28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Jón Þorkelsson):

Eg hafði ásett mér að tala ekki frekar um mál þetta hér í deildinni, en verð þó að segja nokkur orð.

Í nefndarálitinu (þingskj. 578) er þess getið, að menn þeir, er stofnendur háskólasjóðsins kusu á fundi 6. apríl þ. á. til þess að gera tillögur um það, hvernig verja skyldi í framtíðinni þeim hluta sjóðsins, sem karlmenn söfnuðu, hafi lagt það til, að honum skyldi verja til að styrkja karlnemendur við háskólann fyrirhugaða. En nú hefir einn af þessum mönnum (Þórhallur biskup) bent mér á, að það hefði ekki verið hugsunin að útiloka námsstúlkur frá styrk af þessum hluta sjóðsins, heldur að karlar og konur ætti jafnan rétt til hans. Hefir hann óskað að þetta væri tekið fram í umræðunum, og það hefi eg nú gert. Að þessi hluti sjóðsins sé, eins og þessir menn hafa lagt til, kendur við Benedikt sýslumann Sveinsson, mun engum þykja meir en maklegt, enda hefir lítið verið gert til þess að halda uppi minningu hans síðan hann dó. Það hefir verið látið gróa yfir hana af svo merkilegu ræktarleysi, að mér er til efs, að nú viti nokkur maður, hvar leiði hans er hér í kirkjugarðinum.