að fremja lögleysu.