26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

8. mál, laun háskólakennara

Sigurður Sigurðsson:

Mér skilst svo, að ekki mundi nærri því komandi hjá hinum háttv. framsm. (J. Þ.), að frumv. um stofnun háskóla verði látið óútrætt að þessu sinni og bíða næsta þings, jafnvel þó það mundi málinu langhollast. Það þarf vel að vanda, sem lengi á að standa, og mál þetta er naumast svo vel undirbúið, að það hefði einmitt gott af, að því væri frestað. — Jafn vitur maður og háttv. þm. Vestm. (J. M.) lagði það til í ræðu sinni áðan, að málið yrði ekki útkljáð að þessu sinni, og finst mér vert að tekið sé tillit til þess.

Um breyt.till. mínar við frumv. um laun háskólakennaranna, sem nú er til umr., sagði framsm., að þær væru afturför frá því, sem stæði í frumv.

Ef það er framför í þessu efni, að búa til mörg embætti með háum launum, þá skal eg játa, að breyt.till. mínar eru »afturför«. En sé því aftur haldið fram, sem eg verð að gera, að vér eigum að fara varlega í að stofna mörg embætti, og setja launin hæfileg, þá eru breyt.till. mínar áreiðanlega til bóta.

Eg skal svo gera nánari grein fyrir þessum breyt.till. mínum.

Eins og nú er, eru 3 kennarar við prestaskólann, með heimspekiskennaranum. Nú er gert ráð fyrir sérstakri heimspekisdeild og hverfur því heimspekiskensla prestaskólans undir hana. Eg fæ því ekki séð annað en að 2 kennarar nægi í guðfræðisdeildinni.

Við lagaskólann eru nú 2 kennarar, og forstöðumaður hans fer fram á að fá einn aukakennara í viðbót. — Þar hefi eg lagt til að verði 1 prófessor, 1 dósent og 1 aukakennari með 16 hundruð kr. launum. Og fæ eg ekki betur séð, en það sé hið sama og nú er — að aukakennaranum viðbættum.

Þá er læknaskólinn; þar hefi eg lagt til að væri 1 prófessor og 1 dósent og 6 aukakennarar. — Nú er þar í rauninni að eins einn kennari — og svo nokkrir aukakennarar.

Frumv. gerir ráð fyrir 2 prófessorum og 6 aukakennurum; en breyt.till. mín, að því er læknaskólann snertir fer að eins fram á það, að öðrum prófessornum sé breytt í dósent.

Samkvæmt frumv. eiga að vera 9 prófessorar, 2 dósentar og 6 eða 7 aukakennarar.

Ettir breyt.till. mínum er gert ráð fyrir 5 prófessorum, 4 dósentum og 7 aukakennurum.

Við embættisskólana hér eru nú 6 kennarar, og sést af því, að breyt.till. mínar eru sanngiarnar, og rýra alls ekki gildi væntanlegs háskóla, síður en svo.

Hvað snertir breyt.till. mína við laun háskólakennaranna, þá skal eg geta þess, að laun hinna föstu kennara við embættismannaskólana eru nú 19,200 kr. Eftir frumv. verða byrjunarlaunin kennaranna við háskólann 32,600 kr., og auk þess 7000 kr. til aukakennara eða alls nálægt 40,000 kr. Verði tillögur mínar samþ. í þessu máli, þá verða byrjunarlaunin 26,200 kr., og sjá þá allir, að hér er farinn hóflegur meðalvegur, og að tillögurnar miða að því að bæta frumv.

Eg álít því að breyt.till. mínar geri frumv. að mun aðgengilegra. Þær hafa þann tilgang að sníða okkur í þessu sem öðru stakk eftir vexti. Eins og nú er gengur meiri hluti af fé landsins til alskonar skóla og mentastofnana, og embættismanna og safnanna hér í Reykjavík. En flest annað, sem gera þarf í þessu landi, og horfir til sannra framfara er í kalda koli og látið ógert.

Það er því, að mínu áliti kominn tími til að hætta að stofna ný embætti og nýja skóla. Við verðum að fara eftir því, sem hér hagar til, í þessu sem öðru og sjá öllu farborða. Eg verð því að halda því fram, að breyt.till. mínar séu til bóta. Það má enginn taka það svo, að eg vilji á nokkurn hátt draga úr því, að háskóli verði stofnaður. — Þeirri hugmynd hefi eg alt af verið fylgjandi. — Háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) þótti laun dósentana lág. Þar við er það að athuga, að laun þeirra fara smámsaman hækkandi og svo verða þeir flestir prófessorar með tímanum, og þá hækka launin. Vinnan er heldur ekki ýkja ströng, þar sem þeir menn kenna ekki nema í mesta lagi 2—3 stundir á dag. Erfiðismönnum, sem standa allan daginn við vinnu sína með bogið bak mundi ekki þykja þetta vera langur vinnutími.