03.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1536 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

99. mál, sala þjóðjarða

Sigurður Sigurðsson:

Eg ætla að eins að gera örstutta athugasemd. Mér þykir leiðinlegt að segja það, að mér virðist, að álit minni hlutans sé, að eg ætla, bygt á misskilningi. Minni hlutinn segir, að frumv. miði að því að eyðileggja sjálfsábúðina í landinu; en það er þvert á móti. Frumv. styður einmitt að sjálfsábúðinni, og tryggir hana. Þess vegna er alt, sem hinn h. minni hluti segir um þetta talað út í hött. Frumv. fer ekki fram á annað en að landssjóði sé heimilað að kaupa aftur þá jörð, er keypt hefir verið af honum, þá er hún gengur úr sjálfsábúð. Þetta ákvæði eykur gildi laganna um þjóðjarðasölu, og stuðlar að því, að tilgangi þeirra verði náð.

Frv., ef það yrði að lögum, hindrar eða jafnvel útilokar leppmensku þegar um kaup á þjóðjörðum er að ræða, og er það mikilsvert atriði. Fyrir því verð eg að álíta það illa farið ef frv. yrði felt, og alt skraf um að það spilli fyrir sjálfsábúð í landinu er á engum rökum bygt. Það er líka mjög vafasamt, hvort landssjóður vill eða þarf að nota þessi réttindi sín. Eg hygg að hann geri það að eins, þegar brýna nauðsyn ber til þess.