15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

102. mál, vegamál

Sigurður Sigurðsson:

Jafnvel þótt eg búist við því, að það sé að tala fyrir daufum eyrum að minnast frekar en orðið er á þetta mál hér, vil eg þó leyfa mér, að segja nokkur orð um það, áður en til atkvæða er gengið.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að fella frumv., þrátt fyrir það, þótt sýnt hafi verið fram á það við 1. umr., hvílík sanngirni mælir með því. — Minni hlutinn hefir nú komið með breyt.till. við frumv., að nokkru leyti í samráði við verkfræðinginn. Eins og menn sjá, þá fara þær skemra en frumv., og er því enn meiri ástæða fyrir andstæðinga málsins að vera með þeim og samþykkja þær.

Eins og tekið hefir verið fram, er svo ástatt, að á Rangæingum hvílir ? viðhaldskostnaðarins af veginum milli Ölfusár og Þjórsár. Sá vegur allur er 18 km,, og koma þá 6 km. á Rangæinga. Nú munu allir skilja, hversu óvinsælt það er að skylda sýslu til þess að halda við vegum í annari sýslu. Auk þess munu Rangæingar fá nóg af viðhaldi sinna eigin vega; vegurinn milli Þjórsár og Rangár er í slæmu ástandi, og viðhald hans mun kosta mikið í framtíðinni. — í samráði við verkfræðing landsins hefir því minni hlutinn farið fram á það, að landssjóður kosti viðhald flutningabrautarinnar austur um Ölfus, að vegamótum Grímsnesbrautarinnar, og að Rangárvallasýsla losni við að taka þátt í viðhaldskostnaðinum við Flóaveginn. Með þessu yrði sýslunum gert jafnt undir höfði að mestu leyti. Þó mun Árnesingum vera lítill hagnaður að þessum skiftum, því að Ölfusvegurinn er góður og kostnaður við viðhaldið miklu minni tiltölulega en á Flóaveginum.

Eins og eg gat um getur það ekki blessast til lengdar, að sýslur kosti vegi annara sýslna, er liggja um þær. Það er öðru máli að gegna, þótt Norður-Múlasýsla kosti með Suður-Múlasýslu viðhald Fagradalsbrautarinnar, því að þær sýslur einar nota hana, og svo er sá vegur í rauninni fjallvegur.

Þessar sýslur, Arness- og Rangárvallasýslur, hafa svo mikið saman að sælda, að óskandi er, að löggjöfin spilli ekki samkomulagi þeirra með óheppilegum lögum. — Hér er um sanngirniskröfu að ræða, og ekki það eingöngu, heldur og réttarkröfu. Það hefir verið vitnað í verkfræðinginn í sambandi við þetta mál. Eg skil það, að hann muni eiga erfitt með að ganga frá vegalögunum, sem hann er sjálfur aðalhöfundur að. En eg veit, að hann er hlyntur þessari breyt.till. Eg hefi raunar ekki tekið það skriflegt af honum, en vona, að háttv. þd. taki samt orð mín trúanleg.

Minni hlutinn hefir og lagt til að fella tvær síðustu málsgreinir 2. gr., en heldur fast við, að 1. málsgr. standi. Verkfræðingurinn má heita eftir vegalögunum einvaldur, hvað úttekt veganna snertir. Eg trúi vel núverandi verkfræðingi til sanngirni, þegar um úttekt flutningabrauta er að ræða, en ekki getur hans notið við um aldur og æfi. Og vel má búast við manni í það sæti síðar, sem er ekki jafnréttsýnn. Það er seint að breyta lögunum, þegar í óefni er komið.

Okkur flutningsmönnum finst það, þrátt fyrir álit meiri hlutans og skoðanir hans, að ekki sé rétt, að þessi úttekt sé falin á hendur einum manni, er sé einvaldur í því máli. Ef br.till. minni hl. verða samþ., þá hefir frv. fengið góðan búning.

Eg hefi reynt að gera það ljóst, að þetta frumv. er bygt á sanngirni. Það eykur tiltölulega lítið útgjöld landssjóðs, þótt það bætist við að þurfa að halda við þessum 12 km. af brautinni austur. Það fer líka betur á því, að landssjóður taki að sér viðhald á veginum austur Ölfusið, þar sem sá vegur stendur í sambandi við Hellisheiðarveginn, er honum ber að viðhalda samkvæmt vegalögunum.