19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Ráðherrann (H. H.):

Mig furðar á því, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) skuli ganga að því vísu, að eg viti fyrir fram, að sambandslagafrumv. verði ekki samþ. af þinginu. Eg veit það ekki og trúi því ekki fyr en eg tek á, að það ólán hendi þetta þing að fella slíkt frumv. Eg vona, að þm. kannist við kosti þess, þegar þeir fara að athuga það rólega og án kapps og samþykki það að minsta kosti í öllum aðalatriðum. En ef svo fer, að sambandslagafrumv. verður ekki samþ., þá ætti þó andstæðingaflokkurinn enn að vera á sömu skoðun sem fyrr um það að hraða breytingum á stjórnarskránni og greina þær frá sambandslagafrv. og mætti þá taka kosningarrétt kvenna þar með, án þess að nokkuð tefðist.

Það er fátt, sem eg þarf að taka fram í viðbót, því að háttv. 2. þm. S.-M. (J. Ól.) hefir tekið af mér ómakið að svara hv. 1. þm. Rvík. (J. Þ.). Þó vil eg geta þess viðvíkjandi því sem h. þm. sagði um varaþingmennina í Ed., að það er ætlast til að hafa þá vegna þess, að þar sem alt landið er 1 kjördæmi, yrði miklum erfiðleikum bundið að kveðja til kosninga af nýju, ef forföll kæmu fyrir aðalþingmennina, dauði eða annað, og væri því nauðsynlegt að hafa þingmenn til vara, sem þá yrðu kosnir um leið og aðalmennirnir á líkan hátt og gert var ráð fyrir í frumv. um hlutfallskosningar á síðasta þingi.