23.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndal):

Herra forseti! Eg skal með örfáum orðum svara háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Eg ímynda mér, að allir séu samdóma um það, að meining bæði nefndarinnar og flutningsmanna breyt,till. á þskj. 555 sé sú, að tryggja landssjóði sem bezt yfirráðin yfir þessari stofnun, Íslandsbanka. Eg efast ekki um, að þetta vilja allir. Um hitt greinir oss nokkuð á, hvernig vér eigum að tryggja það, að þessum tilgangi verði náð. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gat þess, að það væri ekki víst, að þeir menn, sem valdið er falið eftir frumv., væru alténd bankafróðir menn og þar með væri þeim þó ætlað að sitja óuppsegjanlega. Um þetta má mikið segja, en eg skal þó reyna að vera stuttorður.

Með fyrirkomulagi því, er nefndin leggur til að haft verði, er trygt að alkvæðishafar fari vel með vald sitt, og skal eg reyna að færa þeim orðum nokkurn stað. Vér vitum það allir, að í þessum stöðum sitja nú menn, sem enginn ber brigður á, að færir munu til að fara með atkvæði fyrir landssjóðs hönd á aðalfundum, og tæplega munu aðrir en hæfustu menn komast í þær stöður. Það vill svo vel til, að nú situr í yfirréttinum maður, sem talsvert er fróður um bankamál og lengi hefir við þau fengist. Eg veit, að hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) muni svara því, að engin trygging sé fyrir því, að í framtíðinni kunni að vera í yfirdóminum menn, sem lakar væru að sér í þessum efnum. En eg skal þá benda honum á það, að líkindi eru til að hinir hafi svo vel sett sig inn í bankamál og séu svo vanir orðnir störfunum eftir að hafa farið með atkvæði ár eftir ár, að engin hætta verði á þessu, og jafnan munu einhverjir eldri dómendur sitja fyrir í yfirréttinum, þótt nýir komi með höppum og glöppum. Þá er það og ekki lítil trygging, að þessir menn eru slíkir, að ekki verður ætlast til þess, að pólitískar öldur, ef svo má að orði kveða, hafi nokkur áhrif á þá. — Svo ætti það að vera að minsta kosti.

Sama er að segja um landritarann. Vér vitum það allir, að nú gegnir því embætti skýr maður og glöggur í peningamálum, maður, sem fyllilega er treystandi til að fara vel með þetta vald sitt. Og eg efast ekki um það, að í framtíðinni skipi það sæti færir menn og vandaðir.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) játaði líka, að meiningin með frumv. væri sú, að Íslendingum yrði trygt vald yfir stofnuninni. Það er rétt. En hann bætti því við, að þeim tilgangi sé ekki náð með tillögum nefndarinnar. Eg veit ekki, hvort mér hefir tekist að skýra meiningu nefndarinnar svo vel, sem eg hefði viljað, en vona þó, að eg hafi svarað háttv. þm. N.-Ísf. (Sk.Th.) á fullnægjandi hátt.

Enn er eitt, sem vér megum ekki gleyma, og það er, að löggjafarvaldið hefir ærin tök á bankanum, þar sem bankaráðið skipa 4 Íslendingar af 7. Eg skil ekki annað en að svo vel sé um hnútana búið, að engin ástæða sé til að óttast um hag landssjóðs og landsmanna.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) taldi það til gildis breyt. sinni, að kosningin á mönnunum yrði eftir hlutfallskosningum. Eg játa, að það er kostur. En eins og nú stendur hefir minni hlutinn part í þessum mönnum, sem eftir frumv. eiga með atkv. að fara,— svo sjaldan mun svo að bera, að allir þessir menn fylgi einum og sama pólitískum flokki.

Þótt eg nú þannig kannist við, að háttv. flutnm. till. meini hið bezta, get eg þó ekki séð við rækilega íhugun, að till. sé til bóta, heldur verð eg þvert á móti að ráða háttv. þd. til að fella hana, og vona að mér hafi tekist að skýra, hvers vegna eg og nefndin geta ekki aðhylst hana.