13.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

102. mál, vegamál

Flutningsmaður (Sigurður Sigurðsson):

Eg skal strax láta þess getið, að frumv. þetta er hér flutt samkvæmt ósk sýslunefndarinnar í Árnessýslu og þingmálafundar í sýslunni. Sýslunefndin fer fram á það:

1. Að sýslan verði losuð við viðhald flutningabrautarinnar yfir Ölfusið og Flóann.

2. Að úttekt veganna verði ásamt landsverkfræðingnum falið manni, er sýslunefnd tilnefnir.

3. Að úttekt flutningabrauta verði frestað fram í júnímánuð 1910.

Það var alment álitið, að þegar byrjað var á vegi þessum 1886, að það væri gert í notum þess, að sýslurnar austanfjalls færu alfarið á mis við þægindin og hagnaðinn af strandferðunum. Sá maður, sem þá réði hér ríkjum, landshöfðinginn, leit svo á, og það með réttu, að sjálfsagt væri að tengja fjölbygðustu sveitirnar við höfuðstaðinn með eins góðum samgöngufærum og frekast væri unt.

Þetta var einnig eðlilegt og sjálfsagt í alla staði. Þegar svo á þetta er litið, er það bæði sanngjarnt og sjálfsagt, að létta af Árness- og Rangárvallasýslum viðhaldinu á þessari leið. — Það er að mínu áliti »princips«-brot, að láta viðhaldið hvíla á þessum sýslum. Það virðist æði undarlegt, að Rangárvallasýsla skuli þurfa að bera kostnaðinn af viðhaldi brautarinnar á milli Þjórsár og Ölfusár. Viðhaldið hefði alveg eins mátt hvíla á Reykjavíkurbæ og Vestur-Skaftafellssýslu. — Annars skal eg ekki fjölyrða um það, hve þungt slíkt viðhald liggur á Árnessýslu. Það á ekki út af fyrir sig að ráða úrslitum þessa máls. En á það má benda, sem gilda ástæðu með þessu frumvarpi, að þjóðvegur liggur kringum landið, að undanteknum kaflanum frá Reykjavík að Ytri-Rangá. Þjóðvegur liggur, sem kunnugt er frá Elliðaánum alla leið til Akureyrar, þaðan austur um land til Seyðisfjarðar. Síðan liggur þjóðvegur frá Egilsstöðum suður í Hornafjörð og þaðan vestur sýslur að Rangá. Það lítur því hálf undarlega út, að slíta hér í sundur þjóðveginn. Lang-eðlilegast virðist það, að þjóðvegurinn hefði haldið áfram alla leið til Reykjavíkur, og að landssjóður hefði annast viðhaldið á þessari leið, eins og flestum öðrum þjóðvegum.

Eg vænti nú þess, að frumvarpinu verði vel tekið, og að skipuð verði nefnd, að lokinni þessari umræðu til þess að íhuga málið.