20.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

8. mál, laun háskólakennara

Framsögumaður (Lárus H. Bjarnason):

Eg þakka háttv. þm. V.-Sk. fyrir hreinskilnina. En reyndar hefði hann átt að bíða með þessa ræðu þangað til við 2. umræðu málsins, því að þá fyrst má fara út í einstök atriði frumvarpsins.

Háttv. þm. kvaðst vera á móti frumv. Þetta þykir mér undarlegt, af því hann greiddi þó atkvæði með frumv. um stofnun háskóla, og þetta frumv. er aðeins nauðsynleg afleiðing af því. Ef stofnaður er háskóli með 4 deildum, þá þarf kennara í þessar 4 deildir. — Hann sagði að laun prófessoranna ættu að vera 4800 kr. Þetta er ekki rétt, háttv. þm. hefir ekki lesið frumv. vel. Byrjunarlaunin eiga að vera 3000 kr., jafnhá faktorslaunum. Allir vita þó hver munur er á þeim undirbúningi, er verzlunarstjórar og prófessorar þurfa undir stöður sínar. Launin enda eftir 27 ára embættisþjónustu á 4800 kr. Eg get þessa að eins vegna þess, að háttv. þm. V.-Sk gaf ástæðu til þess, en fer ekki frekar út í einstök atriði, fyr en við aðra umræðu. — Eg vona að háttv. deildarm. lofi frv. til 2. umræðu.