19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Jónsson:

Út af vörn hæstv. ráðh. vildi eg mega benda á það, að undirstaðan við deildaskifting þingsins þarf að vera önnur og meiri en aldursmunurinn einn. Hæstv. ráðherra furðaði á því, að farið skuli vera fram á þetta nú alt í einu og að því skuli ekki hafa verið hreyft fyr. Því skal eg ekki svara; eg hefi ekki setið á þingi undanfarin ár. En sýnst hefir mér stefna þingsins hafa verið sú, að miða kröfur vorar við það aðallega, hvað Danastjórn mundi vilja láta af hendi rakna, og mjaka sér áfram fet fyrir fet. Eg hygg, að enginn hafi búist við, að kvennréttindamálið fengi framgang, þó hreyft yrði. — Eg man eftir því hérna um árið, þá er konum var veittur kosningarréttur í sveitamálum, þá greip eg eitt sinn niður í grein í dönsku blaði mikilsmetnu. Greinin var um þessi lög og höfundur hennar einn af merkustu stjórnmálamönnum Dana, Goos háskólakennari. Hann undraðist það mjög, að kvenþjóðin á Íslandi væri það þroskaðri en konur annarstaðar, að hún ætti skilin þessi réttindi um fram aðrar þjóðir. Höf. þótti það sýnilega mjög ólíklegt, enda leyndi það sér ekki á allri greininni, að hún var rituð af megnum lítilsvirðingaranda í vorn garð og fanst mér eins og lesa mætti milli línanna, að höf. gerði helzt ráð fyrir, að konur hér á landi gengju í selskinnsbrókum og væru að öllu heldur líkari Skrælingjum. Þetta stóð þar ekki, en mér fanst eins og það lægi á bak við. Eg hefi aldrei haft tilhneigingu til þess að skoða kvenþjóðina sem nokkurs konar óæðri verur en karlmenn. Og ef svo hefði verið, mundi grein þessi hafa haft þau áhrif á mig, að eg hefði snúist í lið með kvenþjóðinni, svo gramdist mér hún.

Það er góðra gjalda vert af stjórninni að gera ráð fyrir því í frv. þessu, að konur fái kosningarrétt til alþingis. En þar við er það að athuga, að kalla má að vel skipist, ef þessi stjórnarskrá verður að lögum fyr en eftir 8—10 ár, því að hún verður líklega að fylgja sambandsmálinu og bíða til þess er það er útkljáð. En um það mun verða löng barátta og hörð, og ekki líkur til, að vilji hinnar íslenzku þjóðar hafist fram að sinni.