15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

102. mál, vegamál

Sigurður Sigurðsson:

Háttv. frsm. (B. Sv.) virtist misskilja mig, þar sem eg sagði, að þessi lög gæti spilt samkomulagi milli sýslnanna, og sneri dálítið út úr því, sem eg þó ekki finn ástæðu til að eltast við, en fyrirgef honum. Það sem er aðalatriðið í þessu sambandi og ber að athuga, er þetta, að löggjöfin er, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis að stuðla að því með vegalögunum, að spilla sambúð og samvinnu þessara héraða.

Þá gat hann þess, að þar sem eg hefði viðurkent, að Jón Þorláksson væri sanngjarn maður, sæi hann litla ástæðu til þess að breyta lögunum. En þess er að gæta, að ekki er farið að framkvæma lögin enn, og þau fela í sér altaf freistingu fyrir verkfræðinginn, hver sem hann er, til þess að vera hlutdrægur í úttekt veganna. Það geta ávalt fundist menn, sem eru búnir til að beita hlutdrægni í þessu efni; það þarf ekki að stafa af því, að »heimur versnandi fer«, því mennirnir eru ekki eins góðir og þeir ættu að vera.

Háttv. framsm. (B. Sv.) kom með þá athugasemd, að það væri goðgá næst að breyta nýjum lögum. Engin verk eru alfullkominn og heldur ekki lögin, og strax þegar manninum verður það fyllilega ljóst, að gallar eru á þeim, þá er það skylda löggjafarvaldsins að bæta úr þeim göllum jafnskjótt og verða má. Það gæti máske verið rétt og full þörf að taka vegalögin til endurskoðunar frá rótum. Við flutnm. vildum þó ekki gera það, en tókum að eins það til athugunar, sem okkur þótti mest um vert og bersýnilega var ranglátt og ósanngjarnt.

Ef frumv. þetta er felt nú, þá verður málið líklega tekið bráðlega upp aftur og þá farið vafalaust lengra hvað breyt. snertir. Eg fyrir mitt leyti get lýst því yfir, sem minni skoðun, að eg álít sjálfsagt að breyta lögunum á þennan veg, að sýslurnar greiði að eins að hálfu leyti eða að helmingi viðhaldskostnað þeirra vega, er nú að lögum hvílir á héruðunum, en að landssjóður kosti viðhaldið að öðru leyti.

Eg þykist hafa gert grein fyrir skoðun minni og svarað þeim athugasemdum, sem fram hafa komið gegn frv. Eg vonast eftir, að ástæður mínar hafi verið svo ljósar, og að það mæli svo mikil sanngirni með frumv., að háttv. þingdeild finni ástæðu til þess að taka þær til greina og samþ. frumv. eða að minsta kosti leyfi því að ganga til 2. umr.