16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

105. mál, hvalveiðar

Jón Jónsson (S.-Múl):

Eg vil leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir út af ræðu hæstv. ráðherra (H. H.) Hann sagði, að ekki væri hætt við, að hvalirnir eyddust svo, að þeir upprættust, því að þeir kæmu svo víða að, færu svo víða og væru ekki meira á einum stað en öðrum. Til þess að þeir yrðu upprættir, þyrftu þeir að vera staðbundnir, en það væri kunnugra en frá þyrfti að segja, að þeir sveimuðu um höfin frá landi til lands. En ef þetta er rétt hjá hæstv. ráðherra, vil eg leyfa mér að spyrja: Hvernig stendur á því, að Norðmenn hafa flutt hvalveiðastöðvar sínar frá Vestfjörðum og til Austfjarða? Hvað annað en það, að það hefir verið orðið lítið um hvali vestur frá, að hvalagengdin þar hefir verið farin að minka og það að mun, er þeir lögðu á sig þann afarmikla kostnað, að flytja hvalveiðastöðvar sínar? Eg fæ ekki betur séð, en að einmitt þetta bendi á, að hvalirnir sé töluvert staðbundnir eins og flestar aðrar skepnur, að þeir leiti jafnaðarlega á sömu stöðvar, og eg hefi, satt að segja, aldrei heyrt þá skoðun rengda fyr. Eg lít því svo á, að hér sé verið að taka burtu það, sem Ísland á öðrum fremur, eins og eg sagði áðan, og að það sé skylda vor, að varðveita þessa eign eftir föngum, til þess að framtakssamir niðjar vorir geti hagnýtt sér hana, þegar Íslendingum vex fiskur um hrygg.