15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Pétur Jónsson:

Eg held, að háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hafi ekki gert sér grein fyrir, hver munur er á því, að skera og rífa hrís, því stundum verður að rífa hrísið, ef breyta á landinu í graslendi. Því hefi eg reynslu fyrir, að þá er betra að rífa hrísið, en að skera það. Hins vegar þykir mér það einkennilegt, að þurfa að sækja um leyfi til skógarvarðar til þess að mega hafa hin helztu not, sem eg get haft af landi mínu að skaðlausu. Hitt er miklu nær, að skógarvörður hafi eftirlit með því, hvar og á hvern hátt má rífa í landareigninni. Að nota skæri eða hnífa til þess að klippa með hrísið yrði of dýrt, því eins og nú stendur á, brúka menn mikið hrís til eldiviðar, og spara með því sauðataðið, en ef farið yrði að klippa hrísið þá yrði það dýr eldiviður.

En sé gengið út frá því, að landseigendur hafi ekkert vit á og enga tilfinningu fyrir, að fara forsvaranlega með land sitt, þá yrði að vera maður jafnvel í hverjum hrepp, sem hefði ekki annað að gera en að líta eftir því, að menn fari rétt með land sitt í þessu efni.

Ef þessi lög ná fram að ganga, þá eyðilegst t. d. allur geitpeningur í landinu, því hinn eini vegur til þess að verja geitpeningi kjarr og víðilönd er að farga honum alveg. En þar sem slík lönd eru ekki, dettur fáum í hug að hafa geitpening. En eg fyrir mitt leyti hefi ekki sérlega mikið á móti því. Geitpeningur er vargur í véum, þar sem skógar og kjarr er annars vegar. En þó er þetta kannske ekki fullathugað af meðhaldsmönnum þessa máls. Eg held að þeir háttv. þm., sem þekkja hríslendin í Þingeyjarsýslu verði sammála um það, að þar sé víða engin hætta búin, þótt hrís sé rifið. Hrísrif hefir farið þar fram um mörg ár og veit eg ekki til, að það hafi gert skaða. En það eru til landbrotsjarðir, þar sem gæta þarf sérstakrar varúðar. Það er þó margt fleira en hrísrifið, sem hafa þarf gætur á.

Ef lögum þessum, eins og þau liggja nú fyrir, væri framfylgt svo, að þau meinuðu hrísrif að fullu og vetrarbeit þar sem kjörr eru, þá mundu þau setja margar jarðir í eyði, a. m. k. í Þingeyjarsýslu.

Frumvarp þetta mun upphaflega samið af skógræktarstjóranum, útlendum manni og lítt kunnugum hér. Hversu góður skógfræðingur sem hann er, veit eg til sanns, að hann þekkir alls eigi, hvað hér gerir jarðir byggilegar í landbrotasveitum, og hve lítil höft á afnotafrelsi manna mega eiga sér stað til þess, að jarðirnar verði óbyggilegar með öllu.