08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

110. mál, þingtíðindaprentun

Forseti (H. P.):

Út af fyrirspurn h. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) um, hvort prentsmiðjan Gutenberg hafi fengið vilyrði fyrir að fá að prenta umræðupartinn, skal eg geta þess, að eg fyrir mitt leyti hefi gengið út frá því, — og skilist á forseta Ed., að hann væri því einnig hlyntur,— að úr því að Ísafoldarprentsmiðja fékk skjalapartinn til prentunar þá væri sanngjarnt, að skifta þessu þannig á milli, að Gutenbergsprentsmiðja fengi síðar umræðupartinn að öðru jöfnu, en vitanlega hefir ekkert verið ákveðið um þetta milli okkar forsetanna enn sem komið er. Eg fyrir mitt leyti hefi látið það í ljósi bæði við forseta Ed. og aðra út í frá, að mér fyndist sanngjarnt, að með jöfnum kjörum gengi Gutenberg fyrir með prentun á umræðupartinum. Frekara get eg ekki um þetta sagt, að svo komnu.