14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

71. mál, eiðar og drengskaparorð

Jón Magnússon:

Eg verð að játa, að eg hefi eigi haft tíma til að athuga frumv. þetta til hlítar, en vil samt leyfa mér að geta þess, að mér virðast till. nefndarinnar miða að því að spilla mjög frá því sem áður var. Það mun óhætt að segja, að sjaldnast þarf að staðfesta vitnisburð með eiði, enda er það heppilegra, því það mundi mjög rýra tign eiðsins. En mjög er hætt við, ef eiður væri unninn á undan vætti, að það yrði að fastri reglu. Það er og eigi til neins að vísa til brezks réttarfars, og eigi er unt að taka upp sem endurbætur atriði úr því, nema með gagnbreytingum á voru eigin réttarfari. Er ætíð varhugavert að breyta einu atriði en hugsa eigi um heildina. Efast eg um, að frumv. þetta sé til bóta, en er hræddur um, að flestir, sem hafa ættu eftir formálann í þriðju grein, rugluðust í honum. Slíkir formálar þurfa að vera sem styztir. Jafnvel formálinn í 2. gr. er oflangur. Eg fullvissa hina háttv. þm. um, að vitni skilja eigi hin fornu orðatiltæki, sem eru í frumv. þessu. Myndi heppilegra að nota nútíðarmál.

Eg er þakklátur háttv. flutnm. þessa frumv. (J. Þ.), fyrir hinn góða vilja, en álít, að vanir dómarar þurfi að fjalla um þetta mál, en óheppilegt að ætla þessu þingi að fást við það. Þingið hefir tæplega tíma til slíks, og eigi er vert að breyta nema víst sé, að séu verulegar umbætur frá því sem áður var, ekki sízt, ef um mál er að ræða, sem snertir tilfinning manna jafnmikið og þetta.