17.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

7. mál, háskóli

Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason):

Háttv. þm. Strandamanna og 4. kgk. þm hafa tekið af mér ómakið að svara háttv. þm. V.-Ísf., svo að eg get verið stuttorður. Eg undirstrika það, sem háttv. þm. Strand. sagði um danska orðið »Højskolelærer«. Það verður eingöngu haft um nemendur á lýðháskólum. Og það mun þó ekki vera meiningin, að setja háskólanemendur vora á bekk með jafn lítt mentuðum mönnum og flestir lýðháskólanemendur eru. Um ýmis önnur hinna útlendu heita, t. d. rektor, dósent o. s. frv., er það að segja, að þau eru styttri og munntamari en tilsvarandi íslenzk orð. En úr því háttv. þm. V.-Ísf. fór að amast við þessum orðum, hví hefir hann þá ekki líka fett fingur út í doktors heitið. Eg sé að þarna situr einn dr. phil. Hvað ætlast háttv. þm. til að hann verði kallaður framvegis? Annars mun enginn taka eftir því, að hér er um útlend nöfn að ræða, þegar frá líður, eins og enginn man nú eftir því, að biskup og djákni og ýmis önnur útlend orð eru ekki íslenzk að uppruna. Háttv. þm. V.-Ísf. þótti óþarft að bera sig saman við nefndina til 3. umr., og verður það því svo að vera. Eg skaut því fram ekki síður vegna háttv. þm. en nefndarinnar. Hún er allsendis ósmeik við, að láta »slaginn« standa nú þegar.