14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

56. mál, byggingarsjóður

Skúli Thoroddsen:

Eg tek í sama streng, sem háttv. 2. þm. Rvík. (M. Bl.), að ef deildin samþykkir þetta, þá er það sama, sem hún skori á stjórnina, að fremja lagabrot, og eg vil benda háttv. flutningsm. (B. Kr.) á það, að samkvæmt fyrirmælum laga 20. okt. 1905, er lóðin eign byggingarsjóðs Íslands. Stjórnin hefir því heimild til þess að selja hana með ákveðnu verði, 5 kr. feralin, en brestur heimild til þess að leigja hana, og ákvæðum gildandi laga verður eigi breytt með þingsályktun, heldur að eins með nýjum lögum. — Þingdeildin hlýtur því, sóma síns vegna, að fella nefnda þingsályktunartillögu.

Eg er og háttv. 2. þingm. Rvík. (M. Bl.) sammála um það, að menn mundu koma í stór-hópum og beiðast þess, að verða hins sama aðnjótandi, ef héraðslækninum væri leigð hin umbeðna lóð, og ekki sízt mundu ýmsir embættismanna í Reykjavík þá þykjast eiga tilkall til hins sama, t. d. bæjarfógeti, og yrði þá örðugra að synja.

Þingsályktunartillagan fer og fram á það, að baka byggingarsjóði mjög mikið fjártjón, þar sem vextir af andvirði lóðarinnar, væri hún seld á 5 kr. feralinin, eins og gildandi lög áskilja, mundu — þótt rentan væri að eins reiknuð 4% — nema 200 kr. árlega, og næmi þá tapið, þar sem tillagan gerir að eins ráð fyrir 100 kr. eftirgjaldi, hundrað krónum á hverju ári, og mundi sú upphæð með vöxtum og vaxtavöxtum í 99 ár skifta mörgum tugum þúsunda, og yrði það því ekkert smáræði, sem héraðslækninum yrði gefið á þennan hátt, og færi því bezt á því, að háttv. flutningsm. (B. Kr.) tæki tillöguna aftur, en að öðrum kosti á deildin að sjálfsögðu að fella hana.