06.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

113. mál, skipun prestakalla

Pétur Jónsson:

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) þótti skoðun mín nokkuð einstrengingsleg í þessu máli. En mér finst að slíkt mætti segja með meiri rétti um álit hans á málinu. Mér þótti nokkuð viðurhlutamikið, ef þetta litla frumv. gæti kipt til baka öllu því, er síðasta þing gerði í þessu máli, og leit eg þar á heildina. En þm. Snæf. (S. G.) komst ekki út fyrir sitt eigið hérað. Hann var það skamsýnni.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) talaði mjög um að rétti safnaðanna væri misboðið með brauðasamsteypunni. — Honum þótti rangt úr því menn borguðu jafnt til prests og áður, að prests-

þjónustan minkaði. Nú eiga þessir 105 prestar, sem gert er ráð fyrir með nýju lögunum, að hafa sömu laun samanlagt og 142 áður, prestsþjónustan verður þeim mun dýrari. Er þá ekki eðlilegt að menn verði að borga þeim mun hærra?

Þegar talað er um rétt safnaðanna, verður að skoða málið frá fleiri en einni hlið. Í raun réttri ættu söfnuðirnir að bera veg og vanda af prestum sínum. Þá fyrst er hægt að tala um réttindi og frelsi safnaðanna. Látum þá hafa stuðning til þess úr landssjóði og af kirkjueignum líkt og nú. En ef þeir sjálfir réðu sér prestsþjónustu og bæru af henni veg og vanda að öðru leyti, er eg viss um, að þeir mundu eigi kvarta um að sameina sig, svo og svo margir um einn og sama prest, af því það væri sparnaður,

Eg gekk að ýmsu leyti nauðugur með á síðasta þingi í þessu máli. Hefði miklu fremur kosið, að losað hefði verið um sambandið milli ríkis og kirkju meira en gert var. En eg sá ekki, að það gæti beðið lengur að bæta kjör sumra presta, og þá lá í bráð beinast við sú leiðin, sem kirkjumálanefndin valdi að fækka prestaköllunum og auka störf prestanna. Væri þessum grundvelli nú þegar kipt undan, teldi eg mig blektan.

Mér er það fullljóst, að gerðir síðasta þings eru gallaðar, eins og flest annað. Eigi að síður var þetta fyrirkomulag lagt fyrir síðasta þing, eftir ítarlegar athuganir milliþinganefndarinnar; hún sá ekki aðra leið færa að svo komnu máli og alþingi ekki heldur. Þykist nú þetta þing að lítt yfirveguðu máli og óreyndu geta lagað gallana með því að kippa hornsteininum undan réttarbótum síðasta þings?