26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það var ýmislegt í ræðu háttv. 2. þingm. Húnv. (B. S.), sem bar vott um mikinn skort á glögri hugsun og skilningi. Hann taldi það mótsögn að segja, að breyt.till. nefndarinnar (meiri hlutans) væru alveg nýtt frumv., og halda því þó hins vegar fram, að breyt.till. væru að eins form-breytingar, en að efni alveg samhljóða því upphaflega frv. Þessi misskilningur hins háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) kemur til af því, að hann kann ekki að gera mun á efni og formi. Honum skilst það ekki, að breyt.till. getur gert frumv. að alveg nýju frumv. að forminu til, þó að efnið sé í rauninni alt hið sama. Annars er ekki vert, að eltast meir við þá hugsunarvillu. Sami háttv. þm. Húnv. (B. S.) sagði, að lög þessi væru að eins heimildarlög fyrir stjórn hins væntanlega nýja félags, til að kaupa af Thore-félaginu skipin. Þetta getur ekki verið rétt. Slíkt getur enginn sagt, nema sá sem les frumv. eins og skrattinn biblíuna. Í frumv. stendur, að landsstjórninni veitist heimild þessi. Landsstjórnin þýðir hér auðvitað ráðherra, en ekki stjórn félagsins, enda myndast sú stjórn ekki fyr en sjálft félagið er myndað, og það verður þá ekki fyr en Thore-félagið er gengið inn með sína hluti. Þetta er svo auðsætt, að um það ætti ekki að þurfa að deila. Alþingi getur auðvitað kosið þessa 3 menn fyrir fram, en í stjórn félagsins geta þeir ekki verið fyr en félagið (landssjóðsfélagið) er myndað. Eg hefi þegar áður sýnt fram á, að félag þetta á ekkert til skuldlaust, — Það sést af þess eigin tilboði, og enn fremur játningu umboðsmanns félagsins fyrir meiri hluta nefndarinnar, eftir því sem frá er skýrt í sjálfu nefndarálitinu. Það á ekkert til nema um 650 þús. kr. skuldir, sem á því hvíla, og skip, sem væntanlega eru ekki helmingsvirði skuldanna, og að ætlast til, að Thore-félagið hafi forkaupsrétt að hlutum upp á 300 þús. kr. í því fyrirhugaða landssjóðsfélagi, er ekkert annað en það, að ætlast til að leyfa því að láta þessa skipskrokka upp í hlutaféð. Ráðherra verður að semja við Thore-félagið, að það gerist hluthafi fyrir 300 þús. kr. gegn því, að landssjóðsfélagið kaupi skipin fyrir þá upphæð, með öðrum orðum taki gömlu skipin upp í hlutaféð.

Eg sagði áðan, að félagið ætti ekkert til, eg hef sýnt fram á það, en eg get gert það aftur.

Í nefndarálitinu er svo sagt, að Thore-félagið skuldi 600—700 þús. kr. Ef maður tekur þá tölu, sem er mitt á milli 600,000 og 700,000, þá er það 650 þús. kr. Skuldir félagsins auk þessa í obligationum eru 150 þús. kr. Ef maður nú dregur þá upphæð frá, þá eru eftir 500 þús. kr. í skyndilánum eða víxillánum, lánum sem sérstaklega eru erfið félaginu og þröngva mjög fjárhag þess. En þetta er alveg sama upphæðin, sem landssjóður á að leggja út. Tilgangurinn er það, að landssjóður á að bjarga félaginu úr þessari skuldakreppu! Mér er nú spurn: Þeir menn, sem sækja það svo fast, að landssjóður taki félag þetta upp á sína arma og losi það úr skuldasúpunni, koma þeir ekki einmitt fram, sem ákafir málaflutningsmenn Thorefélagsins? Hvað skyldi það vera annað? Að því er varasjóð félagsins snertir, þá er hann einar 60 þús. kr. Það er auðsætt, að Thore-skipin hafa orðið fyrir meiri fyrningu, en því nemur, með öðrum orðum félagið hefir ekki haldið skipum sínum við. Þótt hluthafarnir hafi fengið útborgað um 4½% í arð af hlutum sínum, þá hefir sú upphæð hlotið að hafa verið tekin af stofnfénu, meðan það hrökk, en síðan af lánsfé. Slíkt er altíð aðferð hlutafélaga, sem eru á heljarþröm, að greiða hluthöfum háan árs-arð. Mig minnir »Grundejerbanken« sendi út ljómandi ársreikning og færi fram á að gefa hluthöfum 7% (eða meira) í árs-arð; en hálfum mánuði síðar var bankinn gjaldþrota!

Svo eg snúi mér aftur að sjálfu frv. eða breyt.till., þá er það auðvitað meiningin, að Thore-félagið láti skip sín upp í hluti þá, sem því er ætlað að kaupa í þessu nýja landssjóðsfélagi. Já, skipin á landssjóður að taka að sér og þótt sumir segi, að þetta sé að eins heimildarlög fyrir stjórnina að taka eða kaupa skipin, þá er þess að gæta, að ráðherrann — með allri virðingu fyrir honum — er ekki óviðriðinn maður í þessu máli, þar sem sonur hans er umboðsmaður félagsins, og er altalað, að hann eigi að fá 20,000 eða 25,000 kr. fyrir vikið, að koma þessari sölu á.

Ætli það verði svo fjarri sanni, að ætla, að það verði að líkindum gott samkomulag milli feðganna, þegar þeir halda »familíu«-ráð, til að fullgera kaupin?