08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

6. mál, aðflutningsgjald

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Eg skal leyfa mér sem framsögumaður að gera stutta athugasemd við það, sem tveir háttv. síðustu ræðumenn sögðu.

Háttv. þm. V.-Ísf. sagði, að eitt meðal annars, sem ynnist með þessari br.till. væri, að tollurinn félli á kaupandann en ekki á seljandann, og sagði að það væri réttlátt. Það er mikið rétt, að tollurinn lendir á kaupanda, en hann kemur líka niður á seljandanum, því hann heftir söluna á vörunni. Það liggur í augum uppi, að það er erfiðara að fást við vínsölu, ef 500% tollur er lagður á áfengi, heldur en t. d 300%. Eg skal sérstaklega benda á, að það er dálítið hart, og mér liggur við að segja með háttv. 5. kgk. þm., grimd, að leggja nú toll á ný á flösku, sem hefir legið j í 15 ár. (Sigurður Hjörleifsson: Hún hefir »lagrast« vel). Auðvitað, en peningarnir hafa líka »lagrast«. það má heldur ekki gleyma, að tollhækkuninni fylgja ekki eingöngu þeir aurar, sem lagðir eru á hverja flösku, heldur líka vextir og allur sá kostnaður, sem legst á við minni sölu. Því að það fé, sem liggur fólgið í víninu sjálfu, dregur líka rentu. Háttv. þm. sagði, að lögin verkuðu ekki fram fyrir sig; það má auðvitað reyna, að velta málinu við eins og hverjum þykir bezt, en eitt er víst, að hér er farið fram á mikla hækkun.

Háttv. þm. V.-Sk. þýðir ekki að »citera« bitter-lögin frá 1907, því þar var að ræða um verulegar birgðir af bitter, sem búnar höfðu verið til í ranglátu tollskjóli. Það er auðsætt, að þetta var óhæfa, og þess vegna ómögulegt að bera bittergjaldslögin saman við það, sem hér á að fara fram. Háttv. þm. V.-Ísf. bar þetta líka saman við hundaskattinn. Þetta er ekki hægt, þótt ekki væri af öðru en því, að hundaskatturinn er lágur skattur, en þessi áfengisskattur er mjög harður. Þar að auki er hundaskatturinn að eins lagður á hunda á vissum aldri, en ekki á þá hunda, sem enn þá eru í móðurlífi. Og á hinn bóginn er mönnum hægt að farga hundinum, ef þeir vilja komast hjá að greiða skattinn. Það má annaðhvort selja hann eða drepa hann. Hér stendur ekki svo á. Hundar eru ekki vara, sem að jafnaði gengur kaupum og sölum. Það er ekki hægt að segja kaupmanni að ónýta birgðir sínar, en það yrði, því vínsölumaður getur ekki flutt vöruna út aftur.

Eg skal svara því, sem háttv. þm. Ak. sagði. Það er ekki mín meining, að taka mikið til þess, þótt einstaka maður geti orðið fyrir nokkurri hörku. Slíkt getur alt af borið við, þegar um ný lög er að ræða. En eg legg mikla áherzlu á fordæmið, sem hér á að skapa. Því að þegar einu sinni er búið að leiða asnann inn í herbúðirnar, þegar farið er að láta lög verka fram fyrir sig, og það lög, sem eru mjög hörð, þá liggur í því mikil hætta. Þm. vildi líkja þessu við fasteignaskattinn. Þetta er alls ekki hægt, því fasteignaskattur segir ekki annað, en að löggjafarvaldið leggur kvöð á varanlega eign gjaldþegnsins. En þá vil eg benda mönnum á, að það er mikill munur á að leggja skatt á fasteign og að leggja skatt á viðskifti. Í því verða menn að vera mjög varkárir. Eg býst ekki við, að nokkurn tíma verði lagður svo hár skattur á fasteign, að hún verði óeigandi, en það gæti með þessu móti rekið að því, að svo hár skattur yrði lagður á viðskifti, að hann hefði gjaldþrot í för með sér. Eg er sannfærður um, að hér er verið að stofna mörgum mönnum í verulega fjárhagslega hættu. Að minsta kosti hlýtur tollurinn að koma mjög hart niður.

Eg vil í sambandi við þetta mál beina því til háttv. forseta, hvort ekki væri rétt að taka málið út af dagskrá, þar sem á fundinn vantar tvo lögfræðinga, og eg hins vegar álít, að mál þetta sérstaklega taki til þeirra.

Eg vil skjóta þessu til háttv. forseta, og mér liggur við að gera það að tillögu minni, að málið sé tekið út af dagskrá.