30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

53. mál, sóknargjöld

Jón Ólafsson:

Eins og háttv. þm. Mýr. (J. S.) hefir skýrt frá, þá höfum við minnihlutamenn í nefndinni lagt það til, að 2. gr. frv. sé breytt þann veg, að allir, sem ekki eru í þjóðkirkjunni sé undanþegnir gjöldum til hennar. Það er skoðun mín, að það sé að minsta kosti andi stjórnarskrárinnar, að ekki séu lögð aukagjöld á menn fyrir það, að þeir eru ekki í þjóðkirkjunni, því í stjórnarskránni er það tekið fram, að enginn skuli missa borgaraleg réttindi sakir trúar sinnar. En ef þeim mönnum er gert að skyldu að greiða gjald til þess kirkjufélags, sem þeir heyra ekki til, þá er það aukakostnaður, sem lagður er á þá sakir trúarbragðanna. Þetta er misrétti.

Eg veit ekki, hvort meirihluti þessarar þingdeildar — meiri hluti beggja flokka — vill unna öllum jafnréttis. En það munu þó allir játa, sem nokkra trú hafa, að það er samvizkuspursmál að neyða menn til að greiða gjöld til trúarfélags, sem þeir ekki tilheyra. Eg vona það, að engir menn frekar en prestarnir viðurkenni það, að það er samvizkuspursmál að láta menn greiða gjöld til trúarfélags, sem þeir tilheyra ekki. — Eg vona að flestir játi, að sú kirkja, sem ekki getur staðist án þess að henni sé haldið við með kúgunargjöldum af hendi þeirra manna, sem ekki heyra henni til, hún muni lítið gildi hafa fyrir trúarþörf manna eða sálarheill.

Eg hefi heyrt þá mótbáru, ekki frá prestum, heldur leikmönnum, að ef þetta yrði samþ. myndu margir ganga úr þjóðkirkjunni til þess að losna við gjöldin. Eg held það sé óþarfa hræðsla. Að minsta kosti þætti mér það minkun fyrir mig — ef eg heyrði þjóðkirkjunni til —, að búast við því, að hún hafi svo lítil áhrif á meðlimi sína, sé svo lítils metin af þeim. Eitt er víst, að í hvaða kirkjufélagi, sem slíkir menn væru, mundu þeir vera því meira til ógagns en gagns. Þeir væru dauðir limir á líkama þess trúarfélags, og ættu þar ekki heima. En það verður að gæta að því, að þessir dauðu limir kirkjunnar hafa atkvæðisrétt um hennar mál, og þá ekki víst að atkv. þeirra væru æfinlega til hagsmuna fyrir hana.

Eg vona, að það séu margir úr báðum flokkum þessa þings, sem kannast við réttmæti breyt.till., og sjái að þær röksemdir, sem við höfum fært fyrir henni, séu góðar og gildar.