08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

110. mál, þingtíðindaprentun

Jón Ólafsson:

Það er leiðinlegt og á illa við, að hér skuli hafa verið talað svo mikið um atvinnu og hag einstaklinga. Alt það tal á að vera þessu almenna þjóðarmáli alveg óviðkomandi. Alt slíkt tal liggur svo lágt, að það á að liggja fyrir neðan það sem vér sem fulltrúar þjóðarinnar lítum á. Af þessari orsök vildi eg óska, að áskorun prentaranna, sem hér hefir borist oss, hefði aldrei fram komið. Eg er samdóma háttv. þm. Barð. (B. J.) um það, að beri ekki nauðsyn til þjóðarinnar vegna að prenta umræðupart þingtíðindanna, þá eigum vér ekki að fara að vinna óþarft verk til að veifa fáeinum einstaklingum atvinnu. Sú stétt er svo virðuleg og sjálffær, að hún á hvorki að þurfa slíks né hugsa til þess.

En úr því að vakið hefir verið máls á þessu einstaklinga-máli á annað borð, þá skal eg leyfa mér að leiðrétta dálítið, sem háttv. flutnm. (B. J.) sagði. Hann sagðist hafa heyrt, að forsetarnir væru hluthafar í prentsmiðjunni. — Þessu bar háttv. þm. Vestm. (J. M.) á móti og sagði jafnframt, að enginn þm. mundi eiga hlut í henni. Hvorttveggja vil eg leiðrétta. Hvorki núverandi né fyrverandi forsetar eiga né hafa nokkru sinni átt nokkurn minsta hlut í »Gutenberg«. Eg á hlut í prentsmiðjunni og mun vera einn þingmanna hluthafi í henni. (Nei, það er satt, 2. þm. Rvk. (M. Bl.) er líka hluthafi); öll hlutabréfin eru stýluð á nafn og verða ekki seld utanfélagsmönnum án samþykkis stjórnar félagsins, svo að um þetta er mér fullkunnugt. En jafnframt þó að eg sé eigandi í prentsmiðjunni, þá hefði eg helzt kosið, að þessu atvinnuspursmáli hefði aldrei hreyft verið, því að það er málinu gersamlega óviðkomandi.

Eg er samþykkur háttv. flutnm. um það, að óviðurkvæmilegt sé að laumast til að prenta þingtíðindin í kyrþey, án þess að öðrum prentsmiðjum sé gefinn kostur á að bjóða í prentunina. En því kynlegra er, ef satt er, að hv. þm. Barð. (B. J.) skuli sjálfur hafa laumast til í kyrþey að taka undir sig prentun skjalapartsins. Annars vil eg ekki fara nánara út í þetta atvinnuspursmál, því að það er, eins og eg tók fram áðan, málinu alveg óviðkomandi.

Háttv. flutnm. sagði, að undarlegt væri að vilja leita vilja þjóðarinnar í smámálum; taldi það við eiga að eins í stórmálum. Eg er honum samþ. um það, að leita beri vilja þjóðarinnar í stórmálum. En mönnum getur missýnst um, hvað er stórmál eða ekki, og er skýrt dæmi þess umræðurnar í þessu máli á dögunum. Í mínum augum er þetta stórmál. Hv. þm. Barð, (B. J.) veit eins vel og eg, hve vel það mæltist fyrir, er skipað var fyrir um það, að umræður á ráðgefandi alþingi fyrrum skyldu fram fara fyrir luktum dyrum. En er hér ekki farið fram á það sama sem að halda þingið fyrir luktum dyrum, eða þó annað verra — að halda það í pukri? Hverjir af landsmönnum heyra það, sem hér fer fram? Pallarnir taka um 80 manns, en þangað komast ekki aðrir en þeir, sem duglegir eru að troðast inn, og ef litið er upp þangað, má ganga úr skugga um, að flestir, sem þar eru daglega eru unglingar, en kjósendur mjög fáir. — Raunar hafa nokkrir menn aðgöngu að hliðarherbergjunum, en flest er það kvenfólk og unglingar. Er þetta kjósendum landsins næg vitneskja um það, sem fram fer á þingfundum? Þó að skjalaparturinn og atkv.gr. sé prentað, þá er það með öllu ónógt. Nafnakall er ekki nema við stöku atkv.gr., og þó að nafnakall væri í öllum, þá væri það alsendis ónógt, því að óvíst er, hver ástæða dregur hvern til þess að vera með eða móti, hver getur haft sína ástæðu. Eg verð að telja þetta hið mesta haft og óviðurkvæmilegt í alla staði. Kjósendur eiga heimtingu á að vita, hverja skoðun vér höfum látið í ljósi.

Það hefir verið sagt, að þingtíðindin væru lítið lesin. Eg veit, að þau eru víða talsvert mikið lesin. En þó að þau læsu ekki nema 2—3 menn í hverjum hreppi, þá er það þó mikilsvert, því að þeir geta þá frætt hina. Eins og ástandið er nú í landinu, þá eru alþingistíðindin hin eina fróðleiksuppspretta fyrir alþýðuna til að fræðast um pólitísk efni. Menn kunna að segja, að alþýða manna geti haldið blöð til þess að fræðast um þetta efni. En menn halda alment ekki blöð svo mörg, að nægi til að sýna álit frá fleiri hliðum, menn eru alment ekki svo efnum búnir, að menn geti það. Og það er verra en ekki að lesa blöð frá einni hlið. Það er vottur um ljósfælni að þora ekki að láta sjá orð sín, láta kjósendur ekki fá að vita, hverjar efndir — eða vanefndir — hafi orðið á heitum þingmanna við kjósendur sína.

Það hefir verið sagt, að þetta mál væri ekki flokksmál; eg vona, að svo sé ekki, þó að atkv.gr. við 1, umr. benti helzt til þess, og mun þó hafa nokkuð gengið þar til metnaður háttv. meiri hluta í deildinni, að málið félli ekki við 1. umr. Eg hygg, að öllum hv. þm. sé ljóst, hverja ábyrgð þeir hafa í þessu máli. Það er ekki víst nema þeir, sem sakna alþ.tíð., leggi annan tilgang í það að hætt er að gefa þau út, ef svo fer, en þeir þm., sem fylgja því fram.

Það hefir verið sagt, að í nefndarálitunum mætti oftast sjá, hversu umr. hafi fallið. Ekki er þó hægt að sjá það í þessu máli. ef engin nefnd verður í það sett. Auk þess eru í nefndarálitunum oftast að eins almennar athugasemdir um málin; stundum eru þau stutt, að eins nokkrar línur, og eru þá oft nánari ástæður geymdar til framsögunnar og umræðnanna. En í þessu er þekkingin á málinu fólgin, að heyra ástæður með og móti.

Það hefir verið sagt, að í sumum smáríkjum væru þingræður ekki prentaðar. Þetta er satt, mér er kunnugt um það, því að eg hefi sjálfur verið í slíkum smáríkjum. En þar eru stór blöð og þau flytja umræður eða inntak þeirra. Þar á er sá munur, að einstakir menn annast þar prentunina, en hér gerir landssjóður það. En hér eru ekki svo stór blöð til. Tvö stærstu blöðin, sem flutt hafa umræðu-ágrip fáeinna af mælendum í einu máli til þessa, og gert það hlutdrægnislaust, að því er mér hefir virzt, hafa ekki getað tekið nema nokkuð af ræðunum, og margra ástæðna og merkisatriða hefir þar verið vant. Og þess verður ekki að vænta um fyrirsjáanlegan tíma, að blöðum vorum vaxi svo fiskur um hrygg, að þau geti meira. Þess vegna er eina ráðið til að gera almenningi hér heyrinkunnugt, hvað á þinginu gerist, að prenta þingtíðindin sem áður. Og þó að ekki sé loku skotið fyrir það, að forsetar megi stundum láta prenta þingræður, ef þeim lízt svo, þá berst eg á móti því, að þjóðin sé svift þeirri einu tryggingu, sem hún hefir gagnvart þingmönnum. því að þetta mundi leiða til þess, að loka þinginu og heyja það í pukri.