26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

111. mál, Landssjóðshluttaka í Thorefélaginu

Skúli Thoroddsen:

Eg heyri, að þingmenn halda hér hverja ræðuna eftir aðra um eimskipaútgerð og siglingar. Eg hef reyndar ekki — fremur en aðrir þingmenn — neina þekkingu í þeim efnum, en þar sem eg heyri, að allir tala um þessi efni, sem spekingar, er hafi fulla þekkingu á þeim, þá ætla eg að hegða mér svipað.

Það, sem fyrir mér er aðal-atriði í þessu máli, það er það, að mál þetta er alveg óundirbúið af stjórnarinnar hálfu, og eigi hafa heldur heyrst neinar óskir því viðvíkjandi frá þjóðinni. Ef þessu máli væri ráðið til lykta á þessu þingi, þá væri það því gert að þjóðinni fornspurðri. — En þegar um einhver stórmál ræðir, eru þingmenn þó vanir að vilja vita, hvað vilja kjósanda sinna líður; en í þessu máli hefir þess enginn kostur gefist.

En þegar litið er á fjárhagshlið máls þessa, verður því ekki neitað, að málið er stórmál, miðað við efnahag þjóðarinnar og fjárhagsástandið, eins og það nú er, og hvernig sem á mál þetta er litið, þá er það ómótmælanlegt, að það er mesta áhættumál, þar sem landssjóður á ekki að eins á hættu að tapa allri apphæðinni (½ miljón), heldur jafnvel að verða fyrir enn stærri skellum, því að enginn þarf að ganga að því gruflandi, að Sameinaða félagið mun ekki hætta ferðum sínum til Íslands, heldur þvert á móti halda uppi samkepni við eimskipaútgerð þá, er landssjóður á hlut í, og getur sú samkepni orðið landssjóði all-skæð og hættuleg, ekki sízt þar sem Sameinaða gufuskipafélagið mun þá að öllum líkindum velja úr þær hafnirnar, er bezt borgar sig að fara til, eins og t. d. Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri og Seyðisfjörð. Hina staðina, sem vöruflutningar eru litlir til, svo að fargjöld og flutningseyrir eigi borga kostnaðinn við för skipa þangað, nema þá endrum og eins, mun það ekki sinna um, og þær hafnir og viðkomustaði verður þá eimskipa-útgerð landssjóðs að annast, sem og ferðir strandbátanna, sem vér vitum, að ekki bera sig.

Þegar alt þetta er athugað, þá er það auðsætt, að »Sameinaða gufuskipafélagið« stendur mun betur að vígi í samkepninni, þar sem það hefir þá als engum skyldum að gegna við landsmenn, en getur eingöngu tekið tillit til hagsmuna sinna. Landssjóðsfélagið verður á hinn bóginn fyrst af öllu að líta á samgönguþarfir landsmanna og reyna að fullnægja þeim eftir megni.

Vér vitum og eigi fyrir, hverjar kröfur manna í hinum ýmsu kjördæmum landsins kunna að verða, að því er millilanda- og strandferðir snertir, þegar svo er komið, að þjóðin hefir sjálf full ráð yfir samgöngutækjunum. Hætt er við, að ýmsir verði þá enn heimtufrekari en verið hefir og vilji að skipin fari inn á hinar og þessar hafnir, sem strandferðaskipin hafa að undanförnu ekki verið látin koma við á. Áður en vér ráðum máli þessu til lykta, þurfum vér að gera oss þetta ljóst.

Mér virðist rétt, að Nd. láti sér að þessu sinni nægja, að það, að mál þetta kom fram, hefir þegar haft þann góða árangur, að Sameinaða gufuskipafélagið hefir gert að mun betra tilboð um millilandaferðir og strandferðir, en það áður gaf kost á, og meðal annars gefið kost á skipi með kælirúmi nokkrar ferðir, er þess er mest þörf að geta komið smjöri, kjöti og fiski ísvörðu á erlendan markað. Það ættum vér að vera ánægðir með í þetta sinn, og láta ransaka málið, til undirbúnings fyrir næsta þing.

Að segja, að úr þekkingarskorti þingsins og ónógum undirbúningi málsins, sé nægilega bætt, ef stjórnin og 3 manna nefnd sé falið að ráða málinu til lykta, það er að minni hyggju ekki rétt. Ráðherra hefir enga sérþekkingu, að því er til eimskipa-útgerðar kemur o. fl., er hér að lýtur, og hversu heppilega þinginu tekst að velja þessa 3 menn, það er alveg óvíst, Að líkindum yrðu það einhverjir þm., og veit maður þá hverju þeir mundu auka við þekkingu ráðherra. Það er því heppilegast, að málinu sé ekki ráðið til lykta að þessu sinni, en að stjórninni sé falið að ransaka og láta undirbúa það undir næsta þing, útvegi skýrslur um kostnað við skipa-útgerðir, verð eimskipa o. fl., o. fl., og grenslist enn fremur eftir óskum þjóðarinnar í þessu máli.

Það hefir verið gert mikið úr því, að heppilegt væri, að verzlun landsmanna yrði beint meira til annara landa en Danmerkur, og munu fáir vera fúsari á að viðurkenna það en eg, en slíkt gerist eigi í einni svipan, og tjáir ekki að segja: »Nú siglum við til Hamborgar, Englands« o. s. frv.

Sama er að segja um skip með kælirúmi. Þörfin helzt að sumrinu til smjörflutninga, og á haustin til að flytja út kjöt; en að bændur fari að ala fé til útflutnings á vetrum, á að líkindum enn nokkuð í land, og gerist slík breyting ekki á einu augnabliki; og að því er snertir kælirúm fyrir útflutning á fiski, þá er að nokkru bætt úr þeirri þörf, síðan Íslendingar eignuðust botnvörpuveiðaskip, er öðru hvoru skreppa með nýjan fisk til Englands.

Það er því mín skoðun á þessu máli, að ekki sé rétt að ana út í það, meðan þingið hefir eigi átt betri kost á að afla sér þekkingar á því. Þörfin ekki svo mikil, að ekki megi bíða næsta þings.

Eg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en leyfa mér að bera fram rökstudda dagskrá, er eg vona, að háttv. samdeildarmenn mínir geti aðhylst og er hún svo hljóðandi:

»Í trausti til þess, að landsstjórnin afli sér glöggra skýrslna þekkingarfróðra manna um alt, er að eimskipaútgerð lýtur, sem og um óskir landsmanna, að því er millilanda- og strandferðir snertir, og leggi fyrir næsta alþingi, ásamt tillögum sínum um málið, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskránni«.