23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Jón Ólafsson:

Eg er alveg á gagnstæðri skoðun við háttv. meiri hluta þessarar nefndar, Það hefir verið talað hér með mikilli andagift um þetta glæsilega tilboð. En þó er það nú í almæli, að félagið sé á hausnum og hafi að eins fengið greiðslufrest á skuldum sínum á meðan verið væri til þrautar að reyna að handsama þetta hálmstrá, að landssjóður hlypi undir bagga og borgaði allar skuldirnar, 6— 700 þús. krónur. Það er einkennilegt, að félagið vill ekki sjálft þiggja þann álitlega gróða, sem það telur landssjóði vísan. Það vill endilega gefa landinu meginhluta hans. Mér finst það helzt benda á það, að félagið hafi ekki neina tröllatrú á gróðareikningi sínum.

Ekki eru nein rök sýnd fyrir á hverju það er bygt, að hvert skip gefi í hreinan ágóða 25,000 kr. og hvert aukaskip 15,000. Mætti alveg eins meta ágóðann 100,000. Það væri þó enn glæsilegra, og þolinmóður er pappírinn. Það má skrifa allar tölur á hann röksemdalaust alveg út í bláinn.

Fyrst þegar tilboð þetta kom fram, mátti ekki við því hagga minstu vitund. Annað hvort ganga að eða frá.

En nú hefir félagið alt í einu breytt tilboðinu upp úr þurru; hefir líklegast þótt samgöngurnar alt of góðar, ef við fengjum 3 strandferðaskip í staðinn fyrir 2.

Þá eru kaupin; fyrst átti að kaupa skipin samkv. tilboðinu, en nú á að kaupa þau eftir mati. Ef við værum neyddir til að kaupa skip, mundum við auðvitað gera það, en varla þó eftir mati, heldur eftir framboði á opnum markaði. Og við mundum líka fremur vilja haga þeim kaupum eftir því hvernig árferði væri, hvort nokkur von væri um arð eða ekki.

En þessir áköfu fylgismenn þessa máls hugsa ekki neitt um það. Þeir vilja fá skipin undir eins, þótt kunnugt sé, að um þessar mundir borga skip sig mjög illa víðast hvar um heiminn; langvíðast tjón nú að skipaeign.

í Bretlandi í vetur er ástandið í þessu tilliti þannig, að mönnum dettur ekki í hug að verða skaðlausir af skipaútgerð sinni, heldur einungis að reyna að skaðast sem minst. Þar tóku skipaeigendur sig saman í vetur um að »leggja upp« helming að lestatölu allra skipa sinna. Og á Clyde-fljótinu hefir legið til þessa (og liggur líklega enn) svo mikið af slíkum skipum, sem ekki eru í förum, að til vandræða horfir.

Nú ber þess og vel að gæta, að skip eru mjög að falla í verði. Það er eðlileg afleiðing af þessu.

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) gaf nýlega þær upplýsingar á bæjarstjórnarfundi, að skipajárn hefði fallið um 50 af hundraði. Ætli sé þá ekki ástæða til að skipin sjálf falli. Skip, sem gengur nú hér við land, var metið í Noregi af eiðsvörnum mönnum á 140,000 kr., en viku síðar selt á 40,000. Þetta er ekki lítill munur og svona mun vera víðar. Eimskip, sem smíðað var fyrir að eins 18 mánuðum í Bretlandi og kostaði þá 150—160,000 kr., er nú boðið hér og annars staðar til kaups fyrir 72,000 kr.

Ef framsögum. vill, getur hann fengið skírteini fyrir því, að þetta sé satt. En hvað sýnir þetta? Það sýnir, að skipin eru að hríðfalla í verði og að virðingarverð skipanna er miklu hærra en gangverð þeirra, ?: það verð sem þau ganga kaupum og sölum manna á milli, sem er þeirra sanna, virkilega verð. Orsökin er sú, að matsmenn miða jafnan við byggingarkostnað skipanna, hvað þau kostuðu ný, og draga svo frá fyrir árlegri fyrningu. En þeir taka ekki tillit til þess, þó að byggingarkostnaður og efni nýrra skipa sé lækkað svo og svo mikið, Það er sagt, að Sterling sé bezta skip Thorefélagsins; ef það er satt, þá eru hin engin afbrögð. Hvers vegna skyldu fyrri eigendur Sterlings þá hafa selt það? Það var áður eign norsks félags, sem lét það ganga milli Noregs og Skotlands og það sama félag rekur siglingar enn í dag. Hví skyldi félag, sem rekur siglingar, vera að selja skip, sem það um tíma hefir notað til siglinga? Af því það hefir ekki verið als kostar ánægt með skipið. Það er líka kunnugt, að gufuvélar yfir 20 ára gamlar, eins og Sterlings, eru miklu kolafrekari heldur en þær vélar, sem nú eru smíðaðar. Þeim iðnaði hefir fleygt það fram síðustu 20 ár. Því þykir þeim útlendu eigendum, sem efni hafa á að eiga það sem bezt er, ótækt að nota svo gamlar vélar, þegar kostur er á að fá nýjar gerðir margfalt koladrýgri. Háttv. framsm. áleit það ekki neina stórræðisupphæð þessa hálfu miljón króna fyrir landssjóð. Það er nú svo; það hefir ekki verið talið svo hingað til. Landssjóð munar um minna. Það er engin minsta trygging fyrir því, að landssjóður tapi ekki þessari upphæð, nema síður sé og miklu meiru, því að þegar landssjóður eitt sinn hefir lagt út í þetta fyrirtæki, má ganga að því vísu, að hann neyðist til að leggja því einatt fé af mörkum eftir þörfum, enda þótt hann stórtapi á því. Frsm. benti á, að altaf væri þó leið til að sporna við að landssjóður tapaði, því að löggjafarvaldið væri almáttugt. Það þyrfti ekki annað en taka í taumana. En löggjafarvaldið er ekki svo almáttugt, að það geti látið hlut eða fyrirtæki bera sig sem eftir eðli sínu ekki ber sig. En það getur annað. Það getur lagt á tolla og skatta á alla aðflutninga og skipaferðir til landsins og með því styrkt landsfélagið. Það eru tveir vegir, sem löggjafarvaldið getur farið í þessu efni. Annar er sá, að leggja gjald á keppinauta sína og gera þeim þannig óhægra að etja neinni samkepni. Hin leiðin er sú, að leggja gjöld á öll skip sem til landsins koma, allan aðflutning eins landssjóðsfélagið sem önnur félög, er reka atvinnu við siglingar, en að þessu félagi yrði svo síðar útborgaður styrkur, sem að minsta kosti næmi þeirri upphæð, sem það þannig hefði borgað út. Þetta er nákvæmlega það sama og áður, aðferðin að eins óbeinni. Peningarnir hafa að eins vasaskifti. Þetta er þá leiðin, sem fara á, til að bæta landssjóði það tap, sem hann kann að verða fyrir við að taka að sér Thorefélagið. Þarna fundu þeir ráðið? Það á að leggja á ný gjöld og með því íþyngja vöruflutningi til landsins og verzlun þess við aðrar þjóðir. Og til hvers er gripið til þessara örþrifaráða? Til þess að láta landssjóð eignast gömlu skipsskrokka Thorefélagsins og gera því félagi fært að losna úr þeim skuldum, sem það nú er í. Hvort þetta er af ást til landsins eða ást til Thorefélagsins og umhyggjusemi fyrir því félagi, skal eg ekki fjölyrða um, en ef hvatamenn þessa frumvarps samþykkja það af einskærri ættjarðarást, þá er sú ættjarðarást þeirra nokkuð einkennileg og skrítin.

Háttv. flutnm. þessa máls er líka að berjast fyrir að koma á farmgjaldi á allar vörur. Þar gægist fyrirfram fram gjaldið — lestagjaldið — til að bæta landssjóði það tjón, sem gengið er að vísu, að hann hljóti að bíða af Thore»spekúlatióninni«. Það á að byrja með 25 au. af 100 pd. eða teningsfeti, en ef útgerðin gengur mjög illa og meira þarf við, þá má altaf hækka. (Björn Kristjánsson: Það mál liggur ekki fyrir hér). Það liggur einmitt fyrir, því að það er fætt í sömu hríðunum. Það hefir verið talað um, að farið gæti svo, að þau félög, sem nú keppa um samgöngur við Ísland, slægju sér saman og yrðu einvöld yfir samgöngunum, kæmu á nokkurs konar einokun. Ójæja. Flest á nú að nota til að hræða menn til fylgis við Thore. Eg hygg nú fyrir mitt leyti, að ekki sé sennilegt, að slíkt verði nokkurn tíma. En þótt svo afarólíklega færi, mætti með sanni segja, að þá fyrst væri nokkur þörf og ástæða fyrir landssjóð til að fara að hugsa um skipaútgerð.

Það var hér áðan talað um, að ýmsir menn hér væru háðir útlenda valdinu. En þegar eg lít frumv. þetta og les þær einstöku greinar þess og sé það fylgi, sem smátt og smátt er að vekjast upp við það hér í deildinni, þá fæ eg eigi þeirri hugsun varist, að margir hér séu háðir útlendu valdi. útlendu fé. Thorefélagið er útlent, þótt Túlinius forstöðumaður þess sé sjálfur hálfur Íslendingur, íslenzkur í móðurætt. Féð er þó danskt.

Þá hafa menn sagt, að þetta mál væri eitthvert stærsta sjálfstæðimál Íslands. Þeir hafa þá verið orðnir þreyttir á að mála þann mikla fjárhagslega hagnað, sem landssjóður á að hafa af fyrirtækinu, og farið að spila á tilfinningar manna. Skárra er það nú líka sjálfstæðið, að láta landssjóð borga bankaskuldir fyrir danskt eimskipafélag! Ef alt hjal meiri hlutans, »sjálfstæðismanna« (með gásarlöppum) um að þeir berjist fyrir að Ísland sé eða verði sjálfstætt og fullveðja ríki, er fólgið í þessu, þá gef eg ekki mikið fyrir þeirra sjálfstæðistal. Eg veit annars ekki til, að nokkurt ríki í heiminum eigi sjálft þau skip, sem eru í förum landa milli til verzlunar og flutninga. Eftir því

ætti ekkert ríki í heiminum að vera sjálfstætt, nema aumingja Ísland, ef það skyldi taka slíku happaboði! Vesalings Bandaríkin! Aumingja Bretland! Ekki eru þau svo sjálfstæð, eins og við verðum, þegar við erum búnir að negla okkur á Thore-skútunum!!!

Það er líka mikið talað um, að félagið hafi stórgrætt á ferðum sínum. En mér er spurn: Hvar er sá gróði? Ekki er hann í þeim miklu skuldum félagsins, heldur ekki í varasjóði, því að hann er ekki svo mikill. Hvar er hann þá? Fylgismenn Thore hér á þingi eiga víst nokkuð bágt með að benda á, hvar hann sé niðurkominn. Félagið hefði átt að græða og það því fremur, sem það hefir verið stórheppið með strönd. »Kong Inge« strandaði og félagið fékk útborgað vátryggingarféð, síðan keypti það skipið fyrir lítið sem ekkert, fékk komið því til útlanda og aðgert og græddi á þeim kaupum 30 þús. kr. Það er sagt, að félagið á síðasta reikningsári hafi grætt 30 þús., með öðrum orðum strandgróðann, hvorki meira né minna. Hefði þetta strand ekki viljað til, þá hefði félagið ekkert grætt. Ef nú landssjóður fer að gera út þá getur flutnm. þessa máls (B. K.) og aðrir fylgismenn þess ekki reiknað með annari eins guðsblessan sem þessum strandgróða. Landssjóður getur ekki farið að »spekúlera« í ströndum.

Loks vil eg minnast á þessa makalausu tryggingu, forréttindahlutina. Það virðist svo, sem flutnm. og meiri hluti nefndarmanna hafi ekki skilið, hvað forréttindahlutir (preference-aktiur) eru. Þetta þýðir ekkert annað en það, að landssjóður á að fá 4% af sínu hlutafé, áður en hinir hluthafarnir fá nokkuð. Ef ágóðinn yrði 25,000 kr. fengi landssjóður 20000, hinir 5000; ef ágóðinn yrði 10,000 fengi landssjóður 2%, hinir ekkert og ef ágóðinn yrði enginn, hvar eru þá forréttindahlutirnir? Landssjóður fengi ekki einn eyri. Þessar gyllingar með forréttindahlutina eru ekki annað en ryk í augu manna. Þeir geta ekki trygt landssjóð gegn tapi. En að Thorefél. býður þetta er ofur skiljanlegt. Eftir að Thorefélagið er búið að selja skip sín, sem ekki eru meira en 300 þús. kr. virði, landssjóðsfélaginu fyrir 800 þús. kr., þá stendur það sig ofur vel við að láta landssjóð fá forréttindahluti, því að það sjálft er búið að fá meira en verði skipanna nemur fyrir fram. Eg fæ því eigi betur séð, en að það sé mesta flan að taka þessu tilboði. Það knýr engin nauðsyn landssjóð til að ráðast í annað eins fjárhættufyrirtæki.