27.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

16. mál, aðflutningsbann

Sigurður Sigurðsson:

Það þýðir lítið að taka hér til máls, því að salurinn er auður, og eg kynni þó betur við, að þeir háttv. þm., sem eg þarf að svara, væru viðstaddir.

Áður en eg svara þeim hæstv. ráðherra og háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) þá vil eg fara nokkrum orðum um það, hvernig á því stendur, að þetta frumv. er lagt fyrir þessa háttv. deild á þessu herrans ári 1909.

Þess er þá fyrst að geta, að í öndverðu var víndrykkja mjög takmörkuð. Vín var dýrt, svo að það gátu ekki aðrir neytt þess, en höfðingjar, kongar og keisarar og þess konar fólk, en aðrir gátu það ekki. Seinna komust menn upp á það, að gera vín á ódýrara hátt, notuðu til þess kartöflur, korn og fleira. Við þetta jókst framleiðslan að miklum mun. Vínið féll í verði, og almenningur átti nú kost á því, að kaupa það og neyta þess. Þetta hafði þær afleiðingar, að vínnautnin varð almenn og leiddi til ofdrykkju. Þá rísa upp menn, sem sjá, hversu miklu tjóni vínið veldur, og þeir finna upp á því, að mynda bindindisfélög. Eitt slíkra félaga, er Good-Templarreglan. Sú regla náði til Íslands, því að þar voru menn ekki fremur undanþegnir þessu böli en annarsstaðar. Starfsemi þessa félagsskapar hér á landi hefir leitt af sér frumvarp það, sem nú er lagt fyrir þingið.

Áður en eg sný mér að einstökum mótmælum, er komið hafa fram, vil eg minnast á eina hlið málsins. — Það er eftirtektarvert, hversu læknar víða um heim og eins hér á meðal vor Íslendinga hafa beitt sér fyrir mál þetta fremstir í flokki. Hvernig stendur á því, að þeir hafa gert það? Því víkur svo við, að verkahringur þeirra segir þeim og kennir þeim fremur öðrum sannindin í þessu efni. Þeir eru manna bærastir til þess, að rannsaka skaðsemi víndrykkju yfir höfuð. — Það er álit margra merkra vísindamanna, að ofdrykkja leiði til þess, að menn veiklist og úrættist og tapi sínum góðu eiginleikum, og að svo geti farið, að þær þjóðir, sem ofdrykkja tíðkast hjá, verði undir í baráttunni við aðra þjóðflokka.

Eg skal nú ekki fara nánara út í málið frá almennu sjónarmiði, en víkja að ræðum manna hér nú.

Eitt af því, sem sagt hefir verið, er það, að lögin mundu verða brotin. Eg held, að Íslendingar séu ekki ólöghlýðnari en aðrar þjóðir, sízt ef lögin eru þeim hugþekk. Eða eru nokkurar sérstakar líkur til, að þessi lög verði ekki haldin? Ekki get eg séð það, þvert á móti. Meiri hluti þjóðarinnar er með aðflutningsbanni. Atkvæðagreiðslan í haust sýndi það, að það voru rúmir ? hlutar kosningabærra manna með því, að banna algerðan innflutning allra áfengra drykkja. — Hefði kvenþjóðin fengið að greiða atkvæði um málið, þá mundi meiri hluti hennar hafa orðið með málinu.

Það var sagt að aðflutningsbannslögin mundu verða mikið brotin, og bent á það, hvernig núgildandi lög um vínsölu séu haldin. En það er engin heil brú í því að vera að bera saman aðflutningsbannslög og lög þau, er nú gilda um vínsölu. Hér er tvennu ólíku saman að jafna. Það, sem kemur mönnum nú til þess að brjóta vínsölulögin, er ekki freistingin til þess að drekka sig ölvaðan, heldur gróðavonin, en um slíkt getur ekki verið að ræða, þegar búið er að samþ. aðflutningsbann. Að launknæpum muni fjölga, þó að aðflutningsbann verði samþ., nær að mínu áliti ekki nokkurri átt. Hverjir mundu helzt hafa freistingu til að brjóta þessi lög? Ekki mundu sveitamenn gera það. Öll alþýða manna mundi halda lögin. — Hverjir mundu þá verða til þess? Eg vil ekki gera mönnum getsakir í þessu efni, en það lægi næst að álykta, að þeir, sem gera sér mest far um að berjast á móti því að lög þessi nái fram að ganga, mundu verða manna fyrstir til að brjóta þau. En þó svo kynni að koma fyrir, að lögin verði brotin, þá er það í sjálfu sér engin mótbára gegn því að lögin verði sþ. Þau lög hafa aldrei verið búin til og verða ekki búin til, sem ekki má fara í kring um eða brjóta. Og þessi lög verða heldur ekki undantekning frá því. Hitt er auðsætt, að reynt verði að ganga svo frá lögunum, að erfitt verði að fara í kring um þau.

Þá var það sagt, að ferðamannastraumurinn hingað mundi minka að mun, ef aðflutningsbannslögin næðu fram að ganga. Eg skal játa það, að eg þekki ekki til hlítar, hversu mikið útlendingar hér við land drekka af víni, en því held eg fram, að »túristar« eru yfirleitt »gentlemenn« og drekka lítið. Það er því að mínu áliti engin ástæða til að halda í vínið vegna þeirra útlendinga, er hingað koma. Þeir yrðu vafalaust sáríáir, sem hættu við að ferðast hér um vegna aðflutningsbannsins. Annars efast eg stórlega um, að útlendingar hér á landi drekki meira en sem því nemur, er íslenzkir menn drekka á strandferðaskipunum og erlendis t. d. í Danmörku.

Þá gat háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) þess, og lagði mikla áherzlu á það — hversu ill áhrif lög þessi mundu hafa á þá menn, er færu til útlanda eftir að lögin eru í gildi gengin. En eg vil leyfa mér að benda á það, að þetta er hreinasta fjarstæða. Nú gengur sú alda yfir heiminn að útrýma áfengi, og þó að Danir drekki mikið, er þó þar í landi talsverð viðleitni til þess að takmarka áfengisnautnina, og eg efast ekki um, að þeir tímar muni koma, að einnig þar verði reynt að flytja á þingi frumv. til laga um algert aðflutningsbann á áfengum drykkjum.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) virtist vera hræddur um það, að menn mundu gleyma víninu og hætta að þekkja verkanir þess. Hann hélt því enda fram, að vínnautnin væri ágætur reynsluskóli. Það er uppbyggilegur skóli eða hitt þó heldur. Slíkur skóli gerir engan mann að betri manni. Eg geri ráð fyrir, að í öllum skólum landsins muni verða frætt um skaðsemdar-áhrif vínsins, og Íslendingar mundu þar af leiðandi með tímanum skoða áfengi sem hvert annað eitur, er skaðlegt væri fyrir líf og heilsu manna.

Háttv. 1. þm. S. Múl. (J. J.) hafði orð á því, að lögum þessum mundi verða synjað staðfestingar. Eg get enga ástæðu séð til þess; finst það vera blátt áfram óheiðarleg aðdróttun að hans hátign konunginum að gera ráð fyrir, að hann beiti synjunarvaldi í þessu máli.