26.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Sigurður Sigurðsson:

Mér virðist frv. þetta vera svo úr garði gert, að það gefi kaupmönnum og verzlunarstjórum undir fótinn með, ef það yrði að lögum, að láta verzlunarnemana vinna lengri tíma, en til er ætlast af þeim, er flytja málið og mæla fram með því. Ef ákvæði laganna eru ekki skýr og ljós í þessu efni, er jafnan hætt við, að farið verði í kring um þau. — Þeir vita það, sem kunnugir eru hér, að iðnnemar eru oft hafðir í snúningum og sendiferðum, eftir að hinum ákveðna vinnutíma er lokið; verða nemendurnir þannig lakar úti og vinna lengur heldur en þeir, sem vinna fyrir fullu kaupi.

Í frumvarpinu er svo ákveðið, að verzlunarstjóri eða kaupmaður megi ekki láta nemandann að jafnaði vinna frá kl. 6 til kl. 9. Þetta er svo teygjanlegt og óljóst til orða tekið, að þörf væri á að ákveða það nánara. Eg vildi helzt að sett væri í frumv., að alls ekki mætti láta þessa verzlunarnema vinna lengur en 10 stundir, nema þá að sérstakar ástæður eða brýn nauðsyn væri fyrir hendi. Eg viðurkenni, að frumv. er að sumu leyti gott og þarflegt, en er hins vegar sannfærður um, að það þarf að breyta því í ýmsum atriðum, til þess að það geti náð tilgangi sínum.