24.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

51. mál, stofnun landsbanka

Sigurður Sigurðsson:

Eg vil leyfa mér að gera örstutta grein fyrir breyt.till. á þingskj. 579.

Þegar 5. gr. frumv. er athuguð sést, að bankastjórunum eru ætluð 4000 kr. laun, og auk þess 10% af gróðahlutdeild bankans, er frá hafa verið dregin 2% í varasjóð, l% ,í húsnæðissjóð og 1% til borgunar í seðlaskuld bankans í landssjóð, en þó svo að upphæð þessi eigi megi fara fram úr 2500 kr. til hvers af þessum mönnum, eftir því sem eg skil ákvæðið í 5. gr. Verður þá hámark launanna 6500 kr. Þetta mætti annars þykja sæmileg laun og óþarfi við að bæta. En svo eiga þeir og að fá eftirlaun, alt að helmingi hinna föstu launa. Sökum þess, hve vel launað þetta starf er, virðist mér tæpast ástæða til að ætla þessum mönnum eftirlaun. Og dálítið varhugavert virðist mér slíkt, er alstaðar láta til sín heyrast raddir um afnám eftirlauna í landinu. Í þingbyrjun kom og fram tillaga um afnám allra eftirlauna hér, en þeirri tillögu var vísað til sambandslaganefndarinnar. Tillagan þótti eigi frambærileg, eins og hún kom fram fyrst. — En þetta sýnir samt vilja bæði þings og þjóðar í þessu máli. Þegar gerð verður breyting á stjórnarskránni, sem vonandi eigi verður langt að bíða, mun þá tekið upp ákvæði, er fari í þá átt, að öll eftirlaun megi afnema með einföldum lögum. Virðist þá meiningarlítið að koma með tillögu um að veita hálaunuðum mönnum eftirlaun, eins og farið er fram á í frv. Það er að minsta kosti ekki í samræmi við framkominn vilja þjóðarinnar í þessu máli á undanfarinni tíð. Að endingu vil eg geta þess, að eg er algerlega sammála háttv. þm. Vestm. (J. M.) um, að laun hins lögfræðislega ráðunauts séu sett of há, einkum ef það er meiningin að hann fái jafnan hluta af gróða bankans og bankastjórarnir.